19.03.1946
Efri deild: 87. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

160. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Með frv. því, er hér liggur fyrir, er farið fram á, að síldarverksmiðjum ríkisins leyfist að taka að láni til stækkunar á SR 30 á Siglufirði kr. 4400000,00, og einnig farið fram á að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fjárhæð þessa.

Stj. síldarverksmiðja ríkisins ákvað vorið 1944 að stækka umrædda verksmiðju, en stækkunin hefur dregizt. Í grg. gerir stj. verksmiðjanna ráð fyrir því, að stækkunin verði fullgerð fyrir næstu vertið, þ. e. í sumar. Þessi stækkun nemur um 3 þús. málum á sólarhring, og er kostnaðurinn við hana áætlaður um 1½ millj. kr. En auk þessara aðgerða eru í ráði ýmsar aðrar framkvæmdir í sambandi við stækkunina, sbr. byggingu hinnar nýju verksmiðju, og er kostnaðurinn við þær og stækkunina á SR 30 alls áætlaður 4 millj. og 400 þús. kr., þótt hún nemi ekki meiru en þessari 1½ millj. Hins vegar er kostnaðurinn sundurgreindur í grg. á þskj. 392.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta mál sérstaklega. Það er gert í þskj.

Nd. samþykkti frv. óbreytt, og sjútvn. þessarar hv. d. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði einnig samþ. hér í d. óbreytt.

Ég sé svo ekki, að þörf sé að fjölyrða frekar um málið, en vil þó geta þess, að stj. síldarverksmiðjanna áleit, þegar hún ákvað að ráðast í áðurgreinda stækkun, að hægt yrði að nota eigið fé verksmiðjanna til þessara framkvæmda. En vegna þess að síldarvertíðin brást í fyrrasumar, hefur fé verksmiðjanna gengið svo mjög til þurrðar, að stj. þeirra hefur neyðzt til að taka bráðabirgðavíxillán í bönkum, en þau eru ótryggari en önnur lán. Taldi hún því, að full þörf væri að fá þessa ábyrgð fyrir föstu láni.

Ég vænti þess, að hv. d. verði við ósk stjórnar síldarverksmiðjanna um þetta.