14.12.1945
Efri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

60. mál, raforkulög

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég vil aðeins benda hv. þm. Barð. á, að í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir, hvernig fjáröflun og framkvæmd skuli hagað. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú telur ráðherra að fengnum tillögum raforkumálastjóra rétt að reisa ný orkuver eða koma upp nýjum orkuveitum eða auka við hin fyrri orkuver eða orkuveitur eða festa kaup á slíkum mannvirkjum, og leitar hann þá samþykkis Alþingis og gerir jafnframt tillögur um það, á hvern hátt fjár til þeirra framkvæmda skuli aflað. Tillögum sínum til Alþingis lætur ríkisstjórnin fylgja nákvæmar áætlanir um tekjur og gjöld af þessari virkjun.“

Þetta er það, sem í frv. stendur, og ég get vel hugsað mér framkvæmd málsins á þann hátt, að Alþ. ákveður í hvert sinn, hve mikið fé verður veitt til þessara framkvæmda, og síðan verður það lagt fram í þeirri röð, sem gr. segir, og þá kemst engin hreppapólitík að. Þetta fyrirbyggir það, sem við erum sammála um, að beri að forðast.

Að gefnu tilefni vil ég mótmæla þeim orðum hv. þm. Barð., að nokkuð hafi verið óþinglegt við þá ákvörðun að leggja Suðurlandsbraut sunnan heiðar, því að það var ákveðið með sérstökum l., sem voru samþ. á Alþ. að öllu leyti á þinglegan hátt.