05.12.1945
Neðri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

60. mál, raforkulög

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgmrh. fyrir skýringu hans á þessu ákvæði brtt. á þskj. 266, 1. tölulið, hvernig hann skilur þetta og hvernig skilja beri, því að með þeim skilningi virðist mér, að það sé skýrt afmarkað, að þessi heimild nær ekki nema til rafveitna, sem nú eru til staðar eða í smíðum. Þetta er algerlega bundið við, að svo sé, en eftir orðalaginu mátti skilja þetta víðtækara, ef engin skýring hefði fylgt. Verði þetta ákvæði samþ., sem ég að vísu tel naumast þörf á, vil ég vona, að framkvæmdinni verði hagað, hver sem með hana fer, eftir þessum ótvíræða skilningi hæstv. ráðh., eins og hann setti það fram.

Hæstv. samgmrh. drap á það, að það hefði verið nauðsynlegt að rýmka nokkuð einkaréttarákvæðin til þess að tefja ekki framkvæmdir. Ég lít hins vegar ekki þannig á þetta, en þó má að vísu færa rök með og móti. Ég álít, að þó að ríkið ætti að ákvarða allar stærri virkjanir sjálft, þá þyrfti það ekki að tefja fyrir framkvæmdum. Ríkið er sá aðili, sem samkv. l. landsins hefur allt í hendi sér. Sé það mjög aðkallandi að koma þessum framkvæmdum á fót, byggist það á þegnunum, þeirra fjárhagslegu getu og þeirra tiltrú, en þeir, sem fjármunina láta í té, það byggist fyrst og fremst á þjóðinni í heild, og þess vegna er á engan hátt lögð hindrun í veg fyrir, að þessar framkvæmdir komist upp, heldur þvert á mó,ti og jafnvel hraðar, ef ríkið hefur þær með höndum.

Ég vil svo segja það að lokum, að auðvitað er bót að því, að lagastafurinn sé skýr, góður og heilbrigður með heill alþjóðar fyrir augum, og að þetta mál byggist fyrst og fremst á skilningi, manndómi og víðsýni þeirra manna, sem það hafa í höndum sér. Þjóðin verður þess vegna að treysta því fyrst og fremst, að það ráðherrasæti, sem hefur þessi mál til meðferðar, sé skipað manni sem hafi þessa hæfileika til að bera, og að aðrir þeir starfsmenn, sem hann hefur undir sér, hafi sem líkust sjónarmið. Svo þegar til framkvæmdanna kemur og til þeirra hluta, sem taka til um öflun fjár, þá er það Alþ., sem kemur þessum mönnum til liðs. Ég vil því vona, að þjóðin beri gæfu til, að þeir menn, sem um þessi mál eiga að fjalla, hafi þann þroska, víðsýni og vilja til að bera, sem greiða sem bezt fyrir því, að sem mestur hluti þjóðarinnar geti orðið þeirra hlunninda aðnjótandi, sem raforkan lætur þeim í té, sem hennar geta orðið aðnjótandi.