28.02.1946
Efri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

60. mál, raforkulög

Páll Hermannsson:

Herra forseti. Hv. form. og frsm. iðnn. hefur bæði í nál. og líka í framsöguræðu gert grein fyrir afstöðu iðnn. til þessa máls og að sumu leyti fyrir sinni sérstöku afstöðu, og þarf ég ekki að bæta við það. En ég hefði þó viljað gera nokkra grein fyrir minni eigin afstöðu til málsins. Ég hef sem sé orðið sammála meðnm. mínum um að leggja til, að þetta stóra frv. verði samþ. óbreytt við 2. umr. Þó er þetta frv. þannig úr garði gert, að ég hefði mjög kosið, að það hefði verið að sumu leyti á allt annan veg.

Það, sem ég set fyrst og fremst út á þetta frv., er það, sem reyndar er margumdeilt og margrætt á mörgum fundum undanfarið, að það mun koma í ljós, þegar menn fara að nota það rafmagn, sem nú verður framleitt, að menn verða að kaupa það á mismunandi verði, eftir því hvar menn eru staddir á landinu. Ég verð hins vegar að telja, að það væri nauðsynlegt, að menn fengju rafmagnið með sem líkustu verði, helzt með sama verði, hvar sem þeir búa, ef menn annars eru þannig í sveit settir, að það telst kleift að flytja eða leiða til þeirra þetta nauðsynlega afl. Ég geri nú ráð fyrir; að það séu til afskekkt svæði og strjálbýli, sem þannig eru sett nú, að það er varla við því að búast, að til þeirra verði hægt að leiða rafmagn með þeim aðferðum, sem enn hafa verið notaðar. En ef menn teljast geta fengið til sín rafmagnið, finnst mér nauðsynlegt, að menn fái það til sín með sem líkustu verði. Ég játa, að það kann að verða nokkuð erfitt að koma sér fyrir um þetta. Og mér sýnist, að eina leiðin til þess, að þetta yrði hægt, væri, að ríkið hefði einkarétt til þess að framleiða rafmagn og selja það í heildsölu. Á þann eina hátt virðist mér, að mögulegt mundi vera að fá aðstöðu eða tækifæri til þess að jafna á milli manna og koma því þannig fyrir, að þeir, sem bezt eru settir, beri í þessu efni í félagi við hina byrðar af því að vera verr í sveit settir. Langstærsta atriðið, sem stendur í vegi fyrir því, að þetta geti orðið þannig, eru að minni hyggju hinar stóru rafveitur, t. d. Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin, sem þegar eru til og aðrir reka og eiga en ríkið. Það hefur oft verið um það rætt, að þessi mannvirki ættu að falla undir heildina og saman við fyrirtæki ríkisins, til þess að unnt væri að jafna söluverði á rafmagninu meðal allra landsmanna, en þetta hefur hins vegar ekki fengizt. Ég verð að játa það, að mér finnst ekki nema mannlegt, þótt þeir, sem hafa getað eignazt þessar rafveitur og geta fengið rafmagn á miklu lægra verði en ef söluverð þess væri jafnað og það miðað við aðrar rafveitur, vilji ekki sleppa þessum réttindum, ekki sízt þegar á það er litið, að þessir staðir, sem eru settir eins og Reykjavík og aðrir fjölmennir staðir á landinu, geta ráðið öllu, sem þeir vilja, vegna mannfjöldans, sem á þessum stöðum er, og annarrar aðstöðu þeirra. Ég verð þess vegna að ganga út frá því, að eins og á stendur, þá sé þetta ófáanlegt, en geri jafnframt ráð fyrir, að menn muni smám saman átta sig á því og að það reki að því einhvern tíma, að ekki verði hjá því komizt, að þessi eftirsóttu og gagnlegu gæði, sem hér um ræðir, verði seld með líku verði til allra landsmanna. Ég verð að segja, að ég lít ekki fyrst og fremst á það ranglæti, sem mér finnst vera í því, að sumir þurfi að kaupa þessi gæði miklu hærra verði en aðrir, en lít miklu fremur á hitt, að þessi mismunur á óumdeilanlega eftir að hafa ákveðnar afleiðingar, sem ég býst við, að menn sjái betur, þegar fram í sækir, að eru óhollar og jafnvel hættulegar.

