23.11.1945
Neðri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

60. mál, raforkulög

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég vildi aðeins segja örfá orð út af ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hann telur, að heimtaugargjaldið yrði lélegur tekjustofn, en þetta gjald nemur einatt í bæjum þúsundum króna, og ég sé ekki ástæðu til, að heimtaugargjaldið verði haft lægra þar, sem kostnaðurinn við rafveiturnar er meiri. Um hitt atriðið, að söluverð raforku skuli alls staðar vera hið sama, þá vil ég endurtaka það, sem áður hefur verið bent á, að slíkt er ekki framkvæmanlegt af tekniskum ástæðum, en þetta fer einkum eftir því, hvernig orkuverðið er byggt upp.

Ég get ekki fallizt á, að Alþ. hafi slegið nokkru föstu um söluverð rafmagns til landsmanna. Samþykkt sú, sem gerð var, miðaði einungis að því, að rannsókn væri látin fram fara varðandi þessi mál.