08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

6. mál, togarakaup ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég ætla að koma með nokkrar fyrirspurnir. Þær stafa víst af fákunnáttu minni í sjávarútvegsmálum. Það má vera, að allir viti þetta nema ég, en þeim mun greiðara ætti þá að vera að svara spurningunum.

Í gær var stj. gefin heimild til að festa kaup á bátum. Frv. var afgr. til fjhn. Í þeim umr. sagði hv. form. Nýbyggingarráðs, að verið væri að smíða fyrir einstaka menn hér á landi 11 svipaða báta og þá, sem ríkisstj. væri heimilað að láta smíða. Það upplýstist enn fremur, að frá Svíþjóð væru komnir nokkrir bátar, líklega hátt upp í tug, af svipaðri gerð. Hv. þm. Borgf. sagði, að verið væri að smíða 6–8 báta í Danmörku fyrir menn á Akranesi, og einhverjir bátar eru í smíðum þar fyrir utan. Vissa er fyrir smíði 50–60 báta eða í kringum það. Og svo bætast þeir bátar við, sem samþ. hefur verið að láta byggja í Svíþjóð. Og loks er gert ráð fyrir smíði nýrra togara. Mun því vera von á 120–130 nýjum bátum og togurum.

Nú er fyrsta spurning mín sú: Hvað mikið er af þeim flota, sem nú er í eigu landsmanna, úr sér genginn, svo að þessir nýju bátar koma í þeirra stað? Ég hef heyrt forsrh. telja, að togararnir væru ryðkláfar og manndrápsbollar sem ekki væri siglandi á út fyrir landsteinana. En ég hef líka heyrt hann telja hv. þm. Barð. allra manna færastan til að dæma um skip og það, sem að þeim lýtur, og hann hefur ekki álitið þessi skip meiri ryðkláfa en það, að hann er nýbúinn að kaupa eitt þeirra af félagi því, er hæstv. forsrh. er stundum kenndur við, til þess að gera það út, hefur líklega keypt það á hálfvirði nýs togara, eða vel það. Ég veit varla, hverju trúa skal. Mín fyrsta spurning er því sú: Hvað fer mikið af þessum nýju bátum og togurum til eðlilegs viðhalds í staðinn fyrir skip, sem ganga úr sér? Á ég þá ekki við báta, sem farast af óhöppum, sem menn sjá yfirleitt ekki fyrir, nema þá kannske einstaka eigendur skipanna, sem farast. Þegar þetta er upplýst, þá sér maður líka, hvað af þessum nýja flota kemur hreinlega í viðbót við flotann, sem fyrir er, og þarf nýjan mannskap. Og í sambandi við þessa fyrstu fyrirspurn mína vil ég spyrja: Hvar í landi eru skipstjórarnir, stýrimennirnir og vélamennirnir, sem eiga að fara á þessi skip, sem koma í viðbót við flotann?

Á tíu ára fresti, eða þegar ártalið stendur á heilum tug, er tekið manntal, þar sem þjóðinni er skipt eftir atvinnu. Árið 1930 voru sjálfstæðir framleiðendur í sveitum 6620, en 1940, eftir allan sóninn um flótta úr sveitunum, voru þeir 6896. Verkamönnum í þjónustu þeirra hafði fækkað um 800 á þessum 10 árum. Þannig var ástandið í landbúnaðinum. En sjálfstæðir útgerðarmenn voru 1930 791, fjölgaði upp í 855 á 10 árum, ef til vill hefur þeim fjölgað eitthvað síðan. En starfsfólkinu, sem þessir menn höfðu í þjónustu sinni, fækkaði á þessum árum úr 7646 niður í 5550. Þetta bendir til þess, að útgerðin hafi færzt í stærri báta og skip, svo að þurft hefur tiltölulega færri menn. En sérstaklega er það iðnaðurinn, sem tekið hefur breytingum á þessum 10 árum. Iðnrekendum hefur fækkað, en tala verkafólks hefur nær tvöfaldazt. Hafa þeir menn, sem ætla að vinna að því að fá þessa nýju báta, rannsakað það, úr hvaða hópum meðal þjóðarinnar á að taka verkafólk á þessa báta. Mér hefur skilizt, að nýlega hafi komið fram till. í bæjarstj. Reykjavíkur um að framkvæma stórtækar húsabyggingar í Reykjavík, og þá hafi mönnum orðið ljóst, að þetta var ekki hægt nema að fá erlent verkafólk; og einn fulltrúi Sósíalistaflokksins — með langa aftanínafninu — hafi komið með ósk um það, að horfið yrði að því ráði, vafalaust af því að mönnum var alveg ljóst, að vöntun var á verkafólki. Enda hefur nú undanfarið alls staðar kveðið við það sama: Það er varla hægt að fá verkamann til nokkurs starfs. — Það getur nú verið, að öll þessi viðkoma sé eingöngu í staðinn fyrir skipin, sem á að leggja upp, að menn fari af manndrápsbollunum og á sæmilegu skipin. En ef um einhverja aukning er að ræða, sem mér hefur skilizt á umr., og sumir telja hana allverulega, — þá er alveg víst, að það þarf fólk. Og þá er mín önnur spurning þessi: Frá hvaða atvinnuvegi á að taka þetta fólk? Hvaða atvinnuvegur er það, þar sem allir menn hafa ekki nóg að gera og meira en það? Ég á ekki bara við verkamenn, líka faglærða menn. Ég hygg, að það muni nú vera starfandi í flotanum allmargir vélamenn, sem hafa leyfi til að starfa þar án sérmenntunar þeirrar, er krafizt er að þeir hafi að landslögum, og hafa fengið það vegna þess, að faglærða menn vantaði. En þarna virðist þurfa að bæta við þó nokkuð mörgum mönnum, þegar skipin koma. Á þá líka að veita þeim undanþágu? Einhvern tíma hef ég heyrt formann Sjómannafélagsins halda því fram í þinginu, að þessir undanþágumenn við vélarnar væru stórhættulegir fyrir líf og heilsu manna á skipunum, því að hæpið sé, að þeir séu starfi sínu vaxnir.

Það eru þá sérstaklega þessar tvær spurningar, sem ég vil fá svarað : Hvað mikið af þessum skipum á að koma í staðinn fyrir skip, sem eiga að fara í naust og verða ónýt? En um skipin, sem eiga að koma í viðbót, — frá hvaða atvinnuvegi á að taka mannskap á þau?