08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

6. mál, togarakaup ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Það hefur verið mönnum mikið áhyggjuefni undanfarin ár og áratugi, að togaraflotinn hefur gengið úr sér og togurum hefur fækkað í landinu. Þetta hafa menn oft rætt sín á milli, og það hefur oft verið rætt hér á hæstv. Alþ. Þess vegna er ekki nema eðlilegt, að tækifærið sé notað, þegar þjóðin hefur eignazt mikið fjármagn, til þess að endurnýja togaraflotann. Um þetta eru allir Íslendingar sammála. En það er ýmislegt í sambandi við framkvæmd þessara mála, sem ástæða er til að ræða, þó að menn séu sammála um þetta. Ég vil því láta falla hér örfá orð, áður en málið fer til nefndar.

Það er þá fyrst þetta : Það var látið í veðri vaka við síðustu stjórnarmyndun, að nauðsyn bæri til, að Íslendingar gerðu nokkrar áætlanir um það, hvernig þeir vildu byggja upp atvinnulífið á næstunni og hvað mikið ætti að leggja í hverja atvinnugrein fyrir sig og hvaða tæki væri heppilegast að nota. Mér er nú ekki kunnugt um, að tilraun hafi verið gerð til þess að koma upp slíkum áætlunum. Þó hefði verið nauðsynlegt, að undinn hefði verið að því bráður bugur. Og náttúrlega hefði það verið þýðingarmikið í sambandi við slíka áætlun að reyna að gera sér grein fyrir því, hversu mikla áherzlu skyldi leggja á togaraútgerð og einnig, hvers konar togara heppilegast væri að fá. Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði, því að togarar eru endingarmiklir hlutir, og það verður þjóðin að búa við næstu áratugi, sem nú er ákveðið í þeim efnum. Ef togaraflotinn verður endurnýjaður nú í einu lagi á einu ári, má búast við, að þess gæti lengi í sjávarútveginum, hvernig þau ráð takast.

Ég hjó eftir því, að hæstv. forsrh. sagði áðan, að þegar borizt hefðu þau tíðindi frá sendimönnum Nýbyggingarráðs í Bretlandi, að hægt væri að fá keypt nokkuð mörg botnvörpuskip, þá hefðu menn verið kvaddir til þess að ræða um það, hvaða stærð ætti að velja og hvaða gerð væri heppilegust, og hefðu menn setið yfir þessu í nokkra daga. Ég er ekki að setja út á það, að þetta var gert, en hefði álitið, að það hefði átt að gerast fyrr og áður en sendimenn fóru á stúfana til þess að athuga þessi mál, þá hefði átt að leggja áherzlu á að komast að niðurstöðu í þessum efnum, áður en hafizt var handa. Ég skal ekki fullyrða, að ekkert hafi verið gert til undirbúnings í tæka tíð, en ýmislegt af því, sem hefur komið fram áður og kom fram nú hjá hæstv. forsrh. um mismunandi skoðanir á því, hvaða gerð togara væri heppilegust, virðist benda í þá átt, að þetta mál hafi ekki verið undirbúið í heild sinni, áður en til framkvæmda var gengið. Ekki segi ég þetta fyrir það, að ég dragi í efa, að heppilegt sé, að Íslendingar eignist allmarga togara, því að þegar þess er gætt, að Íslendingar hafa misst 6 togara á stríðsárunum og þess er þá líka gætt, að nokkrir af þeim togurum, sem nú eru í gangi, munu vera affarafé, þá virðist liggja í augum uppi, að það sé ekki óeðlilegt, þó að Íslendingar eignist ný skip. En þegar 30 skip eru keypt í einu lagi og svo að segja af einni gerð, þá spyr margur, hvort við höfum ekki fest of mikið fjármagn í þessari einu gerð skipa. Ástæða er til þess að benda á áhættuna, sem því fylgir að festa einmitt nú kaup á 30 skipum í einu lagi af einni og sömu gerð. Þá kemur einnig spurningin um það, hvort þessi nýju skip séu svo fullkomin sem skyldi til langrar frambúðar. Það hefði þurft að leggja áherzlu á að komast að niðurstöðu um þessi atriði áður en farið var af stað með þessi mál. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að nú, þegar búið var að gera samninga um kaup á 30 togurum með gufuvélum, kom fram till. í bæjarstj. Reykjavíkur, frá fulltrúa Alþfl., um að leggja áherzlu á, að aflað verði til landsins 10 dieseltogara, og fulltrúi annars stjórnarfl. í bæjarstj. Reykjavíkur, Sósfl., kom með till. um að kaupa marga dieseltogara. Ég er ekki maður til að gerast dómari um það, hvernig gera eigi togara úr garði tekniskt, en ég vil benda á það, að fram hafa komið raddir um þetta frá svo mörgum mönnum, og sumum, sem hafa glöggan skilning á þeim hlutum, að mér finnst það liggja fyrir nú þegar, að þetta hafi ekki verið nægilega krufið til mergjar, áður en menn bundu sig við svo marga togara af þessari einu gerð. Nú skilst mér einnig, að togarar þeir, sem keyptir hafa verið, séu ekki í verulegum atriðum frábrugðnir þeim togurum, sem Íslendingar hafa haft og hafa verið beztir. Eftir því að dæma er tæplega um mikla nýja tækni að ræða á skipum þessum. Sé þetta rétt, verður það til þess að leiða hugann að því, að á undanförnum árum hafa menn mjög rætt það og byggt vonir á því að von væri fullkomnari veiðitækja en áður hafa þekkzt. Hvað rætist mikið af þessum vonum manna í sambandi við þá togara, sem hér er búið að gera samninga um? Ég skal ekki leggja dóm á það, en hræddur er ég um, að einhver verði fyrir vonbrigðum af skipum þessum að því er þetta snertir. Vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., sem mikið hefur talað um tækni, hversu mikið af þessum vonum, sem hann og aðrir hafa gert sér, muni rætast í sambandi við þau togarakaup, sem nú hafa átt sér stað. Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði. Mig skortir kunnugleika til þess að ræða það í einstökum atriðum, að hve miklu leyti ný tækni geti komið hér til greina, en fyrir styrjöldina heyrði maður talað um möguleika á því að koma fyrir um borð í skipunum áhöldum til þess að vinna úr fiskúrgangi og nýta aflann yfirleitt miklu ger en hægt hefur verið á gömlu togurunum. Talað var um nýtízku togara sem grundvöll að nýrri stefnu í fiskveiðaframleiðslu, nýtingarstefnu, í stað þess að áður hafði mikið farið forgörðum. Spurningin er, hvort veruleg nýsköpun hefur átt sér stað með þessum togarakaupum. Allt það, sem ég hef nú sagt, og þá ekki síður verðið á þessum skipum gefur tilefni til þess að spyrja: Var nokkurt vit í því að kaupa svo mörg skip í einu að ekki meira athuguðu máli? Var ekki réttara að kaupa færri nú, en reyna að fá enn þá heppilegri nýtízkuskip síðar. Vafalaust hefði það verið skynsamlegra.

