21.03.1946
Efri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason) :

Ég veit ekki, hvort hv. 6. þm. Reykv. ætlast til þess, að hér fari fram langar umr. um þetta mál, því að hann er í vafa um, hvort samþ. eigi þessa breyt. á fræðslulöggjöfinni. Ég get ekki fellt mig við þessa afstöðu hans. Að mínum dómi hefur það mikla þýðingu, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi. Það er mjög auðvelt að skilja frv. Þegar búið er að samþ. þetta frv., þá liggur í hlutarins eðli, að hinum almennu l. um skóla verður að breyta í samræmi við þetta, því að í þessu frv. felst, að Alþ. ætlar að breyta l. um fræðslukerfið.

Að því er snertir fjárveitingu til skólanna, þá er mér ómögulegt að sjá, hvaða breyting verður á valdi ráðherra. Hv. þm. var að gera fyrirspurnir í þá átt. Ég vil fá hjá honum upplýsingar um, hvað hann á við. Það hefur gengið á ýmsu með að framkvæma skyldur, sem á Alþ. hvíla um fjárveitingu, t. d. til héraðsskólans á Laugarvatni, en þar hafa verið gerðar byggingar stærri en fjárveiting heimilar, og því verður Alþ. að auka þessa fjárveitingu.