03.12.1945
Neðri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Frv. þetta á þskj 264, um landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum, er flutt hér af sjútvn. samkv. beiðni ríkisstj. Málið hefur borið þannig að, að mþn. um sjávarútvegsmál samdi frv. um landshöfn í Njarðvík og sendi það ráðh. með ósk um, að hann sæi um flutning á því. Ráðh. lét prenta frv. sem handrit í fyrra og útbýtti því meðal þm., svo að það er orðið hv. þm. kunnugt. Þá var ekki orðið neitt samkomulag um staðinn við þá menn, sem byggja þennan skaga, sem liggur að ríkustu fiskimiðum landsins. En eins og kunnugt er, eru skoðanir manna skiptar um, hvar hafnir eigi að koma. Hver otar þar sinni heimalendingu. Ráðh. hefur síðan frv. var útbýtt meðal þm. unnið að því að fá samkomulag um, að menn létu niður falla ágreining um staðinn, en ágreiningur var fyrst og fremst milli Njarðvíkinga og Keflvíkinga. Þetta hefur tekizt, og kemur frv. nú að því leyti breytt, að það heitir nú ekki frv. til l. um landshöfn í Njarðvík, heldur í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum.

Það er óþarft að eyða mörgum orðum um niðurstöður þeirra rannsókna, sem framkvæmdar hafa verið á viðkomandi stöðum. Það er tekið fram í grg. frv. Og ef menn vilja kynna sér þá hlið málsins nánar, er bezt fyrir þá að leita til vitamálaskrifstofunnar, sem hefur gert allar áætlanir um þetta mannvirki. Það yrði of langt mál, að skýra frá þeim öllum hér, en til stuðnings þessu máli mun ég þó geta nokkurra atriða.

Það er algert nýmæli, að lagt skuli vera til, að byggð verði landshöfn hér á landi. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur skipun þessara mála alltaf verið sú, að sett hafa verið l. um hafnargerðir og lendingarbætur á ákveðnum stöðum. Og sveitarfélögin hafa raunverulega átt þessar hafnarbætur, en ríkið hefur lagt fram styrki til þeirra eftir fyrirfram ákveðnum mælikvarða. Til þéttbýlla staða hefur styrkurinn numið 1/3 kostnaðar auk ríkisábyrgðar og 1/5 til hinna stærri staða, en ½ þar, sem í hlut eiga sveitarfélög og staðir, sem ekki geta haft neinar verulegar tekjur af lendingarbótum. Nú er það svo, að þegar menn vöknuðu til skilnings á því, að rekstur ríkisins og brauðöflun fólksins byggðist að mjög miklu leyti á fiskimiðunum, kom líka til athugunar, að það yrði að efla framleiðslutæki sjávarins, fiskiskipaflotann. En af því leiddi það, að það varð að ætla þessum skipaflota einhverja afgreiðslustaði.

Áður hugsuðu menn mest um afgreiðslustaði fyrir skip, sem önnuðust millilandasiglingar, þ. e. afgreiðslustaði fyrir verzlunarflotann. Nú kom hitt sjónarmiðið upp, að fyrst og fremst þyrfti að sjá um afgreiðslustaði fyrir fiskiskip landsmanna. Vitanlega er ekki hægt að hafa þá afgreiðslustaði inni í fjarðarbotnum og á öðrum þeim stöðum, sem náttúran hefur skapað skilyrði fyrir skipalægi, heldur verður að setja þessa afgreiðslustaði niður í nánd við beztu fiskimiðin, en þar er strandlengjan svo að segja hafnlaus, náttúran hefur ekki skapað þar þau skilyrði, sem þarf, til slíkrar daglegrar afgreiðslu. Nú er það víst, að ef skapa á fiskiskipaflotanum öruggar hafnir og greiða afgreiðslu, þarf að byggja hafnirnar upp alveg frá grunni. Við náttúruskilyrði er lítið hægt að styðjast. Á þessum stöðum eiga hlut að máli fátæk sveitarfélög, sem geta ekki ráðizt í slíkar stórframkvæmdir. Bygging slíkra hafna mun ekki aðeins kosta milljónir, heldur milljónatugi.

