20.02.1946
Efri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Frsm. minni hl:

(Jónas Jónsson) : Þetta mál hefur varla fengið eins góðan undirbúning og maður skyldi ætla, þar sem það umbreytir algerlega því uppeldisformi, sem hefur viðgengizt á Íslandi í þúsund ár, og innleiðir hér mjög framandi fyrirkomulag, sem kannske hefur getað átt við hjá útlendum þjóðum, t. d. í stórborgum iðnaðarlandanna, en ekki ástæða fyrir fram að halda, að eigi hér við að öllu leyti.

Ég held, að ekki væri óviðeigandi að vekja máls á því, hvernig þessi stóra nýjung, sem hér er borin fram, hefur komizt á framfæri í þessu formi, sem hún hefur nú.

Það mun hafa verið 1942, fyrir kosningarnar þó, að tveir framsóknarþm., Bjarni Bjarnason og Pálmi Hannesson, bera fram þáltill. um að skipa n. til að íhuga skólamál landsins. Þessi till. var rædd í Sþ., en það kemur glögglega fram í þingtíðindunum, að áhugi hefur ekki verið mikill fyrir þessu, því að þegar Pálmi Hannesson er að mæla fyrir till., þá kvartar hann um, að séu auðir stólar, og það, tók heldur hér um bil enginn til máls. Till. sýnir, að þessir tveir skólamenn hafa viljað gera eitthvað til endurbóta, en það liggur ekkert fyrir frá þeirra hendi um, að öllu eigi að umsnúa í uppeldi þjóðarinnar. Till. var samþ. Þá var menntmrh. hv. þm. Str., sem átti að tilnefna menn í n. Ég geri ráð fyrir, að það, að hann gerði það ekki, hafi verið af því, að honum hafi ekki þótt það mikil nauðsyn. Síðan hverfur hann frá ráðherrastörfum, en í staðinn kemur hv. 1. þm. Reykv., en hann sá ekki, heldur ástæðu til að sinna þessari till. Að öllum líkindum hafa báðir gleymt, að þessi þál. væri til, af því að enginn áhugi var á bak við, eins og líka kom fram í ræðu Pálma Hannessonar, þegar hann var að tala um auða stóla.

Svo kemur utanþingsmannastj., og hún skipar n., og sýnist hafa ætlazt til, að í henni væru menn úr öllum flokkum eða menn, sem ættu þar innangengt. Það kom fram með Einar Arnórsson, þáverandi menntmrh., að þótt hann sé kannske ekki í neinum flokki, þá stendur hann svo nærri einum flokki sem hægt er. En þótt Einar sé mikill eljumaður og lærdómsmaður, þá hefur hann þó að öllum líkindum ekki uppgötvað þetta, heldur sá flokkur, sem hefur tekið málið upp, en fyrir atbeina þessa ráðh. kemst þessi n. á, og Einar Arnórsson skipar í hana marga menn. Hún hefur síðan starfað af miklum krafti, en raunverulega algerlega í anda eins flokks, þ. e. a. s. kommúnistaflokksins, enda varð það svo, þegar Einar fór og ný skipan var gerð á ráðuneytinu, að þá varð menntmrh. maður úr þessum flokki, sem hefur sýnt áhuga á þessari breyt., og ég álít, að frá flokkssjónarmiði kommúnista hafi verið hyggilega á þessu máli haldið, og allar líkur eru til, að þeir hafi mótað það eftir því, sem hentugast má verða þeirra áróðri og framtíðardraumum, og þess vegna ekki annað hægt að gera en óska þeim til hamingju, sem hafa staðið fyrir og fengið menn til að starfa að undirbúningi undir þessa mjög einkennilegu byltingu í uppeldismálum okkar.

Ég mun samt, án þess að ég vilji nokkuð draga úr gleði þessa flokks og forráðamanna hans, segja, að þó að mér finnist þeir hafa haldið mjög hyggilega á sínum spilum í þessu efni og ekki útilokað að fá einhverja samþykkt gerða, þá mundu framkvæmdir í þessum efnum verða einna líkastar öðrum framkvæmdum, sem þessi flokkur hefur staðið að í bæjarstjórn Reykjavíkur. Þar lagði sami maður, Sigfús Sigurhjartarson, til, að byggðar væru 500 íbúðir, líkast því, sem Guð ætti að byggja þær með yfirnáttúrlegum krafti, og enn fremur að byggja 10 nýja togara. Einn af þeirra forustumönnum, líka menntamálafræðingur, Steinþór Guðmundsson, sagði um þessa togara: Mér er sama, hvort þeir koma eða ekki, en ég vil fá að tala um þá. Þessir togarar og hús hafa verið kennd við pappír og kallaðir pappírstogarar og pappírshús. Eins verður með þetta mál. Ég er hræddur um, að þetta verði pappírsskólar og pappírsnemendur, því að þótt málið sé ágætlega fallið fyrir áróður þessa flokks, þá er veruleikinn ekki alltaf eins hagstæður og draumar þessara manna.

