30.11.1945
Efri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

119. mál, eyðing svartbaks

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti.

Ég þarf ekki að vera orðmargur um þetta frv. Fyrir 2 árum lá fyrir sams konar frv. um framlengingu á lögum um eyðingu svartbaks. Reynsla tveggja ára sýndi nauðsyn þessa, þar sem augljóst var, að þetta hafði haft mikil áhrif og æðarvarp hafði aukizt mikið, en áður var svo komið, að ungi sást varla orðið í mestu varpeyjunum. En þar sem l. hefur verið beitt, hefur orðið mikil breyting til batnaðar, þar sem ég þekki til bæði í Dala- og Barðastrandarsýslu. Kostnaðurinn við þetta hvíldi að nokkru leyti á sýslusjóði og nokkru leyti á ríkissjóði, og hafa sýslunefndirnar ekki kvartað undan kvöðum, sem af þessu leiddu, en það sýnir, að þeir telja frv. til bóta fyrir samhérunga sína, sem vilja koma sér upp varpi.

Þetta er einn alskemmtilegasti atvinnuvegur hér á landi, vegna þess að hér er fuglinn ekki alinn upp í þeim tilgangi að drepa hann að einu ári liðnu, heldur til þess að gera hann að skemmtilegu húsdýri. Í þeim tilgangi hafa menn laðað fuglinn að sér, heim í gluggagættir húsa sinna og strokið honum sem hverju öðru húsdýri. En fuglinn hefur tekið það sem sína öruggu vernd.

Ég orðlengi þetta svo ekki frekar, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.