31.10.1945
Neðri deild: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

6. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Það er tilgangslaust fyrir hv. minni hl. og af mér að deila um þetta. Sitt sýnist hvorum, og sjálfsagt verður ekki úr því skorið með umr., hvort sjónarmiðið er rétt.

Ég viðurkenni, að það hefði verið æskilegt, ef málið hefði staðið þannig, að ríkisstj. hefði selt skipin áður en eða um leið og þau voru keypt, og ég þykist hafa upplýst, að þess var ekki kostur. Það liðu sárafáir dagar frá því, að ríkisstj. barst vitneskja um, hvað þær breytingar kostuðu, sem útgerðarmenn höfðu farið fram á, að ríkisstj. varð að svara, hvort hún vildi heldur binda sig við það, sem ákveðið hafði verið, eða að byggja á nýjum grundvelli, 175 feta skip, með miklu stærri vélum og fullkomnari, sem kosta áttu 98 þús. £. Þess var enginn kostur að festa kaupendur skipanna jafnóðum, m. a. af því, að ríkisstj. vildi ekki binda sig með það, í hvaða röð kaupendur skyldu fá skipin afhent. En hvorki minni hl. né aðrir þurfa að hafa áhyggjur út af þeirri áhættu, sem ríkissjóður hefur í þessum efnum. — Ég sé, að hv. minni hl. hefur nokkrar áhyggjur út af því, að stóru togarafélögin hafa ekki beðið um nema eitt skip hvort. Mér finnst ekki ástæða til að taka þessi félög alveg sem dómara um það, hvað heppilegt sé að gera fyrir þjóðina. Ég hygg, að það sé áreiðanlegt, að þessi félög hafi sótt um eitt skip hvort, þegar eingöngu var um að ræða 6 skip, og getur vel verið, að þau vilji nú fá fleiri skip, þegar um svo mörg er að ræða. Ég þekki það til hlutafélagsins Kveldúlfs, að það hefur fest nokkuð af sínu fé í öðrum framleiðslufyrirtækjum og á auk þess 3 togara, sem það hefur kostað miklu upp á, og einnig andvirði 1½ nýs togara. Annað handbært fé á það ekki fyrirliggjandi. Ég geri þó ráð fyrir, að þetta félag vilji kaupa fleiri en eitt skip og held, að ég hafi heyrt raddir um það, að Alliance vilji fá fleiri skip. En annars er það svo með þessi 2 félög, að þau hafa orðið fyrir óþægindum af því að vera of stór, og getur það ef til vill hafa dregið úr áhuga þeirra í þá átt að neyta ýtrasta tækifæris til þessara kaupa.

Ég get ekki gefið aðrar upplýsingar um bæjarstj. Reykjavíkur en í framhaldi af fyrri ræðu minni, sem hv. frsm. minni hl. hefur skilið alveg réttilega. Ég hef ástæðu til að ætla, að bæjarstj. haldi engu síður fast við kröfu sína en þegar hún óskaði eftir skipunum. Breytingin á skipunum er þó dýr, en um það hef ég ekkert í höndunum til að byggja meiri eða frekari fullyrðingar á. Ríkisstj. stendur ekki vel að vígi, nema hún fyrir sitt leyti vilji ganga inn á kröfu bæjarstj. Ég fyrir mitt leyti er ekki reiðubúinn að taka ákvörðun um það í dag. Ég vil bíða og sjá betur, hve margir koma fram og óska eftir skipakaupum, þegar málið liggur endanlega fyrir.

Ég ætlaði ekki að gefa n. rangar upplýsingar um borgunarskilmálana. Þegar n. talaði við mig, lá málið þannig fyrir, að við áttum að greiða 1/5 hluta andvirðisins við undirskrift samninga, og þetta hafði samninganefndin fullt umboð til að gera. Ég man ekki, hvort samningar voru þá endanlega gerðir, þegar n. talaði við mig, en það þarf náttúrlega á engan hátt að kalla neina flókna og dulda skýringu, að samningamennirnir hafa leitazt við að komast í þessum samningum lengra en við höfðum heimilað þeim að ganga með að skuldbinda okkur. Þeim hefur tekizt að draga úr skuldbindingum, og er það háttur góðra samningamanna að gera það, en þeir voru þó ekki búnir að koma vitneskju til mín um, að það hafi tekizt.

Ég sé ekki ástæðu til að svara þessu nánar.