28.02.1946
Efri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

60. mál, raforkulög

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. gaf mér ekki ástæðu til þess að verja miklum tíma til að ræða frekar um þetta mál. Hann viðurkenndi mest af því, sem við héldum fram í n. um galla frv., og hafði um það góð orð, eins og vænta mátti, og að það yrði tekið til athugunar og frv. endurskoðað.

Mér þótti vænt um, að hann skyldi taka undir það að athuga þyrfti fyrirkomulag á stjórn ráðsins, því að ég tel það mjög veigamikið atriði.

Mér þótti og vænt um yfirlýsingu hans og skilning á 1. gr. frv., sem er í algeru samræmi við minn skilning á henni, en taldi rétt að fá yfirlýsingu varðandi þetta atriði vegna ummæla, sem fram komu í bréfi frá ákveðnu stéttarfélagi.

Varðandi 2. gr. er ekki ástæða til þess að eyða tíma, þar sem um það atriði virðist algert samkomulag.

Viðvíkjandi 3. athugasemdinni heldur hæstv. ráðh. því fram, að fyrirtækin verði fjárhagslega örugg á þann hátt, að þeim verði lagt til óafturkræft fjárframlag. Bezta sönnunin fyrir því, að fyrirtækin eru ekki fjárhagslega örugg, er sú, ef leggja á fram stofnkostnaðinn annars staðar frá. Þess vegna er það ekki annað en mótsögn í frv., ef ekki á að ráðast í fyrirtækin, nema þau séu fjárhagslega örugg, því að þá þyrfti ríkissjóður ekki að leggja til þeirra stofnkostnaðinn, og benti ég á, að í frv. væri ósamræmi varðandi þetta atriði.

Viðvíkjandi IV. kafla, þar sem ræðir um nauðsynlega skiptingu verkefna milli ríkisrafveitna og héraðsrafveitna, þá er þetta einnig byggt á misskilningi, því að 6. gr., sem er um ríkisrafveitur, kveður á um, að þær selji einnig rafmagn í smásölu beint til neytenda, en þetta er gagnstætt því, sem hæstv. ráðh. hélt fram. (Samgmrh.: Það er aðeins undantekning. ) Meðan þetta stendur í frv., er ekki ástæða til þess að koma upp öðrum stofnunum, sem eiga að inna af hendi sama verkefni og ríkisrafveitum er ætlað í frv. Ég tel, að það sé rétt skilið, að ríkisrafveitur selji rafmagn beint til neytenda, þegar aðrir aðilar vilja ekki taka það að sér, og þess vegna tel ég, að IV. kafli frv. geti að mestu leyti fallið burt.

Viðvíkjandi 27.–29. gr. sagði hæstv. ráðh., að þau ákvæði, sem þar greinir, gerðu það einmitt mögulegt, að rafmagni yrði veitt út um sveitirnar. Ég er honum alls ekki sammála um þetta atriði, því að mér finnst Þau ákvæði einmitt gera þeim örðugt að fá rafmagn, fyrr en þá seint og síðar meir. Þarna er tekið fram, að fyrst eigi að koma upp rafveitum þar, sem þær geti bezt borið sig fjárhagslega, og verður þá að sjálfsögðu fyrst snúið sér að þéttbýlinu, en seinast að annesjunum, en það yrði kannske svo seint, að þá þýddi ekkert að leggja þangað rafmagn, því að þá hefði fólkið í dreifbýlinu leitað til þéttbýlisins, þar sem gæðin og þægindin eru. Er ég hræddur um, að svo geti farið, að þessi mikli lagabálkur verði hinn sterki segull til þess að draga fólkið burt frá sveitunum, nema sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að fyrirbyggja slíkt, og tel mjög varhugavert að leggja þyngri byrðar á herðar þessa sama fólks. Get ég ekki fallizt á, að þetta íþyngi ekki fólkinu, því að vitanlegt er, að þegar stórar fúlgur eru teknar úr ríkissjóði, þá kemur það niður á hvern einstakling í landinu, t. d. í sköttum og tollum.

Hins vegar er ég í meginatriðum sammála hæstv. ráðh. um frv. og að það nái fram að ganga, en í fullu trausti þess, að það verði athugað og af því sniðnir agnúar, sem ég hef bent á, legg ég til fyrir hönd n., að frv. verði samþ. óbreytt til 3. umr, og helzt að ekki verði hróflað við því, til þess að tryggja framgang þess hér á þessu þingi.