15.11.1945
Efri deild: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

91. mál, gjaldaviðauki 1946

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Frv. þetta er nákvæmlega shlj. l. nr. 18 frá 1945, sem heimila ríkisstj. að innheimta nokkur gjöld með ýmist 100 eða 50% viðauka.

Eins og kunnugt er, er fjárlagafrv., sem liggur fyrir Alþ. nú, með rúmlega einnar millj. kr. rekstrarhalla, en um 13 millj. kr. greiðsluhalla, og það er augljóst, að ríkissjóður má ekki við því að missa af þeim tekjum, sem lög nr. 18 frá 1945 heimila.

Það er ekki með fullkominni nákvæmni hægt að segja um það ennþá, hve mikinn tekjuauka leiðir af löggjöf þessari, en eftir því sem næst verður komizt, mun hann nema 300 þús. kr. á mánuði, eða um 3½ millj. kr. á ári. Hann getur orðið eitthvað minni, og e. t. v. líka eitthvað meiri.

Það má náttúrlega um það deila, hversu réttlát þessi gjaldahækkun sé. Ég verð að játa, að það er sérstaklega eitt gjaldið, sem ég er í vafa um, hvort ekki er sett of hátt, það er stimpilgjaldið. Þegar stimpilgjald af afsölum getur komizt í 4%, er það tilfinnanlegt gjald, og má segja, að það sé óeðlilega hátt. Má kannske réttlæta það með því, að það vinni á móti óeðlilegri umsetningu á fasteignum. Það er það hátt, að menn finna dálítið til þess: En ég ætla, eins og sakir standa nú, að það sé að einhverju hægt að réttlæta það, þótt gjaldið sé sett hærra nú en á venjulegum tímum. — önnur gjöld, sem ræðir um í þessu frv., koma yfirleitt ekki sérlega mikið við almenning. Og þegar tillit er tekið til þeirra verðlagsbreyt., sem hafa orðið síðan fyrir stríð, þá ætla ég, að þau séu yfirleitt ekki hærri hlutfallslega, og reyndar ekki eins há hlutfallslega og þau voru þá.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. Ég vildi leyfa mér að leggja til, að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til hv. fjhn., og vildi ég þá um leið mælast til þess við þá hv. n., að hún hraðaði heldur afgreiðslu frv., og geri það með tilliti til þess, að ætla má, að ekki líði á löngu þangað til fjárl. koma úr n. En æskilegt væri að vita um sama leyti og fjárl. koma úr n., hvort treysta má því, að þessi tekjuauki verði heimilaður á næsta ári.