Þá kem ég að öðru sem hefur nokkuð borið á góma í sambandi við það mál, sem var hér á dagskrá á undan. Ég hef haldið því fram, að stjórnin hefði ekki átt að kaupa báta og skip án þess að hafa kaupendur að tækjunum. Í stað þess hefði hún átt að segja: Nú höfum við þessi tilboð og óskum eftir því, að einstaklingar, félög og bæjarfélög segi til um það, hvort þeir vilja gera kaup eða ekki. Þannig álít ég, að stj. hefði átt að fara að við báta- og togarakaupin. Hún hefði átt að afla upplýsinga og tilboða og síðan beina þessum spurningum til landsmanna. Hæstv. forsrh. segir, að þetta hafi ekki verið hægt vegna þess að hér hafi orðið að flýta sér svo mikið og þessi aðferð hefði orðið til þess að drepa málunum á dreif. Þetta getur ekki verið rétt, því að það er alveg augljóst, að ef þessi mál hefðu verið undirbúin í samráði við þá, sem hafa haft áhuga og viljað gerast kaupendur að togurunum, þá hefðu samningar getað gengið alveg eins fljótt og raun hefur á orðið, því að ég hef ekki trú á því, að þessir aðilar séu svo miklu svifaseinni en ríkisstj., að þeir hafi ekki getað gert sér grein fyrir því á jafnskömmum tíma og hún, hvort skynsamlegt væri að ráðast í að gera þessi kaup eða ekki. Ég kalla það vantraust á einstaklingsframtakinu að halda því fram, að einstakir forráðamenn útgerðarfyrirtækja séu ekki færir um að taka ákvörðun um þetta á jafnskömmum tíma og stj. Ég er ekki að finna að því, þótt gerðir séu samningar um fleiri skip saman, heldur hinu, að kaupin eru gerá án bindinga af hálfu þeirra, sem skipin ættu. að kaupa að réttu lagi. Enn fremur vil ég segja það í sambandi við bæjarfélög, sem hafa áhuga fyrir togaraútgerð, að ég hef enga trú á því að bæjarstj. hefðu verið neitt seinni í þessum efnum en ríkisstj., ef málið hefði frá öndverðu verið undirbúið í samvinnu við þær. Ég álít, að það sé óþarft og hættulegt, að ríkisstj. taki á ríkissjóð stórfellda áhættu í þessum efnum umfram það, sem nauðsyn ber til, og ég er sannfærður um, að þessir stóru samningar hefðu verið betur vandaðir, gerðir af meiri hugkvæmni, þekkingu og varasemi, ef þeir hefðu verið gerðir þannig, að þeir, sem eiga að kaupa tækin og nota þau, væru með í ráðum og ábyrgð. Það var þá fyrst tími kominn fyrir stj. til þess að gera sér grein fyrir því, í samráði við Alþingi, hvort hún ætti að gerast beinn kaupandi að einhverjum skipum, ef það hefði komið í ljós, að skort hefði vilja hjá landsmönnum í þessum efnum. — Í þessu sambandi vil ég benda á það, að löngu áður en stj. gerði þessa samninga, þá gerði sjútvn. bæjarstj. Reykjavíkur sínar ályktanir um þessi málefni, og það er alveg auðséð, að sjútvn. Reykjavíkurbæjar ráðgerði, að farið skyldi að um þessi mál alveg eins og ég hef gert ráð fyrir, þ. e. a. s. samráð haft við hana um samningana.

Ég hef lagt áherzlu á, hvaða leið ég hefði talið rétta í þessu máli, ekki sízt vegna þess, að ég tel það eðlilegt, að þeir aðilar, sem safnað hafa í sjóði vegna skattafríðinda á undanförnum árum, bindu það fé með kaupum á togurum, og þá er eðlilegt, að þeir bindi sig strax og taki nú þegar þátt í þessum kaupum og þar með áhættunni.

Varðandi bæjarfélögin er hið sama að segja. Þau áttu auðvitað einnig að segja til strax, enda var það skylda stjórnarinnar, sem hún einnig vanrækti, að láta liggja ljóst fyrir, hvaða lánskjör yrðu látin í té. Þannig átti að ganga frá sölu innanlands um leið og innkaupum skipanna og hafa allt vel undirbúið fyrirfram. Þá hefðu þessi kaup tekizt betur en ástæða er til að ætla nú, að orðið hafi.