14.03.1946
Efri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

60. mál, raforkulög

Páll Hermannsson:

Herra forseti. Ég ber fram 2 brtt. á þskj. 538. Fyrri till. er um það, að fyrir „2000 hestöflum“ í 3. málsgr. komi: 1000 hestöflum. Ég gat þess við 2. umr., að mér þætti verra, að þessi heimild væri svona rúm, næði til svo stórra stöðva, því að ég óttaðist, að það mundi kippa undan aðalatriðinu, ef ríkið ræki rafstöðvarnar. Fyrst er þetta miðað við 500 hestöfl, en var breytt í Nd. í 2000 hestöfl, og vil ég fara meðalveginn, 1000 hestöfl.

2. brtt. er við 31. gr. Þessi brtt. er mjög lík brtt. á þskj. 541, frá meiri hl. n. Báðar till. ganga inn á, að fyrirmæli miðist við vatnsraforkustöðvar, en ekki t. d. mótora, því að fyrirmælin geta ekki átt við slíkar stöðvar. Ég var fyrri með mína brtt., en sé, að þær eru svo líkar, að munurinn er ekki meiri en svo, að ástæðulaust er að gera ágreining þar um. Ég get því tekið brtt. mína aftur, en mæli með brtt. meiri hl.