12.11.1945
Neðri deild: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

81. mál, embættisbústaðir héraðsdómara

Flm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Það mun þykja svo, að það sé ekki vonum fyrr, að hér á Alþ. komi fram frv. til l. eins og hér liggur fyrir á þskj. 120, um embættisbústaði héraðsdómara. Eins og hv. þm. líklega vita, þá hafa nú í áratugi verið í gildi l. og reglur um vissa embættismenn í þjóðfélaginu, sem styrks hafa notið með ákveðnum hætti, til þess að eiga sér samastað. Ríkið hefur þó þegar fyrir tugum ára séð það, að embættismenn þessa lands, í rauninni hverjir sem væru, gætu ekki alls kostar verið þannig settir, að hægt sé að reka þá út af héraði, að þeir hafi hvergi höfði að að halla, ef á því þyrfti að halda og út af bæri. Hér er átt við í þessum eldri ákvæðum l. prestastéttina. Nú má vel segja, að þau l., sem þá voru sett um byggingu íbúðarhúsa á prestssetrum, hafi ekki nærri alltaf náð tilgangi sínum, eða m. ö. o. ekki hafi verið gengið eins vel í það mál og skylt hefði verið og ætla hefði mátt, en það hefur þó verið betra að veifa röngu tré en engu. Og enn má segja, að önnur stétt embættismanna hafi fengið af völdum ríkisins, einnig fyrir ári síðan, viðurkenningu, aðhlynningu til þess að koma upp bústöðum, og er það læknastéttin, þó að það hafi verið með nokkuð öðrum hætti, en þó hefur þetta verið aðhlynning og um það settar reglur með vissum skilyrðum, sem eru héruðunum meira eða minna í sjálfsvald settar. Sem sé, prestar, læknar og sýslumenn. En það er ein grein opinberra starfsmanna. sú greinin, sem enginn efar og allir vita, að er einmitt sú starfsgrein embættismanna, sem sjálft ríkisvaldið hefur fært út í byggðir landsins. M. ö. o., er hægt að hugsa sér, að ríkisvaldið standi prestalaust, er hægt að hugsa sér, að ríkisvaldið standi læknalaust, þó að þjóðin gæti það ekki eða fólkið. En það er ekki hægt að hugsa sér, að ríkisvaldið stæði án þess að þessir starfsmenn væru til, ekki einu sinni beinagrindin, ef sýslumenn væru ekki til. Nú hefði mátt hugsa sér, að þessi starfsgrein hefði orðið með þeim fyrstu, sem ráðamenn ríkisins, ríkisstj. og Alþ., hefði tekið að þessu leyti upp á arma sína, en af því hefur ekki orðið. Og það eru fleiri dæmi í þessu þjóðfélagi, sem sýna, að það hefur verið mest látið reka á reiðanum, sem mest hefur verið áríðandi og skyldast hefði verið úr að bæta. Það hefur sýnt sig berlega upp á síðkastið, að þetta hefnir sín. Og það hefur sýnt sig, að ekki er hægt að komast hjá því að greiða fyrir því, að þessir útsendu menn ríkisvaldsins hafi einhvers staðar inni með allt, sem þeim og ríkinu tilheyrir og þeir hafa undir höndum. Fyrir þá sök hafa undanfarandi ríkisstj. neyðzt til, þegar allt hefur verið komið í óefni, að festa kaup á húsum handa þessum mönnum. Um þetta hefur engin regla verið, því að á sama degi sem vandræðin hafa orðið augsýnileg og algerlega brýn, þá hefur orðið að ráðast í að kaupa hús, meira og minna ófyrirséð eða óséð, og eins og gefur að skilja, þegar ekki hefur verið hugsað um málið frá stofni, hefur þetta heppnazt misjafnlega, mjög oft ekki eins vel og æskilegt hefði verið og tilviljun, þó að í einstaka tilfelli hafi verið svo, að skaplegt mætti telja. Ég veit ekki, hversu mikið hefur verið rekið á eftir því, að hafizt yrði handa í þessu máli beint að frumkvæði ríkisstj. En hitt veit ég, að ýmsir starfsmenn hafa bæði fyrr og síðar talað um þetta við þá, sem valdið hafa haft, þar á meðal hef ég gert það oft og mörgum sinnum í mörg ár, því að ég vil, eins og ég sagði áðan, að þetta komi beint að frumkvæði ríkisstj., ríkisvaldsins, því að það sýndi þá, að nokkur áhugi væri fyrir hendi og nokkur skilningur vakinn og að fullur vilji væri til þess að nota góð tækifæri til þess að koma málinu í framkvæmd, og enginn efi er á því, að á þessum tímum hafa skapazt þau tækifæri með góðum fjárhag ríkisins til þess að byrja á þessum sjálfsögðu ráðstöfunum og hefja byggingar, eða að öðrum kosti öflun bústaða handa miklu fleiri en færri af þessum embættismönnum, en þetta hefur ekki verið gert. Aðeins þegar einhver embættismaðurinn hefur verið í stökustu vandræðum, hefur ríkisvaldið neyðzt til að fara út úr bæjardyrunum og skyggnast um, hvort nokkurs staðar væri skjól að fá handa