26.02.1946
Efri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Mig undrar það, að hv. 1. þm. Reykv. skuli bera á móti því, að hlutverk n. sé það að kynna sér málin umfram það, sem aðrir þm. hafa tækifæri til, og svara fyrirspurnum varðandi málin. Í þessu máli hefur hv. menntmn. ekki tekizt að svara fyrirspurnum í sambandi við frv. Það liggur og fyrir í þessu máli, að aðeins 4 nm. hafa tekið þátt í nál. og þar af hafa 2 áskilið sér rétt til þess að koma fram með brtt., og svo hefur þriðji nm. komið hér fram með víðtækar brtt. Seinast þegar málið var til umr., var til þess mælzt á hógværan hátt, að n. athugaði málið betur og léti í ljós álit sitt á hinum víðtæku brtt. hv. þm. S.-Þ. Síðan líður vika, og er þá málið tekið fyrir á nýjan leik, en þá upplýsist það, að n. hefur engan fund haldið. Form. og frsm. n. er hér ekki, en liggur veikur heima í rúmi sínu, og sá nm., sem hér talar, segist ekkert geta upplýst. Ég hef spurt að því, hvaða þýðingu það hafi að samþ. þetta frv., ef hin frv. verða ekki samþ. um leið. Þessi l. mundu ekki á neinn hátt fella úr gildi þau sérlög, sem fyrir eru. Þetta hefur sá hv. nm., sem hér er, ekki gert sér skiljanlegt.

Ég hef bent á það, að rétt sé að geyma þetta frv., þar til barnafræðslu- og gagnfræðanámsfrv. hafa verið samþ., því að annars hefur það enga þýðingu. N. vill ekki tala sig saman um málið, og er það stirfni, sem ekki greiðir fyrir framgangi þess, en ég álít, að það eigi að fá þinglega afgreiðslu.

Ég geri ráð fyrir, að ég sé samþykkur meginatriðum þessara frv., en við höfum löngun til þess að vita nákvæmlega, um hvað þau fjalla og hvað þau fela í sér.