27.02.1946
Efri deild: 73. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

60. mál, raforkulög

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Ég hefði talið æskilegt, að hæstv. samgmrh. væri viðstaddur þessa umr. (Forseti: Ráðh. er að koma.) Iðnn. hefur athugað þetta mál og haldið um það þrjá fundi og kvatt samgmrh. til viðræðu. Í raun og veru hefur n. komizt að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að gerbreyta frv., einkum að fella alveg niður 4. kafla og fella hann inn í 2. kafla. En með tilliti til þess, að með slíkri breytingu, sem n. taldi æskilega á frv., væri lítil von fyrir því, að það næði fram að ganga á þessu þingi, leggur, n. til, að frv. verði samþ. þrátt fyrir það, að hún sé mjög óánægð með undirbúning frv. En aðalatriðið er, að n. er sammála um, að hér sé mjög mikið nauðsynjamál á ferðinni, og auk þess liggur nú fyrir sægur af þáltill. um ábyrgð ríkissjóðs fyrir lánum til einstakra rafveitna í náinni framtíð, og aðallega þess vegna leggur n. til, að frv. verði samþ. á þessu þingi. Ef frv. nær fram að ganga eins og það nú er, þarf ekki að taka til meðferðar þessar þáltill., því að frv. sjálft heimilar ráðh. að veita viðkomandi rafveitufyrirtækjum ábyrgð fyrir allt að 85% af kostnaðarverði.

Ég vil þá minnast á nokkur atriði til athugunar fyrir hæstv. ráðh. Ég geri ráð fyrir, að þessu frv., þó að það nái fram að ganga nú, verði breytt verulega á næsta þingi, því að slíkur lagabálkur sem þessi er aðallega viljayfirlýsing um nauðsyn málsins.

Í fyrsta kafla og 1. gr. segir: „Ríkinu einu skal heimilt að reisa og reka orkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl.“ Viðvíkjandi þessu ákvæði hafa borizt fyrirspurnir, hvort skilja bæri þetta á þá leið, að ríkið yrði sjálft að byggja mannvirkið, þ. e. ráða til þess menn. Ég hef nú ekki skilið þetta ákvæði þannig, heldur aðeins að ríkið ætti að starfrækja og stofnsetja fyrirtækin, en hins vegar væri leyfilegt að bjóða virkjanirnar út til hinna ýmsu verktaka. Um þetta atriði vildi ég gjarnan fá upplýsingar hjá ráðh. Þá er annað atriði í þessari sömu grein, þar sem heimild er fyrir, að þeir, sem nú eiga raforkuver stærri en 100 hestöfl, reki þau áfram og jafnvel fái að auka þau, ef sú stækkun hefur verið fyrirhuguð. Mér finnst með þessu ákvæði í raun og veru kippt burt grundvelli frv., því að með þessu falla stærstu rafveitufyrirtækin undan ríkisrekstrinum, þ. e. þau, sem nú eru starfandi, og eins og vitað er, er fyrirhuguð stækkun á mörgum þeirra. Það verður því ekki um ríkisrekstur að ræða nema á þeim fyrirtækjum, sem erfiðast verður að reka.

Viðvíkjandi 2. gr. frv. þá hygg ég, að orðin „100 hestöfl eða minna“ hefðu átt að falla burt. Í 2, kafla frv. er gert ráð fyrir, að raforkuverin verði rekin sem sjálfstætt fyrirtæki af ríkinu, og tel ég því óvíst, að það beri að skilja þannig, að gjöldin verði ákveðin það há, að fyrirtækið beri sig. Mér finnst, að sums staðar í frv. stangist þetta á við önnur ákvæði, og vart verði þessu þannig fyrir komið eftir öðru, sem frv. gerir ráð fyrir.

Í 5. gr. frv. segir: Ráðh. ræður að fengnum till. raforkumálastjóra framkvæmdastjóra til að annast um daglega stjórn.“ Ég held, að úr því að raforkuráð á að vera til, verði heppilegra, að þetta orðist þannig, að í stað „að fengnum till. raforkumálastjóra“ kæmi: að fengnum till. raforkuráðs.

Í 7. gr. eru alls konar undanþágur. Allar stærstu rafveitur undanþegnar að vera í kerfi ríkisins. Þetta tel ég miður heppilegt.

Eftir 8. gr. á allur kostnaður við rannsóknir á virkjunarmöguleikum að greiðast úr ríkissjóði. Ég teldi eðlilegra, að hann væri greiddur úr raforkusjóði.

Í 9. gr. segir svo : „Nú telur ráðherra að fengnum till. raforkumálastjóra rétt að reisa ný orkuver eða koma upp nýjum orkuveitum“ o. s. frv. — Ég teldi heppilegra, að þarna kæmi „raforkuráðs“ í staðinn fyrir „raforkumálastjóra“.

