14.03.1946
Efri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

60. mál, raforkulög

Bjarni Benediktsson:

Hv. frsm. spurði mig, hvernig ég vildi, að væri farið með frv. um Sogsvirkjunina. Ég álít hiklaust, að eigi að samþ. það frv. Hitt er jafnaugljóst, að ef um mál er að ræða, sem ég álít, að sé verulega ábótavant í meginatriðunum, þá eigi að beita sér á móti samþykkt þess frv. Með því móti einu fullnægja menn sinni þingmannsskyldu. Og ef frv., sem hér liggur fyrir, er eins ábótavant og fram hefur komið í ræðu hv. frsm., þá get ég ekki fallið frá því, að réttara hefði verið að heimta betri undirbúning málsins af hæstv. ríkisstj. og láta samþykkt frv. bíða, ef ekki væri hægt að bæta það nægilega á þessu þingi, sem ég get vel fallizt á með hv. frsm., að ekki sé hægt að ætlast til, að venjuleg þingnefnd geti umsteypt slíku stórmáli, sem mþn. og ríkisstj. hafa haft til meðferðar. En ég tel, að það hefði verið þeim mun skaðaminna að láta þetta bíða sem það kom fram í ræðu hv. frsm., að það er ekki hundrað í hættunni, þó að frv. næði ekki fram að ganga, því að þá yrðu ábyrgðarheimildir samþ. með sérstökum ályktunum í Sþ. Og eins og hv. þm. sagði, þá kemur það nákvæmlega í sama stað niður, svo að ég get ekki séð, að það hefði verið nein hætta á því, að nokkur rafvirkjun hefði dregizt fyrir þessar sakir. Og úr því að ekki er hætta á því, og hv. frsm. hefur lýst yfir, að það væri ekki slík hætta fyrir hendi, þá get ég ekki séð, af hverju má ekki krefjast, að þetta mál sé eins skaplega úr garði gert og mögulegt er, en samkv. lýsingu hv. frsm. fer því ákaflega fjarri, að svo sé. Svo voru ekki fleiri orð um það.

En varðandi ummæli hv. þm. S.-Þ. þá skaut þar alveg skökku við. Hann vitnaði mjög í Eldeyjar-Hjalta, sem er merkur og góður maður. En Hjalta hefur farið á svipaðan hátt og sumum öðrum miklum framkvæmdamönnum og m. a. hv. þm. sjálfum, að afrekin eru svo mikil, sem þeir hafa unnið, að um sumt skolast til, hvað þeir hafa sjálfir gert og hvað aðrir, sérstaklega þegar þeir fá skáld til að færa það í letur, eins og Hjalti hefur gert. Þá verður þetta allt tilkomumeira en það er í raun og veru, svipað eins og skáldandi hv. þm. sjálfs hefur gert heldur sögulegra sumt af því, sem hann hefur nærri komið, en efni standa til. Ég efa ekki, að Hjalti hefur verið því hlynntur, að rafmagn væri leitt til bæjarins frá Soginu og fossarnir virkjaðir, en ég get fullyrt af náinni þekkingu, að í sögu þeirri, sem Guðmundur Hagalín hefur skráð um hann, er ekki rétt frá sagt um forgöngu hans í þessu máli. Það veit hv. þm. jafnvel og ég, og hv. þm. Str. veit það líka, þó að hann hafi gert sér það til gamans að rifja upp þessa skröksögu í útvarpinu. Þetta er frá skáldinu, en ekki Hjalta, sem er afar merkur maður og hefur svo margt unnið, að hann þarf ekki að taka á sig neinar lánsfjaðrir, sem skáldið hefur á hann sett í þessu efni.

En það var ekki þetta, sem var til umr., heldur það, að Framsfl. fjandskapaðist árum saman við rafmagnsmálin bæði út um sveitir og þá alveg sérstaklega rafmagnsmál Reykjavíkur, eins og hv. þm. man. Við þurfum ekki að fara þar í sögu Eldeyjar-Hjalta til að lesa, heldur bara lesa svo prosaiska bók sem þingtíðindin, sem sýna og sanna, að Alþingi var rofið á mjög hæpinn stjórnskipulegan hátt til að stöðva á Alþingi ábyrgðarheimild fyrir Sogsvirkjunina. Þar kemur enginn skáldskapur til, heldur er þetta mjög skýrt fram tekið af þáverandi forsrh. Framsfl. Það var því ekki eingöngu svo, að þeir tækju með úlfúð á till. Jóns Þorlákssonar í þessu efni, heldur beittu þeir sér með miklum krafti gegn tilraun, sem bæjarfélagið vildi gera. Ef hv. þm. S.-Þ. hefði beitt sínum mikla dugnaði og framkvæmdaþreki í þágu þessa máls í staðinn fyrir að tefja það í mörg ár, þá væri málið komið miklu lengra áleiðis en nú er. En ég fagna því, að hann er nú kominn í þá góðu sveit, og veit ég, að það verður drjúgur styrkur, áður en yfir lýkur.