Kem ég þá aftur að því, er n. hafði verið skipuð. Í þessa n. var valinn einn duglegasti áróðursmaður kommúnista, Sigfús Sigurhjartarson, sem er látinn tala við borgaralegu flokkana. Flm., Pálmi Hannesson og Bjarni Bjarnason, voru ekki valdir. Ekki var heldur reynt að velja í n. þá menn, sem hafa staðið að miklum skólamálaframkvæmdum, eins og Sigurð Guðmundsson á Akureyri eða Aðalstein Eiríksson, skapara skólans á Reykjanesi vestra, eða Bjarna Bjarnason, sem er einna athafnamestur af öllum skólastjórum landsins. N. starfaði meira að segja á Laugarvatni heilt sumar án þess að sjá ástæðu til að tala við hann nema fáar mínútur og hafði að engu till. hans í þessu efni: Í þessa n. voru skipaðir nokkrir kommúnistar og svo einn maður, sem var hygginn og reyndur, Ingimar Jónsson. Hans aðstaða er ákaflega táknandi fyrir þetta mál. Hann gengur inn á þessar stórkostlegu till. Við getum allir skilið, hvað Reykjavík á að leggja fram í þessu efni, þegar þess er gætt, að Reykjavík hefur byggt Austurbæjarskólann, Laugarnesskólann og Melaskólann, en samt er langt frá því, að fullnægt sé normalþörf fyrir barnaskóla í Reykjavík eftir núgildandi l., og ef Reykjavík á nú að bæta 4 árum ofan á, þá verður þar nokkuð hart í ári. Að vísu er verið að byggja mjög stóran skóla, Ingimarsskólann, en það verður eins og dropi í hafinu, því að einnig verður að gera stórkostlega aukningu á menntaskólanum í Reykjavík, sem fremur lendir á ríkinu en bænum, og mun ég síðar víkja að því. Það er athugunarvert við aðstöðu þessa eina manns, sem átt hefur í skólaframkvæmdum. Honum var fenginn þessi skóli fyrir 1930 og nokkrir mjög góðir kennarar, og sjálfur er hann röskur maður. Þessi skóli hefur starfað síðan hér í bæ, fyrst eini unglingaskólinn, síðar kom að vísu annar, sem bærinn kostaði að nokkru leyti.

Þegar maður fer að athuga pappírseðli þessara till. og hvað allt er út í loftið um þessar stórkostlegu framkvæmdir, þá verður að athuga, hvað sá maður í þessari n., sem mest vit hefur á þessu, hefur átt við að búa síðan 1929. Hann hefur staðið fyrir unglingaskóla, haft dugandi kennara og mikla aðsókn, en ríki og bær hefur ekki fyrr en nú getað byggt nokkurt hús yfir hann. Hann hefur verið á hrakhólum í aumum húsakynnum, og nú er verið að grafa fyrir grunninum. Af hverju? Dettur nokkrum í hug, að Reykjavíkurbær, sem er framfarabær á margan hátt, þar sem allir vilja framfarir, hafi ekki viljað gera betur? Nei, sannleikurinn er sá, að Reykjavík og ríkið hafa ekki þótzt hafa peninga til þess. Og þá kemur upp sú spurning, hvort Alþingi telji, að allt þetta skólakerfi muni fljótlega komast í framkvæmd, þegar Ingimarsskólinn, sem er þó ekki nema lítið brot, verður að bíða svo lengi eftir, að byggt sé, þó að bæði ríki og bær standi þar að. Og þá kemur maður að því, að það vaki fyrir hv. flm. allt annað en að þetta verði gert, því að það verður aldrei gert, þó að kannske einn eða annar vilji gera það af góðsemi við þann flokk, sem fyrir því berst, að samþ. það. Þetta mál er eins og pappírstogararnir hans Steinþórs Guðmundssonar, að það verður aldrei gert.

En svo kemur annað í ljós, þegar farið er að gagnrýna þetta mál. Þegar ölæðið er farið af mönnum og þeir hættir að trúa því, að allir séu milljónerar, þá getur farið eins og fór hér í Reykjavíkurbæ nú um síðustu bæjarstjórnarkosningar. Hér er fjöldi manns, sem býr í lélegum húsakynnum, kjöllurum og hermannaskálum, en þegar kom fram boð um 500 nýjar íbúðir til handa þessu fólki, þá kaus það ekki, af því að það vissi, að þetta voru gagnslausar kosningablekkingar, og þess vegna höfðu þeir ekki fyrir því að kjósa. Það verður að segja kjósendum í Reykjavík til verðugs hróss, að þeir sýndu þann þroska að láta ekki leika á sig á þennan hátt. Öðruvísi fór fyrir Nd. í þessu máli, því að hún hefur því miður tekið þessu máli nokkuð líkt og þeir góðu fiskar í hafinu, sem taka beitu á öngli, en eftir er að vita um þessa d., hvort hún sýnir sig miður hæfa til að skilja þetta pappírsfyrirkomulag en meiri hluti Reykjavíkurbúa.

