29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi svara hv. þm. A.-Sk. Hann vildi halda því fram, að ég hefði farið rangt með. Ég taldi, að þó að skólaskylda væri nú miðuð við 7 ára aldur, væri heimilt að veita undanþágu allt upp í 10 ára aldur bæði samkv. gildandi l. og einnig samkv. 3. gr. frv. um fræðslu barna. Þar segir svo: „Nú sækir skólan. í sveit um, að skólaskylda hefjist ekki í skólahverfi hennar fyrr en við 8, 9 eða 10 ára aldur, og getur fræðslumálastjórn þá veitt undanþágu að fengnum meðmælum námsstjóra.“ En ummæli hans um þetta virðast byggð á misskilningi. Hins vegar er það rétt, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, að í gildandi l. er ætlazt til, að fræðsluráð veiti þetta leyfi, en fræðsluráð gefur ekki fullnaðarúrskurð, — fræðslumálastjóri getur hvenær sem er tekið fram fyrir hendur þess bæði samkv. frv. og gildandi l., þannig að því er slegið föstu, að fræðslumálastjórnin ákveði þessa undanþágu. En samkv. till. hv. þm. er ætlazt til, að fræðsluráð ásamt skólan. gefi fullnaðarúrskurð um þetta atriði.