06.11.1945
Neðri deild: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

6. mál, togarakaup ríkisins

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er flutt til staðfestingar á bráðabirgðal., og með þeim bráðabirgðal. aflaði stj. heimildar til kaupa á 30 togurum erlendis til að selja einstaklingum, félögum eða bæjar- og sveitarfélögum. Ég hef leyft mér að flytja við þetta frv. brtt. um að rýmka heimildina, sem stj. hefur, þannig að hún taki til kaupa á allt að 50 togurum í stað allt að 30 togurum. Rökin, sem ég tel, að réttlæti þessa heimild, eru þessi :

Það er upplýst í málsskjölum, sem hér fylgja meðferð málsins á þingi, að umsóknir um togara eru nú þegar allmiklu fleiri en 30. Raunar hef ég heyrt bornar brigður á það, að kaupendur stæðu á bak við allar þessar umsóknir, en ég hygg, að svo sé í flestum tilfellum. Ég vil geta þess, að í bæjarstj. Reykjavíkur hefur verið rætt um það, að bærinn keypti allmarga togara til eigin útgerðar, en það hefur ekki hlotið samþykki bæjarstj. En rétt er að geta þess, að 7 af 15 bæjarfulltrúum fylgdu þessu á sínum tíma, og er ekki ólíklegt, að málið verði tekið upp innan tíðar og fram komi ósk bæjarfélagsins um slíkt. Mér sýnist af því, sem ég hef nú nefnt, augljóst, að eftirspurn eftir togurum muni verða meiri en svo, að henni verði fullnægt með þeim 30 togurum, sem samið hefur verið um smíði á í Englandi. Mér sýnist augljóst, að ríkisstj. muni vera réttur aðili til þess að annast þessi togarakaup, og raunar er upplýst í þessum umr., að svo sé, og þá leiðir af þessu, að sjálfsagt er að gera heimildina, sem stj. er gefin, nokkuð rýmri en gert er ráð fyrir í frv.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að nokkur deila hefur um það staðið, hvort hinir nýju togarar ættu að vera með gufuvélum eða dieselvélum. Það upplýstist í þeim deilum, hvernig á því stendur, að niðurstaðan varð sú, að 28 af togurunum frá Englandi verða búnir gufuvélum. Það er samkv. till. frá útgerðarmönnum, sem um þetta mál hafa fjallað. Nú vil ég á engan hátt bera brigður á kunnugleika þessara ágætu manna hvað snertir íslenzka útgerð. En ég get ekki komizt hjá að minna á það, að gufuvélin er nú alls staðar að víkja fyrir dieselvélinni. Í farþegaskipum er gufuvélin að hverfa og dieselvélin að koma í hennar stað, og við Ameríkustrendur mun vera fiskað eingöngu á togara með dieselvélum. Það er raunar rétt, að þar eru þeir útbúnir fyrir nokkuð aðrar aðstæður en hér, og erfiðleikar munu vera á því að fá nógu sterkar togvindur í sambandi við dieselvélar, en nú segja sérfróðir menn, að þeir erfiðleikar séu ekki lengur til staðar. Þetta mun hafa ráðið nokkru um það, að útgerðarmenn lögðu til, að keyptir væru gufutogarar, og íslenzkir sjómenn eru slíkum skipum vanastir, og fátt er um vélstjóra, sem hafa nokkra reynslu í að fara með dieselvélar. En mér finnst æskilegt, að jafnhliða því, að keyptir eru margir togarar knúðir gufuvélum, séu einnig keyptir nokkrir knúðir dieselvélum, og ég vildi láta þau orð falla til athugunar fyrir hæstv. stj., ef mín heimild verður samþ., hvort ekki sé rétt, að þeir togarar, sem kynnu að bætast í hópinn, yrðu dieseltogarar. Mér þykir sennilegt eftir upplýsingum, sem fengizt hafa frá Ameríku, að hægt væri að semja þar um smíði á dieseltogurum, gerðum eftir íslenzkum teikningum. Um þetta skal ég ekkert fullyrða, en það mundi koma á daginn, þegar stj. fengi víðtækari heimild en gert er ráð fyrir í Frv., ef hún leitaði kaupa samkv. þeirri heimild.

Ef til vill mundi einhver ætla, að það hefði verið rétt, að ég flytti einnig brtt. við 2. gr. frv., þá gr. heimildarinnar að taka 60 millj. kr. lán. En ég hef ekki séð ástæðu til þess, því að það er vitað, að þessi lánsheimild mun vera svo rífleg, að engar líkur eru til, að til hennar allrar þurfi að taka vegna kaupa 30 togara, þar sem upplýst er, að kaupin ganga beint inn í kaupsamning stj., og virðist svo sem kaupendur séu fyrir hendi, ekki aðeins fyrir 30 togara, heldur fleiri. Ég tel því 60 millj. kr. lánsheimildina nægilega, þó að samþ. verði að breyta kaupheimildinni þannig, að hún nái til allt að 50 togara.