Þá kem ég að því, sem er kjarninn í þessu, sem ég hef gefið kommúnistaflokknum viðurkenningu fyrir að hafa frá sínu flokkssjónarmiði skilið rétt, en það er það, að fyrst og fremst hefur íslenzka þjóðin í nálega þúsund ár búið við það uppeldi, sem er mjög sérkennilegt og mjög sterkt og á allan hátt gersamlega ólíkt því kerfi, sem nú á að renna upp eins og einhver dásemd. Það skyldum við halda, að ekki hefði verið hátt risið á forfeðrum okkar á þjóðveldisöldinni, þegar ekki voru skólar nema á tveimur eða þremur sveitaheimilum í landinu. En frá þessu tímabili eru þó þær bókmenntir, sem þjóðin er að reyna að hæla sér af og bera af bókmenntum þeirra þjóða, sem höfðu fleiri skóla. Og það var ekki einungis á þjóðveldistímanum, heldur allt til þessa dags, sem Íslendingum tókst að hafa hér sérstakt uppeldi, þar sem hefur farið saman líkamleg og andleg vinna og farið vel.

Ég átti nýlega tal við einn af þeim mönnum, sem eru heldur hlynntir þessu frv., og hann var að tala um þetta ágæta kerfi, sem ætti að koma. Það er enginn vafi, að fyrir þessum manni vakti, að þetta ætti að vera einhver himnastigi, sem menn ættu að ganga frá hinum mesta ófullkomleika til hins mesta fullkomleika. Ég benti honum á einn mann. Hann var ekki aðeins okkar mesti stjórnmálamaður, heldur og mesti vísindamaður og mesti sagnfræðingur. Hann var fæddur í sveit og alinn þar upp, kemur í engan skóla nema hjá föður sínum. Hann tekur síðan stúdentspróf og byrjar síðan að sækja tíma við háskóla. Getum við búizt við að fá nokkuð betra upp úr þessu kerfi, sem hér á að koma? Hefði verið nokkuð betra, að Jón Sigurðsson hefði verið í barnaskóla á Patreksfirði frá 7–13 ára aldri, farið síðan í gagnfræðaskóla á Bíldudal og þaðan í menntaskóla og komið aðeins heim á sumrin til föður síns. Ég er ákaflega efaður um, að það hefði verið nokkuð fullkomnara uppeldi.

Ég skal taka annan mann sem dæmi. Það er Grímur Thomsen. Hann er fæddur á menntasetrinu Bessastöðum. Af einhverjum ástæðum er hann ekki settur í skólann þar, heldur í heimakennslu, er síðan í tvö ár hjá presti á Álftanesi og verður síðan stúdent. Þetta virðist ekki hafa skaðað hans lærdóm. Víð skulum athuga svona dæmi. Jón Sigurðsson stundar aldrei skóla, Grímur Thomsen í tvö ár, en þetta eru menn, sem eru með mestu lærdómsmönnum okkar sögu. Og ég vitna hér ekki aðeins til okkar stærstu manna, heldur til allra þeirra ágætu og beztu manna þjóðarinnar í mörgum greinum, sem að mjög miklu leyti hafa stuðzt við sjálfsmenntun.

Nú get ég ekki annað en komið að því, að þetta mætti kallast leiðinlegur vitnisburður fyrir mig, sem hef gert kennslu að mínu lífsstarfi. En þó að ég hafi alltaf verið hlynntur skólastofnunum, þá hef ég þó viljað, að það væri í hófi, því að ég get ekki neitað því, að mér stendur stuggur af ýmissi vöntun í þessu kerfi. Ég vil aðeins benda á það sem dæmi, — það hefur verið athugað., — að ekki einn einasti maður af þeim, sem við köllum þjóðskáld, hefur gengið í barnaskóla á Íslandi, það skiptir svo gersamlega um, svo lamandi áhrif virðist það hafa á þeirra skapandi gáfu. Við getum litið yfir raðir okkar miklu skálda. Hannes Hafstein frá Möðruvöllum, Einar Benediktsson frá Elliðavatni, Jónas Hallgrímsson úr Eyjafirði o. s. frv., Jón Sigurðsson og Guðmundur Kamban vestan af landi, Davíð Stefánsson úr Eyjafirði, Tómas Guðmundsson austan frá Sogi, og ég fullyrði, að það er barnaskólunum að kenna, að ástandið er nú svona. Ef þess vegna á að fara að breyta hér um, þá á ekki að gera það í þá átt, sem hér er gert ráð fyrir, heldur eitthvað í þá átt, að það verði líkara því, sem Jón Sigurðsson og Grímur Thomsen áttu við að búa. Þetta kerfi, sem hér er lagt fram fyrir okkur, getur ef til vil1 átt við í iðnaðarborgum eins og Leeds og Manchester, en til okkar á það ekkert erindi.

