20.02.1946
Efri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Magnús Jónsson:

Ég vildi einungis bera fram þakkarávarp til hv. þm. S.-Þ. fyrir umhyggju hans í minn garð. En til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég upplýsa það, að mig hefur ekki hent neitt slys, sem stendur í sambandi við þetta mál eða er viðkomandi störfum mínum í menntmn.

Viðvíkjandi samvinnu menntmn. beggja d. er það að segja, að þar er ekki um neitt nýtt uppátæki að ræða. Slík samvinna er fullkomlega samkv. þingsköpum. (JJ: Þetta eru nokkurs konar böll). Ég hef nú ekki séð minnzt á böll í þingsköpum. En þetta er algengt, að slík samvinna eigi sér stað. Þá vil ég segja það við hv. 1. þm. Eyf. viðvíkjandi því, sem hann var að fetta fingur út í nál., að frsm., n. hefur flutt hér ýtarlega framsöguræðu og skýrt málið. En þar sem n. þessarar d. stóð að þeim efnisbreyt., sem frv. tók í Nd., sem raunar voru litlar, er eðlilegt, að álit hennar sé stutt. Nál. er frá óskiptri n., og það haggar því ekki, þótt einn hv. nefndarmaður taki sig til síðar og gefi út nál. Það er bókað, hverjir voru viðstaddir, þegar málið var afgr., og það var ekki afgr. frá klofinni n. (JJ: Það gerir sama gagn, þótt nál. komi síðar). Það má vera, að það geri sama gagn, en það er óviðkunnanlegt, að brtt. skuli þá ekki fylgja nál., en koma fram fyrst nú, og vitanlega nær það engri átt, að hvaða þm. sem er geti hvenær sem er komið með brtt. og krafizt þess, að máli sé vísað til n. vegna þeirra.