31.10.1945
Neðri deild: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

6. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég vil geta þess við hæstv. forseta, að fallið hefur niður í nál. meiri hl. að geta framsögumanns.

Meiri hl. hefur ekki margt um þetta að segja. Lítill ágreiningur hefur orðið um frv., en þó lítils háttar, og kemur hann fram í brtt. minni hl., en meiri hl. sá ekki ástæðu til að breyta lántökuheimildinni, því að erfitt er að reikna út, hve mikla lántöku þarf. Er til þess ætlazt, að lánin verði greidd af þeim, sem kaupa skipin.

Ekki þótti ástæða til að gera um kaupin fyrir einstaklinga, en um greiðslu á lánunum fer eftir því, hvaða samningar verða gerðir um greiðsluskyldu. Ef til kemur, að frv. þetta verði að lögum, er gott, að ríkisstj. hafi frjálsar hendur um lán handa einstaklingum og bæjarfélögum. Hafa nú þegar borizt pantanir um 43 togara, en hér er gert ráð fyrir, að keyptir verði 30.

Okkur dettur ekki í hug að halda fram, að þeim pöntunum, sem komið hafa, sé öllum treystandi, þannig að þeir aðilar, sem beðið hafa um að fá keypt skip, geti fullnægt greiðsluskilmálum þeim, sem ríkisstj. hefur bundið sig við gagnvart þeim, sem skipin byggja. En vitanlega hafa margir, sem pantað hafa skip þessi, möguleika til að greiða þau, enda er upplýst, að nýbyggingarsjóðir eru nú um 18 millj. kr., svo að þar er fyrir hendi þegar töluvert fé til kaupa þessara skipa.

Ríkisstj. hefur nú þegar gert bindandi samninga um kaup þessara skipa. Og þess vegna teljum við í meiri hl. fjhn. ekki sérstaka ástæðu til þess að setja nákvæm ákvæði í l. um sölu skipanna. Það er ekki vafi á því, að hæstv. ríkisstj. reynir að ganga ríkt eftir um greiðslur fyrir skipin, eftir getu hvers eins og skyldum til þess að borga.

Það kom ekki fram í n. ágreiningur um, að það mundi vera rétt af ríkisstj. að ganga frá þessum kaupum, enda er framleiðslan á þessum skipum lítil á móts við eftirspurnina eftir skipabyggingum. Ef því eitthvað þarf að fá gert í slíkum efnum, þarf að gera um það skjótar ákvarðanir. Og þess vegna er þessu máli svo langt komið, og þess vegna voru bráðabirgðal. um þetta efni sett.

Hættan í sambandi við það, að ríkið sitji eftir með nokkur skip, er ekki stórhætta fyrir þjóðfélagið, ef það á annað borð er nauðsynlegt fyrir landið að auka skipastól sinn. Hin hættan mundi hafa verið miklu meiri, ef einstaklingar hefðu verið látnir standa fyrir því að gera samninga um togarakaup, þannig að þá hefði jafnvel ekki fengizt neinn togari til landsins fyrr en eftir lengri tíma. Það gengur nú svo fyrst eftir stríðið, og kannske lengur, að slík viðskipti sem þessi verða í heiminum yfirleitt meira á milli ríkisstjórna en áður hefur verið.

Þessi togarakaup eru gerð af miklum stórhug, og í þeim lýsir sér tilfinning ríkisstj. fyrir því, að sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar og einnig hinu, að hinu opinbera beri nokkur skylda til að sjá landsmönnum fyrir vinnu og nauðsynlegum gjaldeyri og nauðsynlegum innflutningi, sem okkar fáskrúðugu atvinnuvegir nauðsynlega þurfa með. Þessu höfuðsjónarmiði er meiri hl. fjhn. sammála og gerir sér vonir um það, að þessi togarakaup reynist vera happaspor fyrir þjóðina.