Það eru nú nokkur ár síðan Reykjavík fékk nokkurn veginn nægilegt rafmagn við fremur vægu verði. Þetta var auðvitað sjálfsagt, en að minni hyggju var ekki hægt að komast hjá því, að beina afleiðingin af þessu, sem sé að Reykjavík fékk nægilegt rafmagn með vægu verði, en aðrir staðir á landinu höfðu ekki rafmagn, hlaut að verða sú, að þessi gæði drógu til sín fólkið annars staðar frá. Það var einnig sjálfsagt að láta gera hitaveitu hér í Reykjavík, þetta einstakasta og merkilegasta mannvirki á landinu, en af þeim mannvirkjum varð sama afleiðingin, að þetta dró að sér fólkið, á líkan hátt og segullinn dregur til sín járn. Nú getur vel verið, að það sé gagnlegt að hópa fólkinu saman á ákveðna staði, en það getur líka komið fyrir, að slíkt sé ekki gagnlegt og geti jafnvel verið hættulegt, en allt rekur að því sama, að þetta dregur jafnt til sín fólk, sem heppilegt er að flytjist til þessara staða eins og það, sem ekki ætti að. færa sig til. Mér skilst, að mjög misjafnt verð á rafmagni til þeirra, sem nota það, muni einnig verka þannig. Það er enginn eðlismunur á þessu, aðeins stigmunur. Menn munu leita þangað, sem þessi gæði eru ódýrust að öllu jöfnu, og ég býst við, að þegar til framkvæmda kemur, komi það í ljós, að rafmagnið verði langódýrast í Reykjavík, af því að sá staður hefur til umráða eitt bezta vatnsfall á landinu, bezt til virkjunar fallið, í viðráðanlegri fjarlægð og hefur langsamlega fleiri menn til þess að notfæra sér rafmagn en aðrir staðir á landinu. Hins vegar býst ég við, að rafmagnið verði dýrast þar, sem erfiðast er að leiða það um, þrátt fyrir það, að eitthvað verði þar hlaupið undir bagga til þess að mæta kostnaðinum. Það, sem sérstaklega vantar til þess að hægt væri að hugsa til verðjöfnunar á rafmagni, er það, eins og ég nefndi áður, að til eru stórar rafveitur á beztu svæðunum, sem verða utan við kerfið í sveitunum. En þó að ég álíti, að þetta frv. þyrfti að vera öðruvísi en það er, hef ég samt lagt til, að það verði samþ. eins og það er nú, a. m. k. nú við þessa umr.

Ég finn, að ég þarf að gera grein fyrir því, hvernig á því stendur, að ég hef þá skoðun, sem ég hef lýst, og álít þó, að frv. þurfi að ýmsu leyti að vera öðruvísi en það er. Þetta stafar í fyrsta lagi af því, að aðalatriðið, sem ég hefði óskað, að væri í frv., sem sé stórum meira verksvið fyrir rafveitur ríkisins heldur en er, er ófáanlegt. Í öðru lagi tel ég ekki miklar líkur á því, að lítilsháttar lagfæringar, sem maður vildi fá á frv., mundu verða samþ. Þriðja ástæðan er sú, að ég tel engan veginn útilokað, að ef bornar væru fram brtt. við frv. og þær samþ., þá gæti það eins komið fyrir, að samþ. yrðu till., sem beinlínis spilltu frv. Ég læt mér nægja til stuðnings þessu áliti mínu að benda á það, að ég tel, að í hv. Nd. hafi verið samþ. brtt. við frv., sem færa það fjarri því marki, sem ég vildi, sem sé, að ríkið hafi sem mest af rafveitum á sinni hendi.