Ég vil gera hér eina undantekningu, og hún er mjög merkileg. Það er maður, sem hefur vaxið upp í bæ. Hann er ekki skáld, heldur merkilegur vísindamaður og rithöfundur, sem skrifar ákaflega vel, Það er dr. Helgi Péturss. En hvernig er það með þennan rithöfund? Þeir, sem hafa kynnt sér, vita, að þegar hann var kandídat, skrifaði hann eins og hver annar maður, sem hafði gengið í gegnum skóla. En hvað gerir hann? Hann tekur sig til og les okkar klassísku rithöfunda með það fyrir augum að láta þá fara í sig. Hann les Snorra og Jónas Hallgrímsson, les rit okkar mestu andans manna. Þetta er eina undantekningin. Þessi maður er ekki skáld, en hann er rithöfundur og skrifar snilldarlega, en ritsnilld hans er fengin á þennan hátt. Það er því ekki undarlegt, þó að ég og aðrir, sem hafa veitt þessu eftirtekt, taki ekki með minni hrifningu á móti þessu kerfi Sigfúsar Sigurhjartarsonar, sem hefur legið eins og farg á börnunum, þegar á nú að fara með það enn þá lengra í óheillaáttina.

En hver er þá meiningin hjá þeim flokki, sem berst fyrir þessu? Hvað vill hann? Þeir vilja setja hér upp fyrirkomulag, sem er rússneskt, og þeir segjast ætla að gera það með illu eða góðu. Og þetta kerfi er ekki hægt að setja á nema með hervaldi. Íslendingar eru að þessu leyti einhver örðugasta þjóð, af því að þeir eru svo miklir einstaklingshyggjumenn, og þetta hervald getur ekki verið íslenzkt, heldur verður það að vera útlent. Þessi flokkur stefnir nú að því eftir skipunum frá yfirboðurum sínum, að hér verði deild í heimsríki, þar sem hervaldi er beitt. Og allt, sem gert er til að minnka einstaklingskraftinn hér á landi, er mjög skynsamlegt frá þessu sjónarmiði, allt, sem deyfir, allt, sem lamar mótstöðukraftinn, og það hefur aldrei fyrr komið fram frv., sem er eins fullkomið að þessu leyti. Hitt er annað mál, að ef ekki verður með útlendu hervaldi hægt að beygja þjóðina, þá býst ég við, að þessi frv. verði álíka merkileg og pappírstogararnir 10, en þar með er ekki sagt, að þurfi að samþ. þetta frv. Ég vil segja það, að einn nefndarmannanna, Ingimar Jónsson, hefur nú um fleiri ár verið í miklu húsnæðishraki með skóla. Ég skil það mætavel, að honum fellur það illa. Þarna hefur hann séð sér leik á borði og gert grín að mannfélaginu. Hér eru kröfur um víðtækar skólabyggingar. Þetta eru kröfur frá hinum sömu mönnum, sem hafa ekki einu sinni getað reist hús yfir þá unglinga, sem sótt hafa skóla Ingimars. Hann veit vel, hvernig þessi mál standa, og gerir nú grín að okkur á þingi. Eins og þessir menn geti reist skóla eftir þessu stóra kerfi, þegar þeir hafa ekki einu sinni reist t. d. yfir æskuna í Ingimarsskólanum.

Nú kem ég að því, sem er algerlega ótækt fyrir þjóðina. Það á að reyna að samþ. þessi frv. núna einmitt rétt fyrir kosningar. Ríkið á að taka á sig þessar stórkostlegu byrðar, sem af frv. þessum leiðir. Þessi n. hefur hraðað störfum með miklum dugnaði, ef hann er þá nokkur til. Ég man ekki eftir því, að um málið hafi birzt nokkur blaðagrein, hef ekki heyrt þingmenn tala um það sín á milli. Yfirleitt hefur það ekki verið nokkurs staðar rætt nema e. t. v. eitthvað lítillega af menntmn. og menntmrh. Síðan gekk frv. hljóðalaust í gegnum Nd., og svo á að láta okkur samþ. það núna á stundinni.

Nú vil ég biðja hv. þm. að athuga, hvað það er eiginlega, sem farið er fram á með lögfestingu þessa frv. Í fyrsta lagi er skólaskylda frá 7–13 ára. Hér er þó hægt að veita smávægilegar undanþágur, sem í rauninni er þó ekki hægt. En aðalhugsunin er sú að reyna að koma öllum nemendum bæði úr sveit og kaupstað inn í menntaskóla. Auðvitað verður þá að fjölga þeim og síðan að stækka háskólann. Kjarninn er sá, að bæta á úr þeim misrétti, sem verið hefur, svo að nemendur úr strjálbýlinu eigi hægara með að komast í háskóla. Þess vegna hafa sumir látið blekkjast til fylgis við frv. þetta. Þótt margir hafi fylgt frv. til þessa, ættu þeir að athuga sinn gang.