hinum húsvillta, og hefur þá hús ýmist verið keypt af fráfarandi embættismanni eða öðrum mönnum handa embættismanninum, og þarf ég ekki að lýsa því frekar, að slíkt er alveg reglulaust. Þó getur heppnazt að fá góð og hentug hús, en slíkt fyrirkomulag getur ekki verið til frambúðar. Skal ég ekki fara út í það að lýsa þessum húsum, en ætla að greina frá því, að svo er nú komið um 7 af þessum embættisbústöðum, að hús hafa verið keypt á þann hátt af einum eða öðrum, helzt embættismanni, sem hefur orðið að ráðast í að byggja eða kaupa sér hús og komizt í fjárþröng með það, eða að nýr maður hefur komið í embættið. Oft hefur það meira verið fyrir góðvild, fyrir þegnskap fólksins, að menn hafa verið teknir í hús með embætti fyrir ríkisvaldið, sem það hefur vanrækt að hafa skýli fyrir. Þessir staðir eru: Hafnarfjörður, þar hefur verið keypt hús, sem ekki er hægt að nota til fullnustu fyrir embættið. Það er ekki hægt að ætlazt til, að embættismaðurinn noti það til íbúðar. Það er aðeins notað fyrir skrifstofur og fleira. Stykkishólmur, Ísafjörður; er þess skammt að minnast, að embættismaðurinn komst ekki inn og varð að kaupa hús af þeim, sem átti að fara. Sauðárkrókur, Húsavík; þar var hús keypt af embættismanninum. Eskifjörður; þar var keypt hús af embættismanninum, sem fór. Og svo eru það Vestmannaeyjar. Þar komst bústaðurinn í hendur ríkisvaldsins með vissum hætti til þess að sá, sem kom, gæti komizt þar inn. Þetta munu vera 7 staðir. Meira er mér ekki kunnugt um, að keypt hafi verið til þessa árs og með þessum rökum. Alls staðar annars staðar eru þessir menn í leiguíbúðum, sem er einnig eins og gefur að skilja alveg undir hælinn lagt, hversu fullnægjandi og þó öllu heldur ófullnægjandi þær eru, eða þá að embættismaður hefur sjálfur lagt í að kaupa eða byggja hús. Í þessu hefur ekki verið fylgt neinni fastri og öruggri reglu. En vitanlega eiga slík híbýli að vera byggð eftir föstum reglum, svo að öruggt sé, að þau séu vel nothæf og prýðileg til að vera bústaðir fyrir þann hluta ríkisvaldsins, sem er úti um byggðir landsins. Er það oft það eina, sem menn hafa af ríkisvaldinu að segja, og er það stundum gott og stundum ekki alltaf gott, því að þeir innheimta alla skatta, sem ríkinu ber að láta innheimta. Þessi hús eiga ekki aðeins að vera til íbúðar, heldur þurfa þau á allan hátt að vera til fyrirmyndar á alla lund, svo að öruggt sé, að þessir embættismenn, þessi hluti ríkisvaldsins utan stjórnarráðsins, njóti fullkominnar aðstöðu til þess að geta staðið við það, sem þeir þannig hafa tekizt á hendur fyrir hönd ríkisins. Það er mikið skjala- og bókasafn, sem embættið verður að liggja með bæði fyrir ríkið og héruðin og svo að sjálfsögðu þau miklu lausafjárverðmæti, sem á öllum tímum og meira á einum tíma en öðrum, en ávallt eru nú í meðferð þessara embættismanna. Þá eru það fjármunir og verðmæti, sem þeir eiga ekki, heldur ríkið, héruð, sjóðir og einstakar stofnanir, sem eru nú einu sinni reglur fyrir, að þeir hafa verið skyldaðir til að gegna þessu öllu saman. Það mun vera svo miklu meira en nokkur hér inni getur gert sér í hugarlund, sem fer og farið hefur forgörðum af merkilegum skilríkjum og verðmætum skjölum sakir þeirra óhæfu híbýla, sem þessir embættismenn hafa orðið að notast við, ekki sízt með skrifstofur og geymslur, að það verður ekki talið né heldur hægt að greiða það tjón. Fyrir utan það, ef þeir hafa tekið eftir slíku, þá hefur þetta ekki aðeins grotnað niður vegna lélegrar geymslu og orðið að bera það út úr embættunum, heldur hefur ekki þurft annað en að neisti yrði laus, svo að það blátt áfram hefur brunnið upp, sakir þess að ekki var hægt að verja þetta í kofanum. Því að hvar sem neisti var kominn að, var það gefið, þar sem þetta var úti um byggðir landsins, að ekki var hægt að ráða við það, og svo brann sums staðar allt til ösku, svo að ekki var urmull eftir af öllu embættinu. Ég fullyrði, að ef um bústaði væri að ræða með slíkum aðbúnaði sem tilheyrir skrifstofum og geymslum, sem er algerlega öruggur, þá hefði þetta ekki átt sér stað. Það er ekki að furða, þótt skemmist í gömlum timburhjöllum, þar sem miklu er troðið inn, og einn góðan veðurdag, þegar neisti kemst að því, að allt brenni upp á augnabliki, þar sem mest af því, sem hér er geymt, er eldfimt.

