20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og fyrirsögn þessa frv. ber með sér, er þessari höfn ætlað að vera til afnota ekki aðeins fyrir þær verstöðvar í því héraði, sem hún er byggð í, heldur fyrir flota landsmanna í heild. Ég get ekki annað en minnzt á það örfáum orðum, að þótt hér sé verið að byggja svokallaða landshöfn, þá er hér allt mótað af eiginhagsmunum þessara héraða. Ég vil vænta þess, að framkvæmdum verði hagað þannig, að fullt tillit verði tekið til hagsmuna mótorbátaflotans í heild og gert verði ráð fyrir viðlegu fyrir alla báta, sem þarna stunda róðra á vetrum.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 580 viðvíkjandi samsetningu stjórnarinnar. Hv. þm. Barð. sagði, að eðlilegt væri, að Landssamband útvegsmanna hefði fulltrúa í stjórninni. Þetta er rétt að sumu leyti, þeir hafa hagsmuna að gæta, en hvað þá um hina, þá fjölmörgu sjómenn? Skyldu þeir ekki hafa hagsmuna að gæta? Ég á sérstaklega við það, að um leið og þessi hafnarmannvirki eru gerð og þar með sköpuð góð aðstaða fyrir vélbáta, verði jafnframt að skapa nægilega góða aðstöðu fyrir sjómennina sjálfa í landi með því að byggja verbúðir. Þess vegna álít ég, að ekki sé síður ástæða til, að sjómenn eigi fulltrúa í stjórn hafnarinnar en útgerðarmenn. Ég tel réttmætt, að þegar tekið hefur verið svo mikið tillit til viðkomandi staða, þá eigi sjómenn að fá einn fulltrúa og Landssamband útvegsmanna einn. Sem sagt ég álít, að Alþýðusambandið eigi að hafa rétt til að tilnefna einn mann sem fulltrúa hinna fjölmennu sjómannasamtaka í landinu. Ég vil vænta þess, að þótt ekki næðist samkomulag um þetta í n., þá muni hv. þdm. fallast á þetta, þar sem það er fullt sanngirnismál, að sjómenn eigi einn fulltrúa í hafnarstjórn, og það getur ekki skaðað neinn aðila.