Næsta stigið kemur, þegar búið er að hafa börnin í barnaskólum í 7 ár. Þá kemur tveggja ára skólavist í viðbót. Menn geta auðveldlega skilið, að í svona áætlun er engin vitglóra. Við getum hugsað okkur sem dæmi eina sýslu, t. d. Árnessýslu. Þar er héraðsskóli á Laugarvatni fyrir 150 nemendur. Meginþorri þeirra er úr Árnessýslu, en þó margir víðs vegar af landinu. En eftir þessari breytingu yrði að stækka skólann svo, að hann tæki 200 nemendur og yrði þó einungis fyrir Árnessýslu. Það yrði því að stækka Laugarvatnsskólann allverulega. Það yrði því að reisa ekki fáa, heldur fjöldamarga nýja skóla í öllum þeim héruðum, þar sem engir héraðsskólar eru. Fyrst er gengið í barnaskóla og síðan í unglingaskóla. En það, sem er lærdómsríkt í þessu sambandi, er þetta, að við, sem höfum fengizt við kennslu um margra ára skeið í framhaldsskólum, höfum rekið okkur á það, að venjulega eru það langbeztu nemendurnir, sem hafa verið minnst í barnaskóla, en versna svo eftir því, sem þeir hafa verið lengur. — Í stuttu máli, ef þetta verður lögfest, legg ég niður kennslu. Ég tek það ekki í mál að taka börn, sem hafa verið þrælkuð í barnaskólum í 7 ár og síðan í unglingaskólum í 2 ár. Það er ætlazt til, að öll börn, hvar sem er á landinu, geti keppt um að komast inn í menntaskóla. Svo á að gerbreyta héraðsskólunum, það má ekki einu sinni kalla þá héraðsskóla, heldur gagnfræðaskóla. En þessir menn sjá ekki, að það er ekki hægt að þurrka héraðsskólana út. Hvað haldið þið t. d. um Laugaskóla í Þingeyjarsýslu? Sá skóli var reistur með samskotum og frjálsu vinnuframlagi; það var fólkið, sem reisti skóla eins og það vildi hafa hann. Síðan hefur breiðzt út verkleg menning frá þessum skóla, ef svo má segja. Mikið af húsmunum, er fólk hefur þar um slóðir, er komið frá þessum skóla. En aðrir eru raunar verr settir, sem fjarst eru slíkum skólum. Í þessu sambandi má minnast á dónaskapinn, þegar talað er um það í fullri alvöru að leggja niður héraðsskólana. Þeir ætla að leyfa sér að þurrka út þá skóla, sem fólkið hefur byggt upp og þúsundir manna hafa reist af frjálsum vilja. Þeir ætla að eyðileggja skólana. En það verður ekki hægt að gera það með heimsku og vesalmennsku. Héraðsskólar og húsmæðraskólar sveitanna hafa sínar sjálfstæðu stjórnir. En nú á að svipta þá stjórninni og þurrka þá út. Í raun og veru er ástandið í þjóðmálum okkar að verða óbærilegt. Peningarnir fljóta. Ég hitti t. d. nýlega mann einn, sem verið hefur kennari úti á landi. Ég spurði hann, hvað hann hefði haft í laun, áður en launalögin nýju gengu í gildi. Hann sagði: „Áður hafði ég 2000 kr. yfir árið og stundaði svolítinn búskap, en nú hef ég 19000 kr.“ Þessi maður komst vel af, var góður kennari og kom börnum til manns. Nú standa skólarnir þannig að vígi, að þótt rúða brotni eða hurð fari af hjörum, þá er engin heimild né fé til þess að gera við. Á næsta þingi verður svo ríkið að taka að sér alla viðgerð héraðsskólanna. Allt á að breytast, því að þetta passar ekki í „kram“ kommúnistanna. Í framtíðinni á þetta að líta svona út: Í sveitum á að reisa stóra heimavistarskóla. Þar eiga börnin að vera í 7 ár. Síðan eiga börnin að vera í 2 ár í héraðsskólum, sem nú kallast gagnfræðaskólar. Engum blandast hugur um það, að þetta verður nokkuð dýrt. Það þarf að stækka Laugarvatnsskóla um ¼, bara til þess að hann geti fullnægt Árnessýslu einni. Þá geta menn séð, hvílíku Grettistaki þarf að lyfta í öðrum sýslum. Hvað halda menn um t. d. Strandasýslu o. s. frv.? En bíðum við, þegar á allt er litið, þá er þetta ekki það versta. Það er annað meira og verra, sem kemur nú til sögunnar. Það á að taka börnin frá heimilum sínum, þegar þau eru 7–15 ára. Hvernig haldið þið, að fari um sveitaheimilin þá ? Eins og nú háttar í sveitum er varla um annað að ræða á heimilum þar en hjónin og börn þeirra. Svo á að taka börnin þaðan. Nú vita allir, að börnin hjálpa mikið til við alls konar störf á sveitaheimilunum. Þau hafa líka gott af því. Ég hef áður minnzt á skáldin og önnur stórmenni, sem vaxið hafa upp í íslenzku sveitunum. Það má segja, að eitt hið bezta uppeldismeðal, sem völ er á, er sveitalífið. Að vinna að framleiðslunni úti í náttúrunni er hverju barni hollt. Ég held, að ef þetta frv. verður framkvæmt, sem verður raunar ekki, þá muni sveitirnar leggjast í eyði. Það verður ekkert nema gamla fólkið eftir, og þegar það deyr, þá deyr sveitalífið líka. En nú vona ég, að hv. þm. og aðrir muni glögglega, hvað kommúnistar hafa tuggið upp í ræðum sínum. Hafa þeir ekki sagt, að það ætti að leggja sveitirnar í eyði, þar væri engin menning? Jú, þennan söng hafa allir heyrt kommúnista kyrja. Þetta er líka það, sem þeir vilja. Þeir vilja leggja sveitirnar í eyði. Þetta er líka stórkostlegasta úrræðið, sem þeir hafa fundið upp hingað til. Sveitirnar skulu eyðilagðar, segja kommúnistar. Ég talaði fyrir nokkrum dögum við einn greindan bónda í Rangárþingi. Hann á við svo hagstæð skilyrði að búa, að börnin hans ganga í svonefndan heimangönguskóla í 4 mánuði á ári. Bóndinn var ekki lengi að taka eftir því, að skólinn hafði þau áhrif á börn hans, að þau fjarlægðust framleiðslustörfin, þau fjarlægðust heimilið og búskapinn. Þó átti þetta sér stað um heimangönguskóla. Hvað halda menn þá, ef börnin hefðu gengið í heimavistarskóla?

