31.10.1945
Neðri deild: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

6. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Ég hef skrifað sérstakt nál. um þetta mál, sem liggur fyrir á þskj. 70, og stafar það af því, að ég vil gera breyt á frv., sem meðnm. mínir í fjhn. vildu ekki fallast á. Hef ég því flutt um þetta brtt. á nefndu þskj.

Það er upplýst í þessu máli, að hæstv. ríkisstj. hefur fyrir nokkru gert samninga í Bretlandi um smíði á 28 botnvörpungum. Og samkv. þeim samningum er verð þessara skipa samtals um það bil 70 millj. ísl. kr., reiknað með því gengi, sem nú er á sterlingspundi. En hætt er við því, að við þessa upphæð eigi eftir að bætast eitthvað, áður en þessi skip verða öll hingað komin til landsins og verða fullbúin til veiða. Að vísu hafa ekki fengizt enn nákvæmar upplýsingar um það, hvað kann að vanta til skipanna af nauðsynlegum tækjum og útbúnaði auk þess, sem þegar er um samið, en eitthvað mun það vera.

Því miður er það svo, að það er ekki líklegt, að togaraútgerðin verði eins arðvænleg á næstu tímum og verið hefur nú um skeið. Má í því sambandi benda á, að Englendingar hafa nú fyrir nokkru lokað fyrir íslenzkum skipum nokkrum af þeim höfnum, sem þau hafa siglt á að undanförnu og þar sem þau hafa haft góðan markað fyrir sinn fisk. Hvernig ástandið verður í framtíðinni með þennan rekstur, er hlutur, sem erfitt er um að spá, og fer ég þess vegna ekki lengra út í það. En ég vil halda því fram. að hæstv. ríkisstj. hefði átt að tryggja sér kaupendur að skipunum, áður en hún gekk endanlega frá samningum um smíði þeirra.

Í ágúst s. l. voru gefin út bráðabirgðal. um togarakaup ríkisins, en endanlega var ekki gengið frá samningum um þau við skipasmíðastöðvarnar fyrr en nú um miðjan október. Leið því þar á milli ærið langur tími, sem nota mátti til að grennslast eftir því betur en gert var, hve mörg útgerðarfyrirtæki á landinu vildu eignast þessi skip, með þeim kjörum, sem í boði voru. Hefði átt að vera hægt að ganga frá samningum við væntanlega kaupendur skipanna áður en endanlega var gengið frá samningum um smíði þeirra. Og ég álít, að tölu skipanna hefði átt að ákveða eftir því, að hve mörgum skipum fengjust kaupendur hér. Talið er, að hjá Nýbyggingarráði liggi umsóknir um eitthvað 40 botnvörpunga. En við athugun á þessum umsóknum kemur í ljós, að í þeim felast engar skuldbindingar frá viðkomandi aðilum um kaup á skipunum, a. m. k. ekki um kaup á þeim skipum, sem ríkisstj. hefur samið um kaup á, og fyrir það verð, sem þar um ræðir. Fjhn. fékk lista yfir þessar skipaumsóknir frá Nýbyggingarráði, og er sá listi prentaður með nál. mínu. Það liggur ekkert fyrir um það, hvaða möguleika þessi fyrirtæki hafa til þess að kaupa skip. Þessar umsóknir, sem svo eru nefndar, eru flestar þannig til komnar, að í byrjun júlí í sumar birti ríkisstj. tilkynningu um það, að hægt mundi vera að fá smíðaleyfi í Bretlandi fyrir nokkrum togurum, og flestir af þessum umsækjendum sendu ríkisstj. bréf um það, að þeir óskuðu að koma til greina, þegar úthlutað væri smíðaleyfum fyrir botnvörpuskipum í Bretlandi. En umsóknirnar eru á engan hátt bindandi, eins og ég hef tekið fram, því að þar eru engar skuldbindingar um að kaupa þessi skip, sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú samið um smíði á.