Það eru ekki meira en 10 ár síðan hætt var að telja eftir af ríkisstj. þessa lands, ef embættismenn árum saman kröfðust að fá einn skáp til þess að geyma eitthvað, af þessu í, þó að ekki væri nema peninga, sem þeir gátu ekki komið af sér, — ekki nema 10 ár síðan hætt var að telja þetta eftir, og svo voru þessir skápar ekki eldtraustir. Nei, þetta mál er svo sjálfsagt, að mig undrar það, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að ríkisstj. skuli ekki fyrir löngu hafa tekið það upp á sína arma til þess að framkvæma það á réttan og sjálfsagðan hátt. Þegar ég segi ríkisstj., þá meina ég það, eins og menn heyrðu, að þar get ég ekki hrósað eða lastað eina umfram aðra, það er m. ö. o. svo, að ríkisstj. hafa ekki tekið það upp á sína arma. Því var það eitt af sjálfsögðustu málum, þegar héraðsdómarar bundust félagsskap traustum, svo traustum, að allir héraðsdómarar landsins eru nú í einu félagi með sömu hagsmuni, meira og minna sameinaðir, þá er þetta eitt af fyrstu málunum, sem tekið er upp og undirbúið á líkan hátt og hér er fram komið og sent þáverandi ríkisstj., og síðan hafa fleiri en ein ríkisstj. komið til valda. Liggur þá málið í salti þar til félagsfundur á þessu hausti tekur það aftur upp, og er nú ekki hægt að komast hjá því að láta til skarar skríða. Um það, að hæstv. ríkisstj. vildi ekki beita sér fyrir þessu, má segja, að hún sé ekki verri en fyrrv. ríkisstj. hafa verið, því að þær hafa ekki gert þetta. Þó er það vafasamt fordæmi að taka fyrrv. ríkisstj. til fyrirmyndar í því, sem þær láta vera að gera af því, sem þeim annars bar að gera. En fyrir sakir þess skilnings, sem ég hef öðlazt af því, sem á undan er gengið, og sem form. félagsins, hef ég komið með málið inn á Alþ. Nú tel ég, að ekki saki, þótt ég flytji málið einn, og vil ég ekki hafa nein orð um það, hvort viturlegra hefði verið að fá menn úr 4 flokkum, einn úr hverjum flokki, til að flytja þetta. Ég þykist vita, að það hefði verið auðvelt, ef eftir því hefði verið leitað vegna þess að mér er kunnugt, að hver af þessum flokkum á ítök í þessari embættisgrein. Og allir finna til þess sama, og allir hafa úr öllum flokkum talað um þessa neitun ríkisstj., og þeir, sem að þessari ríkisstj. standa, fullvissa hver um sig, að þeirra flokkur mundi skilja þetta og sjá og vilja vera með í því að láta málið ná fram að ganga. Nú er á það að reyna og ætla ég ekki að hafa orð mín fleiri um það. Ég þykist hafa gefið fullnægjandi lýsingu á þessu máli, þó að í smáum stíl sé, og birt hér spegilmynd af því, sem ástandið greinir sig sjálft að vera. Ég tel, að það hljóti að vera á vitund allra, að það, sem ég nú hef látið ummælt, er rétt. Nú vænti ég þess, að hæstv. ríkisstj. og hv. alþm. vilji af alhug styðja að framgangi þessa máls, og legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.