23.11.1945
Neðri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

60. mál, raforkulög

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hér liggja fyrir tvær brtt. við þetta frv., önnur á þskj. 175 frá iðnn. og hin frá hv. 1. þm. Skagf. á þskj. 171. Um brtt. á þskj. 175, frá iðnn., get ég verið stuttorður, því í henni felst ekki annað en það, sem bent var á hér við 1. umr. þessa máls, að það þyrfti að setja ákvæði um stöðu þeirra raforkuvera, sem nú starfa eða eru í smíðum, og heimila þeim að starfa áfram, eftir að l. þessi væru sett.

Um brtt. hv. 1. þm. Skagf. vildi ég segja það, að ég tel miður fara, að hann skuli vilja slá því föstu, að ekkert framlag skuli koma frá viðkomandi sveitarfélögum til móts, við þau stórkostlegu útgjöld, sem ríkissjóður hlýtur að leggja á sig við framkvæmd þessara l. Það hefur engin heildaráætlun verið gerð um, hvað það mundi kosta að tengja raforkuveitur um land allt. Við vonum allir, að þetta megi takast og það fljótlega. Og við erum allir sammála um, að það muni kosta mikið, ekki tugi milljóna króna, heldur hundruð. Ég skal viðurkenna, að aðstaða landsmanna til að hagnýta sér raforkuna er misjöfn, og þótt eytt væri stórfé til að jafna þetta, er ekki hugsanlegt að selja orkuna við sama verði um allt land, og það er ekki sanngjarnt, að þegar ríkissjóður leggur fram stórfúlgur til að jafna þessi met, þá skuli héruðin ekki vilja koma á móti. Það hljómar fallega, að allir eigi að fá orkuna við sama verði, og skal ég koma að því síðar. Varðandi brtt. hv. 1. þm. Skagf. um söluverð raforku, þá tel ég alls kostar óframkvæmanlegt að hafa einn taxta á allri raforku, og stafar þetta af tekniskum ástæðum. Til eru tvær leiðir til þess, að allir fái rafmagnið við sama verði. Annaðhvort að ríkið greiði mismuninn að fullu eða að þeir, sem betri hafa aðstöðuna, greiði fyrir hina, sem verri hafa aðstöðuna. Að þessum leiðum athuguðum tel ég ekki fært að setja 6. tölul. á þskj. 171 inn í frv., og mun ég þess vegna ekki greiða atkv. með þessari brtt. Ég hef nú að nokkru getið um helztu brtt., en vil geta lítillega um tvö atriði frá 1. umr., sem ég hafði búizt við, að bætt yrði um og ég mun flytja brtt. við, ef aðrir gera það ekki. Í. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að sveitarfélög eða einstaklingar geti fengið leyfi til að reka raforkuver allt að 500 hestöfl. Þetta tel ég eftir atvikum rétt að hækka upp í 1000 hestöfl, svo að ekki þurfi stöðugt nýjar lagaheimildir hér um. Hitt atriðið er, að mér finnst of mikill munur gerður á héraðsrafveitum, sem reknar eru af ríkinu, og öðrum héraðsrafveitum, þar sem ríkið veitir enga aðstoð í öðru tilfellinu, en leggur fram 2/3 stofnkostnaðar í hinu tilfellinu. Afleiðingin af þessu verður sú, sem þegar er farið að koma í ljós, að fram koma kröfur um ábyrgð ríkissjóðs fyrir því nær öllum kostnaði rafveitnanna. Ég hefði viljað slá því föstu, að ríkinu yrði heimilað að ábyrgjast 2/3 fyrir báða þessa aðila. Með því væri báðum gert jafnhátt undir höfði.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði hér áðan, að sýslusjóðirnir hefðu lítið fé til umráða. En ég vil benda á það, að hér í bæjunum er sá háttur hafður, að greitt er heimtaugargjald, þegar tengt er við í hverju húsi. Þannig mætti líka fara að í sveitunum og fá á þennan hátt verulega upphæð.

Viðvíkjandi því, að Alþ. hafi gengið á fyrri orð sín með því að ákveða ekki sama verð á raforku um land allt, þá segir svo í þáltill. 4. sept. 1942, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að kjósa 5 manna nefnd, er geri till. um fjárframlög til þess að byggja rafveitur í því skyni að koma nægilegri raforku til ljósa, suðu, hitunar og iðnrekstrar í allar byggðir landsins á sem skemmstum tíma, enda verði raforkan ekki seld hærra verði í sveitum landsins á hverjum tíma ....“ o. s. frv. Í þessari till. fólst það, að n. ætti að gera till. um fjárframlög, en það gerði hún aldrei. Þær fjáröflunarleiðir, sem áttu að gera þetta mögulegt, fundust aldrei. Þess vegna tel ég, að ekki sé gengið á nein orð né samninga í þessu efni. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til, að ég blandi mér frekar í þessar umr. Mér þykir vænt um, að samkomulag hefur náðst um aðalatriði, þótt deilt sé um aukaatriði.