Eins og kemur fram í mínu nál., hefur bæjarstjórnin í Reykjavík gert samþykktir um togarakaup nú á þessu ári. Í júlímán s. l. mun bæjarstjórnin hafa skrifað atvmrh. og borið fram kröfu um það, að tveim þriðju hlutum af þeim smíðaleyfum fyrir togurum, sem þá var talið að mundu fást, yrði úthlutað til útgerðarfyrirtækja í Reykjavík. Og jafnframt var hæstv. ríkisstj. þá tilkynnt, að ef ekki kæmu fram svo margar umsóknir um togarakaup frá útgerðarfyrirtækjum í bænum, að næmi þessum tveim þriðju hlutum, þá óskaði bæjarstjórn Reykjavíkur að gerast kaupandi að þeim skipum, sem þar til vantaði. En í því tilfelli var þó tekið fram, að skipasmíðastöðvar, teikningar og annað varðandi byggingu skipanna skyldi vera háð samþykki bæjaryfirvaldanna. Seint í september mun bæjarstj. hafa ítrekað þessa kröfu til ríkisstj., og beinir bæjarstj. þar þeirri áskorun til ríkisstj. að þannig verði frá úthlutun umræddra togara gengið, að ekki færri en 20 þeirra — því að þá var gert ráð fyrir 30 togurum alls — verði smíðaðir fyrir útgerðarfyrirtæki í Reykjavík eða Reykjavíkurbæ, og voru þá ítrekaðar yfirlýsingar bæjarstj. um, að hún ábyrgðist kaup á þessum skipum, sem óskað var eftir, að aðilar í Reykjavík gætu fengið keypt. Enn fremur ítrekaði bæjarstj. tilmæli um það, að skipasmíðastöðvar, teikningar og annað varðandi smíðina yrði háð samþykki bæjaryfirvaldanna.

Ég vil nú beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh., sem stóð að útgáfu þessara bráðabirgðal., hvort hann hefur, áður en gengið var endanlega frá samningum um togarakaup, haft bæjarstjórn Reykjavíkur þar með í ráðum, þannig að bæjarstj. hafi samþ. skipasmíðastöðvar og teikningar, eins og hún gat um í bréfinu frá í sept. s. l. Og spurningin er einmitt um það, hvort yfirlýsingar bæjarstj. um þessa 20 togara gildi um þau skip, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú samið um smíði á. Vænti ég, að hæstv. forsrh. gefi svör við þeirri spurningu.

Eins og nú er komið, þar sem hæstv. ríkisstjórn hefur fyrir ríkisins hönd gert bindandi samninga um kaup á þessum 28 skipum, legg ég aðaláherzlu á það, að nú þegar verði hafnir samningar við væntanlega kaupendur um sölu á skipunum. Og fyrri brtt. mín, við 1. gr. frv., er um þetta. Þar er lagt til, að sett verði ákvæði um það, að fyrir 1. desember n. k. skuli væntanlegir kaupendur skipanna borga einn fimmta hluta af umsömdu verði þeirra og setja fullnægjandi tryggingar fyrir greiðslu á eftirstöðvum af kostnaðarverði skipanna á þeim gjalddögum, sem um hefur verið samið af ríkisstj. En samkv. upplýsingum hæstv. forsrh. var ákveðið í samningum ríkisstj., að 20% af verði skipanna skyldi greiðast fyrirfram, eða um leið og samningur væri gerður. — Ég tel alveg sjálfsagt, að þingið sýni vilja sinn í þessu efni með því að samþ. þessa brtt. mína. Mér virðist full ástæða til þess, að þetta sé sett inn í frv., þar sem, eins og ég hef áður tekið fram, svo virðist sem hæstv. ríkisstj. hafi sýnt nokkurt tómlæti í því að ganga frá þessum samningum um sölu á skipunum til einstakra útgerðarfyrirtækja eða þeirra, sem kunna að hafa áhuga fyrir að eignast þau.

2. brtt. mín er um það, að lántökuheimildin í 2. gr. frv. verði lækkuð úr 60 millj. kr. í 25 millj. kr. Það mun yfirleitt hafa verið venja hæstv. Alþ. að veita ríkisstj. ekki meiri lántökuheimildir en talin hefur verið þörf á í hverju einstöku tilfelli. Og mér virðist vera vel séð fyrir þörf ríkissjóðs í þessu efni með lægri upphæðinni, ef gert er ráð fyrir, að takist að selja fyrstu skipin innan skamms. Má benda á í þessu sambandi, að 20% af verði skipanna, sem eiga að borgast við samningsgerð, er ekki nema aðeins tæpar 15 millj. kr. Ætti því 25 millj. kr. lántaka í þessu sambandi að vera nóg.

Ég sé ekki ástæðu að svo stöddu til að hafa hér fleiri orð um þetta mál, en vænti þess að fá svar við fyrirspurn minni frá hæstv. ríkisstjórn.