23.11.1945
Neðri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

60. mál, raforkulög

Sigurður Þórðarson:

Fáein orð vildi ég segja út af ræðu hæstv. ráðh. Ég get ekki komið auga á þá teknisku örðugleika, sem eiga að vera því til fyrirstöðu, að sami taxti sé á öllu rafmagni. Og fram hjá því kemst hæstv. ráðh. aldrei, að Alþ. hefur samþ. ályktun hér um, sem hlýtur að gilda. En það er ætíð svo, þegar menn ætla að ganga á gefin heit, þá segja menn, að kringumstæður hafi breytzt. En síðan þessi samþykkt var gerð hefur ekkert breytzt.