06.02.1946
Neðri deild: 64. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

160. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Það var rétt fyrir þingfrestun, sem þetta mál barst í hendur sjútvn. þessarar hv. d. með ósk frá hæstv. ráðh. um að flytja málið. N. hafði ekki tíma til þess að fara í gegnum málið eins og hún hefði óskað, en sökum þess að liðið var á þing, vildi n. ekki tefja fyrir því, að málið fengi byrjunarafgreiðslu, og þess vegna flutti hún það með þeim fyrirvara, sem hér segir í grg. Ætlunin er því, að n. taki þetta mál aftur til athugunar milli 2. og 3. umr. Ég vil þó strax taka það fram, að kostnaðurinn, sem áætlaður er, og lánsheimildin er miðað við kr. 4400000,00, og er engan veginn miðað við þá aukningu, sem um ræðir á síldarverksmiðjunum frá 1930, heldur er hér um að ræða aukningu á ýmsum húsum með tilliti til hinnar miklu afkastaaukningar, sem orðin er hjá verksmiðjunum í heild. Þetta er m. ö. o. sameiginlegur kostnaður að verulegu leyti, bæði á lóðakaupum, húsakosti fyrir starfsfólk, fyrir vörugeymsluhús og stækkun á ketilstæðum.

Ég vil svo vænta þess, að hv. dm. athugi nákvæmlega þá áætlun, sem fylgir hér í grg. með fskj. I., og einnig grg. á fskj. II., en á þessu stigi málsins hef ég ekki f. h. sjútvn. aðrar óskir fram að færa en þær, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.