08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

6. mál, togarakaup ríkisins

Jóhann Jósefsson:

Hv. 2. þm. N.-M. minntist á bátasmíði og togarakaup, sem fyrir liggja, setti fram spurningar og las upp margar tölur, eins og honum er lagið, því að hann er tölfróður í meira lagi, og jafnvel svo, að venjulegu fólki veitir erfitt að fylgjast með allri hans tölvísi. En slík vísindi ber ekki að lasta. Og þó að ég geti ekki veitt fullkomin svör við öllum spurningum hans, get ég látið uppi lítils háttar upplýsingar, hvernig það ber að, að nú hefur verið ráðið að byggja fleiri báta í einu og kaupa frá útlöndum — og raunar togara líka —- en áður fyrr. Við Íslendingar erum búnir síðan nokkru fyrir aldamót að stunda veiðar á vélbátum af ýmsum stærðum og gerðum. Og eftir því sem árin hafa liðið hafa þeir margir hverjir ekki verið beisnir, þó að útgerðarmenn og sjómenn hafi, mest sökum vanmáttar síns, orðið að bjargast við miklu fleira en þeim var samboðið, og afraksturinn eðlilega orðið nokkuð eftir því. Einkum og sér í lagi hafa sjóslys orðið á undanförnum árum miklu meiri fyrir það, hvað vélbátaflotinn hefur verið — ég vil ekki segja ónýtur — en illa hæfur til þeirrar sjósóknar, sem Íslendingar hafa með höndum og hefur harðnað svo að segja með ári hverju. Það er orðinn langur tími síðan menn töldu kyndilmessu upphaf vetrarvertíðar, en ekki er lengur miðað við hana, þó að hún sjáist enn á almanakinu. Sjór er sóttur við strendur þessa lands frá ýmsum verstöðvum á öllum mögulegum tímum árs, jafnvel í svartasta skammdeginu. Tekur slíkt meira á skip og menn heldur en ef menn sæju sér fært að bíða eftir því, að út á liði, eins og gert var hér áður fyrr. Það er þess vegna áreiðanlegt, að stór fjöldi sjómanna og útgerðarmanna hefur árum saman og jafnvel áratugum búið við báta, sem eru of litlir og hafa of lítinn vélakraft samanborið við það starf, sem þeim er ætlað, baráttuna við þau náttúruöfl, sem þeir eiga í stríði við. En þegar litið er yfir bátaflotann, getur það auðvitað orðið eilíft ágreiningsefni, hvaða skip beri að kalla algerlega úrelt. Það getur ýmsum þótt matið of hátt eða lágt. Ég býst við, að hvorugur okkar hv. 2. þm. N.-M. geti reiknað það út, og geri ég þar á engan hátt lítið úr hans tölvísi. Ýmislegt af því átakanlegasta, sem komið hefur fyrir á sjó við Ísland, hefur átt sér stað síðan sjósóknin harðnaði, að sótt er í svo að segja hvaða veðri sem er, eins og gert er víða úr stærri og jafnvel smærri veiðistöðvum. Er áreiðanlegt, að skipakosturinn yfir höfuð er of lítilfjörlegur. Á síðastliðnu ári töpuðust algerlega eitthvað um 16 bátar, og er það ekki lítill hundraðshluti. Einhverjir bátar, sem eru í smíðum, koma vitaskuld í þeirra stað. En við því er nú að búast, að margir, sem hafa haft lítilfjörlega báta, sækist nú eftir því að fá sér nýja, stærri og betri báta. Ég hef nýlega í blaðagrein sýnt fram á, að þessi nýsmíði, sem hefur vaxið sumum hv. þm. svo mjög í augum, er í fullu samræmi við vilja og fyrirætlanir þeirra manna, sem eiga að njóta togaranna og bátanna. Og þetta byggi ég á því, að pantanir þessara skipategunda eru langt fyrir ofan þá tölu skipa, sem verið er að byggja.

Þó að annar hv. þm. kjósi sér sjálfsagt annan mann í virðulegri stöðu en ég er til að svara sér, má rétt geta þess, þegar heimtað er, að ekkert sé í þessu gert fyrr en búið er að bera sig rækilega saman við væntanlega kaupendur, að sú ályktun var borin fram af fyrrv. stjórn og samþ. á Alþingi að kaupa Svíþjóðarbátana, þá veit ég ekki til, að borið væri undir hvern einasta báteiganda fyrirfram um hvern einstakan bát. Þeirri ákvörðun mun hafa ráðið sú skoðun, sem er talsvert útbreidd, að rúmlega 50 tonna og 80 tonna skip væru hentug. Þegar ákveðin var stærð á þeim bátum, sem ríkisstj. er að láta smíða hér innan lands, var beinlínis farið eftir því, hvað mikill fjöldi manna hafði látið í ljós í umsóknum til nýbyggingarráðs, að þeir vildu eignast 30–35 tonna báta og 50–55 tonna báta. Fyrir því voru valdar stærðirnar 35 til rúmlega 50 tonna bátar, eða 53 tonn, til að smíða á vegum ríkisstj. innanlands.

Um skipshafnir á þessa báta hafa ýmsir áhyggjur, og þar á meðal hv. 2. þm. N.-M. Í fyrsta lagi munu þeir verða mannaðir af þeim, sem ýmist hafa misst báta og fá sér þess vegna aðra nýja, eða skipshafnir og aðrir starfsmenn sleppa gömlum bátum, sem búið er að notast við helzt til lengi, og taka við þeim nýju. Það verður og að gera ráð fyrir því, að sá, sem pantar bát eða togara, hafi eitthvað fyrir sér í því, hvaðan hann ætli að fá vélamenn og skipstjóra. Mér er sagt, að á flestum íslenzkum skipum, fiskiskipum líka, séu miklu fleiri skipstjóralærðir menn en yfirmenn skipanna, og á togurum sé alvanalegt, að skipstjóralærðir menn séu hásetar, jafnvel árum saman.

Þá má ekki gleyma, að með hverju ári vaxa upp nýir árgangar af mönnum, sem velja sér atvinnu eftir sínu hugarfari, og ef dæma má eftir reynslu liðinna tíma, þá er engin ástæða til að ætla, að æskumenn landsins dragi sig í hlé frá að taka þátt í framleiðslustörfunum á hinum nýju og betri fiskiskipum, þar sem vitað er, að þeir hafa verið dugandi kraftur og sterkur í því að reka fiskveiðar á hinum eldri skipum.

Fleira tel ég ekki þörf á að taka fram í þessu sambandi viðvíkjandi fyrirspurnum hv. þm. N.-M., en hitt er vitað, að vitaskuld má lengi um þessa hluti deila, en ef sú þróun heldur áfram hér á landi, að menn velji sér atvinnu eftir því, sem löngun og hæfileikar þeirra standa til, þá held ég að enginn þurfi að bera kvíðboga fyrir, að ekki verði til menn á þessi skip.