14.02.1946
Neðri deild: 67. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

39. mál, girðingar kringum hveri og laugar

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Allshn. flytur brtt. við þetta frv., sem því miður er ekki komin úr prentun enn þá, en það er hægt og líklega rétt að leggja hana fram skriflega. Brtt. sú, sem allshn. hefur orðið ásátt um að flytja við þetta mál, er við 1. gr. frv., að aftan við gr. komi ný málsgr.: „Sveitarstjórn skal setja skrá um þá hveri og laugar, sem girða skal, og tilkynna eigendum.“ Það komu fram raddir um það hér, síðast þegar málið var til umr., að ekki væri nógu skýrt fram tekið í frv., hver ætti að hafa frumkvæðið í þessu efni, þó að allshn. þætti það koma nógu skýrt fram í frv., að sveitarstjórn ætti að hefjast handa um þetta og lögreglustjóri ætti að hafa eftirlit um þetta og annast framkvæmd, ef hún drægist um of. — Hv. 2. þm. N.-M. (PZ) var með brtt., sem hann lét n. í té, og er aðalefni hennar tekið upp með brtt. n. Hins vegar þótti n. ekki fært að ákveða, að þessu skyldi lokið svo snemma, að þetta yrði lagt fram á manntalsþingi nú í ár. Það er allt of skammur frestur.