05.12.1945
Neðri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

60. mál, raforkulög

Pétur Ottesen:

Ég hjó eftir því hjá hæstv. samgmrh. í gær, þegar hann var að ræða um brtt. iðnn., 3. lið, þar sem ríkisstj. er gefin heimild til að ábyrgjast 2/3 hluta stofnkostnaðar héraðaveitna, að það mundi vera óþarft að leita eftir slíkri ábyrgð með öðrum hætti eða með því að bera fram þáltill. um það efni, eins og gert er nú á þessu þingi. Það er þegar búið að vísa til fjvn. 2–3 slíkum till., auk þess liggja fyrir Alþ. 2 till. a. m. k. um þetta sama efni. Með öðrum orðum, þarna væri fengin heimild fyrir ríkisstj., sem tæki til allra slíkra framkvæmda, og það mundi bera að skilja ákvæðið svo, að það tæki jafnt til innanbæjarkerfa kaupstaða og kauptúna og til veitna úti um byggðir landsins.

Mér skilst, að þetta héraðaveitunafn taki samkv. þessu frv. til þessa hvors tveggja. Ef svo er ekki, þætti mér vænt um, að sá skilningur minn í þessu efni yrði leiðréttur. Nú er það vitað, að um langt skeið hefur verið fylgt þeirri reglu að veita ábyrgð fyrir 85 prósent af stofnkostnaði til slíkra framkvæmda. Upphaflega var heimilað að veita ábyrgð fyrir öllum stofnkostnaðinum, en hin síðari ár hefur það verið fært niður.

Ég geri ráð fyrir því, að sú niðurfærsla, sem brtt. gerir ráð fyrir, en hún er niður í 66%, muni valda miklum erfiðleikum hjá þeim, sem ætla eftir þessari leið að koma upp hjá sér héraðaveitum. Ég geng einnig út frá því, að þetta taki til endurbyggingar á þeim héraðaveitum, sem fyrir eru, og til innanbæjarkerfa, sem ég lít svo á, að séu í þessu falli eitt og hið sama. Með tilliti til þessa hefur okkur hv. þm. Mýr. komið saman um að bera fram brtt., sem gengur í þá átt, að ábyrgðin geti komizt upp í 85% í stað 2/3 kostnaðar, eins og gert er ráð fyrir í þessari brtt., sem hér liggur fyrir.

Þar sem gert er ráð fyrir, að þetta mál fái afgreiðslu á þessum fundi, þá vil ég leyfa mér að bera fram skriflega brtt. um þetta efni við brtt. á þskj. 266, 3. lið, og hljóðar hún svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir 2/3 kemur: 85%.“ — Mér virðist þetta geta fallið inn í orðalag till. Vona ég, að hv. d. geti fallizt á að láta þau ákvæði, sem gilt hafa nú um nokkurt skeið, gilda áfram.