29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og fram er tekið í nál., sem prentað er á þskj. 223, hef ég áskilið mér rétt til þess að fylgja og flytja frekari brtt. við þetta mál en n. öll stendur að og prentaðar eru á nefndu þskj. Í samræmi við þetta hef ég leyft mér að bera fram sérstaka brtt. á þskj. 230. Það er efni þeirrar brtt., að öll börn og unglingar séu fræðsluskyld á aldrinum 7–15 ára, en þó geti fræðsluráð ákveðið, að fræðsluskylda í einu eða fleiri skólahverfum innan fræðsluhéraðsins skuli aðeins ná til 14 ára aldurs, ef hlutaðeigandi skólanefnd óskar þess. Það er nú öllum ljóst, sem um þetta mál hafa fjallað, og verður það æ ljósara, því meira sem um það er hugsað, að það er ómögulegt að ætlast til þess að hrundið verði í framkvæmd á næstunni eða allra næstu árum að fullu því, sem gert er ráð fyrir í þessum till., sem mþn. hefur samið. Það eru margar hindranir á þeirri leið. Það vantar skólahús á mörgum stöðum. Það vantar kennara, a. m. k. sérkennara í ýmsum greinum, og fleira getur jafnvel komið til álita í því sambandi. Þess vegna er það öllum ljóst, að það verður að veita nokkra undanþágu frá því, a. m. k. fyrsta kastið, að framkvæma þetta skólakerfi til fullrar hlítar. Og það felst í þessari brtt. minni og er að þessu leyti í samræmi við það, sem öll n. hefur staðið að og fram kemur m. a. í 2. tölul. þeirra brtt., sem n. flytur óskipt.

En svo er annað, sem kemur til greina í þessu en skortur á kennurum og á skólahúsum. Í þessu frv. og þeim frv., sem fylgja í kjölfar þess, er gert ráð fyrir því, að kennslu sé skipt í tvo meginþætti, þegar barnaprófi er lokið, þ. e. bóknámsdeild og verknámsdeild. Og ég hef það í huga, að það séu allmikil líkindi til þess, jafnvel þó að húsnæði fyrir allan nemendafjöldann verði til staðar, í ýmsum skólahverfum, að það muni enn um stund skorta mjög á, að fullnægjandi tæki og fullnægjandi skilyrði verði fyrir hendi til þess að veita unglingum mögulegt að stunda verknám. Það mun verða miklu erfiðara um vik, a. m. k. til sveita, að fullnægja því ákvæði um allan aðbúnað en þó að geta tekið unglingana til náms. Þetta þurfum við líka að hafa í huga við afgreiðslu þessa máls. Mitt álit er, að við þurfum að ganga svo frá málum, að meðan þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi, þó að húsnæði sé fyrir hendi, þá séu ekki allir unglingar, sem ekki hafa löngun til bóknáms, hnepptir í skyldufræðslu og verði að ljúka bókfræðinámi vegna skorts á tækjum til verknámsdeildar. Vegna þessa vildi ég hafa undanþáguheimildina nokkuð rýmri en n. stendur öll saman um, þar sem til er tekinn viss árafjöldi, þangað til þetta á að koma til framkvæmda að fullu.

Þriðja atriðið í þessu, sem felst í brtt. minni, er það, að þar sem fólkið sjálft, sem að skólunum stendur, hefur ekki áhuga á því að bæta við skyldunámi fyrir unglingana að svo miklum mun sem frv. að öðru leyti gerir ráð fyrir, þá þykir mér eðlilegt, að löggjafinn gangi nú svo frá þessu a. m. k. nú, þegar hann er að lögleiða þetta, að það liggi fyrir, að það sé nokkur heimild í l. til undanþágu frá þessu, sem tekið er fram í frv. um skólaskyldualdurinn, ef eindreginn vilji væri fyrir því í einhverjum skólahverfum að láta ekki skyldunám ná nema til 14 ára aldurs. Mér finnst eðlilegt, að skólanefndir og fræðsluráð, sem eru eins konar menntamálan. héraðanna, hafi úrskurðarvald um þetta. Þær eru fulltrúar fólksins í þessum málum, þær bera ábyrgð gagnvart fólkinu sjálfu. Þá finnst mér sú ákvörðun, sem þessar n. taka sem fulltrúar fólksins í sveitunum um þetta atriði, eigi að vera byggð á þeim vilja, sem fyrir hendi er á hverjum stað. Þó að þetta yrði lögfest og brtt. mín samþ., þá er engin hindrun lögð í veg þess, að allir unglingar, sem þess óska, geti átt kost á þessari fræðslu heima fyrir og skólarnir taki á móti hverjum þeim, sem vill halda áfram námi þar, heldur er aðeins verið að fyrirbyggja það, að nemendur séu nú þegar skuldbundnir svo, að þeim sé engrar undankomu auðið, hvernig svo sem viðhorf fólksins sjálfs er heima í héruðunum. Nú kynnu ýmsir að segja, að með þessu stefni ég að því, að engar framfarir verði í raun og veru, engu verði við bætt frá því, sem nú er um fræðsluna, þar sem skólaskylda sé nú lögbundin til 14 ára aldurs. En þegar vel er að gáð, er víst, að þessu er ekki svo farið. Það er vitanlegt, að sú hugsun hefur vakað á bak við lögfestingu þessa frv., að svipaðar kröfur verði gerðar um barnapróf og nú er, þó að það sé ekki beint fram tekið í frv. Sú hugsun, sem þarna er á bak við, er það, að sú námsskrá, sem fræðslumálastjórnin setur, verði svipuð um barnaprófin, sem nú eiga að fara fram um 13 ára aldur, eins og nú er við 14 ára aldur samkv. eldri l. Þó kemur þarna til viðbótar nokkurt framhaldsnám. Þessi till. mín brýtur því ekki í bága við þá meginstefnu, sem mörkuð er með þessu frv. og mþn. hefur gengið frá. Og meira að segja hefur mþn. talið æskilegt, að lögboðin yrði námsskylda til 16 ára aldurs, en jafnframt tekur n. fram, að hún vilji ekki standa að því að gera skýlausa kröfu um það nú þegar, heldur telur hún eðlilegt, að þetta yrði framkvæmt smátt og smátt í samræmi við þá þróun, sem yrði í þessum málum. Mþn. segir m. a. á einum stað í grg., að það sé aðgæzluvert að fylgja slíkri þróun og sé það heillavænlegra en að eingöngu sé um valdboð að ræða: „Lífið sjálft á að prjóna sér haminn.“ Það er einmitt þetta, sem ég hef í huga með brtt. minni, að lífið sjálft prjóni sér haminn, að Alþ. gangi ekki lengra en þar er til tekið um að ákveða skyldunám nú þegar. Hitt fyndist mér mjög geta komið til álita, og ég vænti, að sú framkvæmd verði á höfð, að þetta verði athugað t. d. að nokkrum árum liðnum. Í rauninni er það líka tæplega rétt fyrir löggjafann að ákveða vissar skyldur, áður en ríkisvaldið treystir sér til að hafa þau skilyrði fyrir hendi, að hægt sé að fylgja þeim skyldum í framkvæmd.

Með þessum orðum vildi ég aðeins skýra það, að í brtt. minni felst ekki frávikning frá þeirri stefnu, sem mörkuð er í þessum málum, heldur aðeins nokkuð rýmri heimild til undanþágu en veitt er í sameiginlegri till. menntmn.