Mþn. í sjávarútvegsmálum athugaði þetta mál og komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera réttasta leiðin í þessu máli, að ríkið léti byggja þessar hafnir og gera þær að eins konar sjálfseignarstofnunum. Fjárframlög ríkisins þurfa ekkert að breytast við það, því að búast má við, að slíkar hafnir muni, þegar fram líða stundir, hafa miklar tekjuvonir og því óhætt að taka að láni þá upphæð, sem ætlazt er til að sveitarfélagið legði fram. Bein fjárframlög ríkissjóðs ættu því ekki að þurfa að vera meiri en til hafna, sem sveitar- eða bæjarfélög stæðu að. Það má segja, að hinn óbeini hagnaður af því að fá slíka höfn sé jafnmikill fyrir sveitarfélagið hvort sem það stendur sjálft að henni eða hún er landshöfn.

Eftir athugun á þeim stöðum, sem líklegir væru til þess að skipaflotinn gæti haft aðsetur á, þegar vertíðin stendur yfir, bendir n. á 5 staði, sem hún telur rétt, að rannsakaðir yrðu. Rannsókn á Njarðvík hefur leitt í ljós, að skilyrði til landshafnar eru þar hin ákjósanlegustu, og er frv. miðað við landshöfn á þeim eina stað sökum þess, að bygging slíks mannvirkis er svo mikið átak, að ekki er hugsanlegt, að því verði komið upp nema á einum stað í einu. Okkur virðist, að þótt höfnin í Njarðvík væri ekki tekin öll, gætu þar haft aðsetur um 150 bátar, en ef hún er tekin öll, mundu fleiri hundruð fiskibátar geta haft aðsetur þar. Nú er það áformið, að Keflavík sé tekin með, og liggja þessir tveir staðir svo nærri hvor öðrum, að ekki er fullur kílómetri á milli. Þar er dýpi geysimikið og þarf ekki að bæta miklu við til þess að þar geti fengið afgreiðslu eins stór skip og þörf krefur. Báðir staðirnir falla vel inn í heildina. — Kostnaður við þessa hafnargerð á báðum stöðunum er áætlaður 10 millj. kr.

Fyrstu framkvæmdir í Njarðvík yrðu þær, að komið yrði upp afgreiðslustöðum og uppfyllingu fyrir báta, og aukið við framkvæmdir í Keflavík vegna stórskipa. Ætlazt er til, að þarna rísi upp allt tilheyrandi útgerð, frystihús, verbúðir og annað, sem útgerðin þarfnast. Ekki þarf að gera ráð fyrir, að allt þetta verði gert í einu, en við væntum þess, að á tveimur næstu árum komist upp mannvirki fyrir 150 báta. Nú er svo ástatt, að bátar geta varla fengið viðlegu þarna, svo að viðunandi sé, og geta þeir af þeim sökum ekki verið eins lengi og ella mundi. Reynslan sýnir, að tjón verður helzt á skipum, er þau eru að ná landi, eða yfir 50%. Þannig er ástandið nú, og má því geta nærri, hvernig það verður, þegar flotinn er orðinn stærri, sem ekki er langt að bíða.

Ég vil bæta því við, að ríkisstj. hefur sætt allan þann ágreining, sem um staðina var, og mun vel á veg komið, að höfnin geti fengið það land, sem hún þarfnast, við skynsamlegu verði.

Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að setja beri landshöfn þar, sem þegar er kominn kaupstaður, en sú skoðun er á misskilningi byggð. Það er æskilegast, að landið sé ósnortið. Það kemur í ljós, þegar landshöfn á að koma þar, sem mannvirki hafa þegar verið gerð, og verður að kaupa þau.

Þar sem við tölum um, að ríkissjóði verði heimilað að kaupa mannvirki í Keflavík og Njarðvík, innan væntanlegrar landshafnar, fyrir kostnaðarverð, vil ég taka það fram, að kostnaðarverð þýðir það fé, sem sveitarfélagið hefur lagt í þau, en ekki þar með það fé, sem ríkissjóður hefur lagt fram áður.

Ég vil að lokum biðja hæstv. forseta og hv. þd. að vísa frv. til 2. umr. að þessari umr. lokinni, en til n. þarf það ekki að fara, því að það er flutt af nefnd.