Svo er líka enn eitt, sem er átakanlegt. Það er auðvitað, að ekki eru til nema sárafáir kennarar, sem geta gengið börnum í foreldrastað. Þess vegna er sá missir, sem börnin verða fyrir við þetta skólahald, algerlega ótalinn. En það á kannske að eiga sér stað einhver frysting, eins og títt er nú á dögum. Það verður þá víst frysting sálarinnar.

Ef við hyggjum nú að, hvað veldur, að ekki skuli koma nein skáld né andans menn úr barnaskólum bæjanna, t. d. hér í Reykjavik, þá er ástæðan sú, að börnin umgangast hvert annað svo mikið, en ekki fullorðna fólkið. Það er enginn vafi á því, að börnin læra málið mun betur af samvistum sínum við fullorðna fólkið. Nægir þar að minna á Bólu-Hjálmar og marga fleiri. Ég man t. d. eftir því, að fyrir nokkrum árum kom í fréttum útvarpsins, að drengur nokkur hefði hrapað illilega í Austur-Skaftafellssýslu. Þessi piltur var 15 eða 16 ára gamall. Síðan ritaði drengur þessi frásögn um atburð þennan. Er velmetinn læknir hér í Reykjavík hafði lesið þessa grein, varð honum að orði : „Enginn stúdent getur skrifað svona gott mál, ef hann hefur aðeins gengið í menntaskóla.“ En var nú þessi piltur mikið menntaður? Alla sína menntun hafði hann fengið heima, lesið fornsögurnar og góðar bókmenntir. Það, sem þarf að gera hér við börnin í Reykjavík, er það, að þau umgangist meira fullorðið fólk. En af því að barnaskólar í Reykjavík eru ekki hér til umræðu, vil ég ekki ræða það mál frekar. En nú á að taka börnin af heimilunum og setja þau í heimavistarskóla. Ætli málinu hraki ekki þá? Ég sem kennari um margra ára skeið get borið um það, að ég vil heldur fá nemendur úr skólaleysi en úr skólum. Ég vil heldur hafa nemendur úr strjálbýlinu, þar sem lítil skólaþrælkun er, heldur en úr kaupstöðum. Nú má enginn skilja ummæli mín svo, að ég vilji helzt enga skóla hafa. Það er hinn herfilegasti misskilningur. En ég vil leggja áherzlu á það, að skólarnir okkar eru ekki nógu góðir. Með þessu fyrirkomulagi verða heimilin gerð vanmáttug, börnunum verður spillt og þau hverfa frá framleiðslustörfunum. Þetta hefur allt sín áhrif. Nú eru gerðar kröfur um hærra kaup. Og það á að fara að gera út 30 pappírstogara og hver veit hvað. En ég er ekki viss um, að þessir bóklærðu menn verði neitt ánægðir yfir því að eiga að fást við útgerð. Þeir segja sem svo: Við erum búnir að læra. Við viljum ekkert eiga við togara né báta. — Þeir eru líka orðnir fínir menn og vilja hafa hvítt um hálsinn. Nú virðist eiga að keppa að því að láta öll börn verða stúdenta. Nú er ég ekki á móti því, að menn verði stúdentar, sbr. afskipti mín af menntaskólanum á Akureyri. En ég er ekki viss um, að allir þurfi að verða stúdentar. — Útkoman er sú: fyrst á að hafa skylduskóla og skyldunám, og svo á einn stór og mikill atburður að gerast, það á að halda landspróf. Það eiga allir að þreyta, og þeir, sem standast það, eiga að ganga inn í menntaskóla. Það verður að reisa marga skóla af ýmsu tagi í hverri sýslu. Eitt ætti öllum að vera ljóst, að þetta verður dýrt.