Viðvíkjandi 11. gr., þá er þar rætt um, hvernig verja skuli tekjum raforkuvirkjana, en ekki sagt annað en tekjurnar séu áætlaðar með reglugerð. Gjaldskráin er sett svo há, að hún geti staðið undir rekstrarkostnaði, að viðbættum 10% í raforkusjóð. En það hefði verið rétt að setja inn í frv., að gjaldið yrði miðað við sem lægst verð.

III. kaflinn er bezt upp byggður, og nauðsyn, að hann fái staðfestingu á þessu þingi, en hann fjallar um héraðsrafveitur. — Ég vil leyfa mér að benda á, að í 18. gr. er annaðhvort prentvilla eða þá að n. hefur ekki skilið þetta, en þar stendur: „Nú eiga einstakir menn, félög eða héruð raforkuveitur á því takmarki“ o. s. frv. Þarna hlýtur að eiga að vera „svæði,“ en ekki „takmarki“. Síðasti málsl. í þessari gr. hljóðar svo : „Þetta leyfi veitir engan frekari rétt en þeir höfðu áður og er því ekki því til fyrirstöðu, að einkaréttarhafi stofnsetji og starfræki orkuveitu innan takmarka fyrirtækisins.“ — Það er spurning, hvort þetta ætti ekki að vera svo, að þessir menn séu skyldugir til að selja þeim aðila, sem ríkið ákveður.

Um IV. kafla er það að segja, að ég held, að fella mætti niður 23. gr., sem er endurtekning á 3. gr. í II. kafla. — 24. gr. er óviðfelldin. — 25. gr. er endurtekning á 6. gr. — Um 26. gr. er það að segja, að það er vafasamt, hvort ekki ætti að breyta henni, en þar stendur: „Framlag úr héraði greiðist úr sýslusjóði, og má í reglugerð, sem hver sýslunefnd semur og ráðherra staðfestir, setja um það ákvæði, hvernig sýslusjóði skuli koma sérstakar tekjur fyrir þeim greiðslum, þar á meðal þau skilyrði, að rafmagnsneytandi hafi greitt ákveðið gjald, heimtaugagjald, áður en veitutaugar eru lagðar að húsi hans eða jarðeign. Framlag úr sýslusjóði til héraðsrafveitu ríkisins getur sýslunefnd bundið við tiltekið mannvirki.“ Þetta hefði mátt koma undir I. kaflann. — Um 27. gr. vil ég segja það, að ég tel vafasamt, að hún geti staðizt, það er afar hæpið, að þetta hafi nokkra þýðingu, en verður til að tefja, að þeir, sem erfiðast eiga að fá rafmagn, geti fengið það. Og ef fyrir liggja áætlanir um 2 eða fleiri héruð, þá skal ávallt það hérað, sem beztar ástæður hefur, fá það, en ríkið ber kostnaðinn, og þeir borga, sem erfiðast eiga. Við eigum glöggt dæmi um samgöngurnar. Afskekktustu héruðin hafa alltaf verið látin bíða og borga, á meðan önnur héruð hafa fengið ágæta vegi.

Þá er það V. kaflinn. Ég tel vafasamt, hvort c-liður 33. gr. ætti ekki að falla niður. Ef d-liðurinn er samþ., þá er ekki ástæða til að hafa báða liðina. — Í 34. gr. stendur, að í Landsbankanum einum skuli ávaxta féð, og er það alveg óhæft. Það ætti að mega ávaxtast í hvaða banka sem væri, og má ekki halda við úlfúð milli bankanna. — 35. gr. er sú, sem hæstv. ráðh. lagði mikla áherzlu á, og hugsa ég því, að rétt sé að bíða eftir honum, sem fór til að vera við atkvgr. í Nd.

Ég vil leyfa mér að taka fram, að verði komið með brtt. undir þessum umr., þá hafa nm. óbundnar hendur að fylgja þeim eða koma með brtt. N, vildi ekki tefja fyrir málinu, þótt hún telji það ekki æskilegt í öllum atriðum. Vaxtafóturinn í þessu frv. er ákaflega lágur. Það er vel, ef samræmi kemst á, en ef ekki, þá er þessi vaxtafótur of lágur. Ef hann fer niður í 2%, þá þarf ríkissjóður að borga með lánunum.

Viðvíkjandi VI. kafla, þá virðist sem rafmagnseftirlit ríkisins sé ekki svo sjálfstætt með eftirlitið sem verið hefur. Eftirlitið er farið að taka að sér ýmsar framkvæmdir. Það er auðvitað alveg ótækt að hafa eftirlit með sínum eigin verkum.

Um stjórn raforkumálanna, þá er mjög til bóta, ef 53. gr. yrði breytt þannig, að raforkuráð réði einhverju, en væri ekki aðeins ráðgefandi. Ég hef þá bent á þær veilur, sem iðnn. þótti á frv., hún mun fylgja málinu, ef ekki koma fram brtt., en ef fram koma brtt., þá hefur hún leyfi til að koma með breytingar.