05.12.1945
Neðri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

60. mál, raforkulög

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég bið hv. 1. þm. Árn. afsökunar á því, að þessi fyrirspurn hans skuli hafa farið fram hjá mér í fyrri ræðu hans.

Í framhaldi af því, sem ég sagði í gær um þetta atriði, vildi ég svo bæta svolitlu við. Vænti ég það muni skýra afstöðu mína til þessa vafaatriðis, sem hv. þm. spyr um.

Einkaréttur sá, sem ríkissjóði er veittur, er bundinn við 100 hestöfl, en rn. er heimilt að veita nokkrar undanþágur, eins og þarna segir, þ. e. a. s. til að halda áfram þeim virkjunum, sem þegar er byrjað á, ,eða eins og greinin er orðuð í brtt. n.: að leyfa aukningu á þessum raforkuverum, allt að fullri fyrirhugaðri virkjun o. s, frv.

Hv. þm. minntist á véltúrbínustöð Reykjavíkur. Það er farið að undirbúa þá stöð, m. a. með því að svipast um eftir efni í hana. Hér er ekki heldur um útbyggingu fallvatns að ræða í heild, eins og í Soginu. Enda veit ég, að rafmagnsstjóri hefur látið gera frv. um áframhaldandi virkjun Sogsins. Því að auðvitað getur Alþ. alltaf heimilað frávik frá því, sem þessi l. gera ráð fyrir, eftir því sem því þykir við þurfa. Ég tel líklegt, að það þyki vafasamt, að rafveitur ríkisins taki á sig að öllu leyti þessa nýju virkjun á Soginu, vegna aðkallandi verkefna á öðrum stöðum. Og ég tel sjálfsagt, ef hugsað er um frekari útbyggingu á Soginu, þá verði sett um það sérstök l., en það komi ekki undir þá heimild, sem hér er verið að samþykkja. Og það er einnig rétt, sem bent hefur verið á, að 6 mánaða fresturinn, sem áskilinn er í frv., er svo stuttur, að hann gefur ekki tækifæri til að skipuleggja nýjar stöðvar, sem ekki hefur verið farið að hugsa um áður. Ég fyrir mitt leyti tel þessa heimild, sem till. gerir ráð fyrir til undanþáguveitinga frá aðalreglu l., frekar of þrönga en of rúma, ef það á að vera tryggt, að einkaréttarákvæði l. tefji á engan hátt þennan gróður, og það tel ég aðalatriðið, eins og ég hef lagt áherzlu á áður.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og hv. 1. þm. Árn., að nauðsynlegt sé að halda þessum málum í föstum skorðum og byggja eftir heildarplani. En ég tel, að halda megi þessu í skorðum með eftirliti, sem ráðuneytið getur haft á hverjum tíma, þótt þetta falli ekki undir einkaréttarákvæði rafveitna ríkisins.

Ég tel þó, að með þeirri rýmkun, sem iðnn. leggur til í till. sinni á þskj. 266, sé þetta mál á viðunandi leið, og ætti ekki að þurfa að valda neinum töfum á framkvæmdum, þó að hún sé orðuð eins og hún er, því að heimild er til þess að veita ný leyfi til að reisa og reka raforkuver allt að 2000 hestöflum. Ég vil taka það skýrt fram, að skv. 4. málsl. brtt. fyrsta tölul. er með 2000 hestafla ákvæðinu veitt heimild fyrir nýjum stöðvum. Og þetta ákvæði tel ég muni koma í veg fyrir, að framkvæmdir þurfi að stöðvast, þótt rafveitur ríkisins gætu ekki tekið þær að sér. Ég vænti, að ég hafi með þessu fullsvarað því, sem hv. þm. spurði um.

Ég hafði ekki hugsað mér að fjölyrða frekar um þetta mál, en ég vil segja fá orð við hv. þm. Borgf. út af 3. brtt. á þskj. 266. Eins og frv. var lagt fram, þá felst ekki í því nein heimild. Þess vegna hafa verið bornar fram nokkrar till. um ábyrgð handa sérveitum bæði á Reykjanesi og Akranesi og víðar. Þessi ábyrgð hefur yfirleitt verið miðuð við 85% af stofnkostnaði veitnanna. Og væri þá tekin undir eitt öll veitan. 85% ábyrgðarheimild mun vera fyrir hendi til virkjana, bæði orkuvinnslu og aðallína, og mundi hér koma til viðbótar innanbæjarkerfi. Ég tel nú, þegar um innanbæjarkerfi ein er að ræða, þá sé ekki eins nauðsynlegt að hafa þessar prósentur svona háar, því að hér er gert ráð fyrir, að ríkissjóður virki algerlega á sinn kostnað, orkuver og langlínur verði kostuð af ríkissjóði. Eftir er þá innanbæjarkerfið, og ábyrgðarheimild fyrir það nemur allt að 2/3 hlutum. Kemur þá í hlut viðkomandi héraða að leggja fram með fjárframlögum eða sjá fyrir á annan hátt hluta upphæðarinnar. Ég álít það ætti ekki að vera svo mikill baggi fyrir viðkomandi hérað, að það risi ekki undir honum.

Hins vegar liggur málið öðruvísi við, þegar um er að ræða virkjun eins og Andakílsárvirkjunina, þegar viðkomandi hérað þarf, um leið og það ræðst í að byggja sína innanhéraðsveitu, að leggja fram 15% af stofnkostnaði orkuversins og 15% af stofnkostnaði við langlínuna. Ef Akranes og Borgarnes, sem eru þeir kaupstaðir, sem koma til með að njóta rafmagnsins frá þessari virkjun, hefðu ekki sjálfir þurft að ráðast í virkjunina og leggja línuna, þá efast ég ekki um, að það hefði verið hægara fyrir þá að standa straum af 1/3 kostnaðar við innanbæjarkerfi en 15% af öllum kostnaði. Og þó að þetta hittist svo á í þessu atriði, sem mætti laga, þá tel ég, að þetta geti ekki orðið neinn óviðráðanlegur baggi. Mér finnst það æskilegt af ýmsum ástæðum, að héruðin séu eins „interesseruð“ fyrir þessu og mögulegt er, þótt líka væri opin leið á hverjum tíma, að veiturnar geti komizt undir það, sem kallað er héraðsveitur ríkisins, og verði þá kostaðar og reknar af þeim. En það tel ég líka heldur verra, því að það er að ýmsu leyti gott, a. m. k. í öllum stærstu bæjarfélögunum, þar sem afsetning af rafmagni er mest og bezt, að þau séu sjálf eigendur að héraðsveitum. Af þeim ástæðum hafði ég orð á því hér áður í umr. um þetta mál, að það þyrfti að gera meira fyrir þær héraðsveitur, þar sem sveitarfélagið er eigandi á móti rafveitum ríkisins, til þess að þetta hallist ekki á, og þess vegna kom fram till. um, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast allt að 2/3 stofnkostnaðar fyrir héraðsveiturnar, sem ekki var upprunalega í frv.