Þá er enn eitt leiðinlegt atriði, sem frv. gerir ráð fyrir. 9. gr. þess hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú getur nemandi ekki stundað skyldunám sökum fjárskorts, og skal þá veita styrk til þess af almannafé.“ Til dæmis maður, sem er húðarletingi, þarf ekki að vera að hugsa um að vinna fyrir sér sjálfur. Hann á heimtingu á því samkv. 9. gr., að ríkið eða sveitin leggi honum til fé. Er þetta að ala fólkið upp í góðum anda? Nú skulum við athuga þetta betur. Það er fleira, sem sýnir, hversu frv. þetta er dásamlega hugsað. Þeir hafa víst frétt, að hjá einni frændþjóð okkar, Dönum, væru krakkar prófaðir og síðan skipt á milli bóknáms- og verknámsdeilda. Hér í Rvík er háð dæmafátt próf um inntöku í menntaskólann. Foreldrar hafa oftast sett af stað öll kvalatæki til þess að koma tornæmum unglingum inn í „fína“ skólann. Það á að skipta börnunum í „fína“ deild og svo „óæðri“ deild. Verri vitleysu er yfirleitt, ekki hægt að gera, að brennimerkja suma krakkana fína, en aðra ófína. Aðrir eiga í framtíðinni að vinna sér inn brauð í sveita síns andlitis, en hinir eiga að bera hvítt hálslín. Það getur vel verið, að þetta sé allt í lagi frá sjónarmiði kommúnista, en það eru ekki menn eins og Sigurður Guðnason, sem eru að berjast fyrir þessu, heldur kommúnistarnir, sem hafa strandað á námsbraut sinni. Sumir hafa e. t. v. komizt inn í háskóla, en aldrei lokið prófi. Þannig er þetta í öllum löndum, þegar farið er að athuga lífssögu kommúnistanna, — við þekkjum þá. — Eftir því sem fleiri fælast framleiðsluna, eftir því verður meira af óánægðu fólki, og það velur sér sína foringja. Ég þarf nú ekki að tala um þá, sem lenda í „fínu“ deildinni, hvort þeir líti ekki niður á þá í þeirri „óæðri.“ Nú sjá það allir, að ekki geta allir foreldrar komið börnum sínum í menntaskóla. Hér er allt að drepast undir því, að aðeins 25 börn komast þangað árlega, því að húsnæðið vantar. Ég held ég geri hér útúrdúr til að bera mig undan ranglátu ámæli þess efnis, að ég í 15 ár hafi hindrað börnin í Rvík frá því að mannast í menntaskóla, að aðeins komist þar að 25 börn. Það vantaði húsnæði, og ég vildi ekki taka stofnanir úti í bæ. Það er nú langt síðan ég hef setið í því sæti, sem þetta ámæli beinist að, og situr nú í því kommúnisti. Það, sem ég gerði, var vegna þess, að ekki var til húsnæði, og allir eftirmenn mínir hafa gert það sama.

Fyrir hæstv. fjmrh. vofir nú yfir að byggja yfir börnin fyrir hálft landið. En það kostar peninga. Nú vil ég meina, að enginn hörgull sé á stúdentum. Það hefur verið svo, að menn, miklir skörungar frá 1840, komu utan af landi úr hinum dreifðu byggðum og brilleruðu við inntökupróf í Kaupmannahafnarháskóla. Úr Flensborg hafa og komið menn inn í háskólann eins og Einar Arnórsson. Mundi það vera nokkuð betra fyrir Hafnfirðinga, að kennslan yrði miðuð við framhaldsnám? Höfuðgallinn á þessu frv. er, að öll fræðsla er miðuð við, að flestum sé gefið tækifæri á að verða stúdentar. Þetta á að framkvæma öðruvísi, og ætla ég að gera till. um, að settir verði upp stúdentaskólar í sveit, einn á Austurlandi, á Eiðum, og annar á Laugarvatni.

Nú kem ég að einu atriði, sem er söguleg staðreynd, en það er fjarri því, að ég ætli að kasta rýrð á háskólamenn. Ef athuguð er verzlun Íslendinga árið 1870, þá er hún aðallega í höndum útlendinga, aðeins fáir íslenzkir kaupmenn. Ef við athugum svo nú, 70 árum síðar, þá er enginn útlendur kaupmaður. Þessi þáttur, að gera verzlunina innlenda, var merkur þáttur í sjálfstæðisbaráttunni. Maður gæti hugsað, að menn með langa menntun sæktust eftir að vera kaupmenn. Svo er þó ekki. Þessi grein hefur verið leyst af mönnum með enga skólamenntun. Þetta er ekki eins og það á að vera, eitthvað er bogið við skólafræðsluna, og það, sem er bogið, er, að menn með enga skólagöngu gera þessi verk, og það er af því, að ekki hefur verið lögð áherzla á dugnaðinn. Ágætir fræðimenn hafa komið, en skólarnir hafa aðeins verið miðaðir við embættismenn. Við þurfum fyrst af öllu skólagengna athafnamenn. Af embættismönnum, sem gengið hafa í framleiðsluna, er 1 læknir og 2–3 prestar, sem hafa búskap. Embættismennirnir hafa fjarlægzt framleiðsluna. Ég álít, að þessi umhyggja fyrir að gefa aukinn aðgang að menntaskóla sé ekki rétt. Ekki mundi hafast annað upp úr því en að aðsókn yrði of mikil og engin trygging fyrir því, að þeir mundu styðja framleiðsluna, og það hefur þau áhrif, að þeir almennu skólar, héraðsskólarnir, verða sviknir inn á að vera undirbúningur undir þetta mikla kapphlaup.