Þegar hæstv. ráðh. lagði þetta frv. fyrir Alþ., var eins og enn gert ráð fyrir því, að höfuðstefnan í framtíðinni yrði sú, að ríkið reisti og starfrækti rafveitur. Þó var í 1. gr. frv. gerð undantekning frá þessu, m. a. þannig, að ráðh. var gefin heimild til þess að leyfa öðrum en ríkinu undir sérstökum kringumstæðum að reisa og reka rafveitur, þó ekki stærri en 500 hestöfl. Þetta atriði tók þeim breytingum í hv. Nd., að ráðh. hefur nú eftir frv. heimild til þess að veita öðrum en ríkinu leyfi til þess að reisa og reka rafveitur, ekki allt að 500 hestöflum, heldur allt að 2000 hestöflum. Þetta verð ég að telja, að færi frv. úr lagi og spilli frá því, sem það var, er hæstv. ráðh. lagði frv. fyrir þingið. Mér er ekki grunlaust um, að eitthvað líkt þessu gæti komið fyrir, þótt á öðru sviði væri, ef hér yrðu bornar fram og samþ. brtt. við frv. Aftur á móti tel ég, að þetta frv. sé spor í rétta átt. Ég tel t. d., að það ákvæði, að stefna beri að því, að ríkið eigi að reisa og reka rafveitur og selji síðan þeim, sem eiga að nota rafmagnið, sé spor í rétta átt, þótt mér finnist það að vísu stigið of stutt. Ég tel það einnig skref í rétta átt, þar sem lagt er til í frv. að jafna að nokkru leyti þann mismun, sem er milli manna, ekki sízt í IV. kafla þess, þar sem beinlínis er tekið fram, að ríkinu sé ætlað að leggja fram verulegan hluta af stofnkostnaðinum, sem telst umfram það, sem rafveiturnar með sölu rafmagns á eðlilegu verði mundu geta borið. Þess vegna kýs ég, að þetta frv. verði að l. á þessu þingi, og hef lagt til, að ekki verði bornar fram við það till. við þessa umr., en geymi mér rétt til þess að yfirvega, hvort ég muni vilja eiga þátt í, að bornar verði fram brtt. við 3. umr.

Hv. frsm. drap á það í gær í sambandi við 27. gr. frv., að hann byggist við því, að það ákvæði gæti orðið til þess að ýta fólkinu í burtu úr viðkomandi héruðum, en í þeirri gr. er lagt til, að ríkissjóður skuli leggja fram óafturkræfa fjárhæð, svo að stofnkostnaðurinn, sem hvílir á rafmagnssölunni, verði ekki meiri en ætla mætti til þess að salan gæti borið sig með viðráðanlegu verði á rafmagni, en að viðkomandi héruð skuli þó ætíð leggja fram ¼ hluta af þessari niðurgreiðslu. Þetta ákvæði er ekkert annað en það, sem liggur dulið víða í frv., að ekki verði hægt með þessu fyrirkomulagi að selja rafmagn alls staðar á sama verði, en þarna er það beinlínis tekið fram, að héruðin þurfi að leggja fram aukið fjárframlag umfram aðra neytendur rafmagns. Hæstv. ráðh. svaraði þessu á þann veg, að fólkið úti í sveitunum og þó sérstaklega í þeim afskekktustu leggi heldur lítið í ríkissjóð og mundi sennilega fá sitt aftur á annan hátt en með aðstoð til raforkuframkvæmda. Ég get ekki neitað því, að mér þótti í svari hæstv. ráðh. þess gæta meira, hversu góður reikningsmaður hann er, heldur en annarra kosta, sem ég veit, að hann býr yfir. Ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. hefur reiknað það út, hve mikið fé þetta fólk greiðir til ríkissjóðs með tollum og sköttum og eftir öðrum leiðum, og hann getur líka reiknað út, hvað þetta fólk fær í staðinn, en eiginlega fannst mér það ekki vera þetta, sem frsm. vék að. Mér virtist hann frekar vera að virða það fyrir sér, hvort líkur væru til þess, að þetta ákvæði eða fyrirkomulag rafmagnsmálanna mundi draga fólkið burt úr sveitunum eða ekki, og hvort það væri heppilegt. Ef á að gefa svar við þeirri spurningu, hvort það sé heppilegt, að fólkið flytjist meir og meir úr sveitunum, eins og það óneitanlega hefur gert undanfarið og að því, er sumum virðist, um of, þá tel ég alveg víst, að hæstv. ráðh. verði að nota fleiri fræðigreinar en talnafræðina eina til þess að svara þeirri spurningu rétt.