14.02.1946
Neðri deild: 67. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

39. mál, girðingar kringum hveri og laugar

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég get ekki alveg gengið inn á það með hv. frsm. allshn., að þessi skýring sé einhlít, af því að þessi aðili kemur því aðeins til, að vanræksla verði á framkvæmd hjá þeim, sem skylda hvílir á um að setja upp þessar girðingar. Og ég býst við, að það verði aðeins undantekningar, að lögreglustjóri þurfi þannig að skerast í málin, heldur verði hlutaðeigendur við því, sem í þessum l. verður ákveðið, og setji girðingar kringum hveri og laugar, sem sveitarstjórnir álíta nauðsynlegt að setja girðingar í kringum. Þess vegna álít ég, að réttara sé að setja ákvæði um þetta, sem ég hef greint, og mætti það þá vera sveitarstjórn, sem ákveður bæði um þörfina á að setja upp girðingar þessar og líka, hvernig þær skuli vera úr garði gerðar, til þess að þessum tilgangi, sem í frv. getur, verði náð. Ég veit, að hv. frsm. er enga stund að bera fram brtt. til þess að koma þessu svona fyrir, því að ég álít undir öllum kringumstæðum öruggara að hafa þennan háttinn á.