Hæstv. kennslumrh. gengur ekki inn á, að frv. sé stjfrv.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta miklu meira. En þetta er sú versta og grunnfærasta leið, sem Nd. hefur haft við afgreiðslu máls. Hér fann svo sá kommúnisti, sem mest hefur staðið fyrir þessu, aðferð til að hindra, að málið fengi þinglega afgreiðslu. Fyrir nokkrum dögum var mér tilkynnt, að menntamálanefndarfundur yrði daginn eftir. Fundurinn varð mjög lauslegur. Upp úr þeim umsvifum, sem á fundinum urðu, kom svo þetta nál. á þskj. 426: „N. hefur athugað frv. og mælir með því, að það verði samþ. Einn nefndarmanna (JJ) var ekki á fundi, er málið var afgr. Tveir nefndarmanna (HG og EE) áskilja sér rétt til að koma fram með brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.“ — Það er sýnilegt, að þessir menn hafa ekki athugað frv.

Ég hef leyft mér að koma fram með brtt. Í frv. endar 1. gr. á orðunum „mynda samfellt skólakerfi.“ Í stað þeirra komi orðin: „mynda skólakerfi landsins.“ Við 2. gr. frv. geri ég þá brtt., að í stað orðanna „Á gagnfræðastiginu eru unglingaskólar, miðskólar og gagnfræðaskólar“ komi: „á miðskólastiginu eru unglingaskólar, gagnfræðaskólar og héraðsskólar.“ Við 3. gr.: Greinin orðist svo: „Barnaskólar eru fyrir börn á aldrinum 7–13 ára. Í sveitum eru börn frá 7–10 ára aðeins prófskyld. Barnafræðslunni lýkur með barnaprófi.“ — Þá kemur 4. gr., sem er óskiljanlega illa hugsuð, alls konar flækjur og rekst hvað á annað. Ég geri þá brtt., að greinin orðist svo :

„Heimilt er að hafa framhaldsdeild fyrir unglinga við barnaskóla, eftir því sem fé er veitt í því skyni á fjárlögum og frá hlutaðeigandi sveitar- og bæjarsjóðum. Gagnfræðaskólar skulu vera í kaupstöðum, en héraðsskólar í sveitum, eftir því sem fyrir er mælt í sérstökum lögum um þá skóla. Skal fjölga gagnfræða- og héraðsskólum og stækka þá, sem nú eru til, til að geta fullnægt frjálsri aðsókn nemenda, og eftir því, sem fé er lagt fram í þessu skyni frá ríkinu, bæjarfélögum, sýslum og einstökum mönnum.

Þar sem bæjarstjórn óskar eftir, að gagnfræðaskóli starfi í 4 ársdeildum, og tekur á sig nauðsynlegan útgjaldaauka, skal kennslumálastjórnin veita þá heimild.

Kennslu skal haga á þann hátt í gagnfræða- og héraðsskólum, að námstímanum sé skipt nokkuð að jöfnu, eftir því sem við má koma, milli verknáms, íþrótta og bóknáms. Allar kennslugreinar skulu vera prófskyldar.“

Mín skoðun er sú, að yfirgnæfandi bóklegt nám í gagnfræðaskólum sé hættulegt. Þess vegna legg ég áherzlu á verknám og íþróttir.

Þá er brtt. við 5. gr. Greinin orðist svo : „Menntaskólar skulu vera 4 í landinu, hver með 4 ársdeildum. Skal einn vera í Reykjavík, annar á Akureyri, þriðji á Laugarvatni og fjórði á Eiðum. Tveir hinir síðast nefndu menntaskólar hefja starfsemi sína, þegar Alþingi eða aðrir aðilar leggja fram fé til rekstrar skólanna.“

Þá legg ég til, að 8. gr. falli niður.

Þá er brtt. við 9. gr. „Fyrir almannafé“ komi: ríkisfé. Þá er brtt. við 10. gr. um að greinin orðist svo : „Fyrirmæli um kostnað og rekstur þeirra skóla, sem um getur í 2. gr., skulu sett með landslögum. Reglugerðir um skipulag námsins skulu settar af fræðslumálastjórninni að því er snertir barna- og unglingaskóla, af skólanefndum gagnfræða- og héraðsskóla með samþykki kennslumálaráðherra fyrir þær stofnanir og af kennurum menntaskólanna með samþykki ráðherra vegna menntaskólanna.“

Í 11. gr. álit ég, að of stuttur tími sé ætlaður til framkvæmda, þar sem gert er ráð fyrir, að það sé gert á árunum 1946–1952. Ég hef því gert brtt. um, að greinin orðist svo : „Lög þessi taka gildi á árunum 1950–1960, enda hafi frumvarpið áður náð samþykki meiri hluta kjósenda við almenna þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu.“

Ég vil svo að endingu mælast til þess við . hæstv. forseta, að þar sem frv. hefur ekkert verið rætt og lítið vandað til þess, þá verði því vísað aftur til nefndar.