20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Ég skal ekki hefja deilur um þetta atriði. Þetta er talsvert mikið prinsipatriði, hvort hrúga eigi mestu í þá staði, sem stærstir eru. En annars ætla ég ekki að blanda mér inn í það, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á: En ég vildi benda hv. þm. á, að með þessu frv. er ekki verið að þrengja kosti Reykjavíkur á nokkurn hátt. Og með því frv., sem afgr. var hér um hafnarmál, þá var hlutur Reykjavíkur gerður betri en hann var áður. Í 1. gr. frv. er tekið fram, að ríkissjóður greiði hluta af kostnaði við hafnargerð, einnig í Reykjavík. Í 2. gr. 28. lið er ríkissjóði gert skylt að greiða 2/5 til Reykjavíkur, sem áður hefur þó aldrei fengið nema 1/3. Þetta munar kannske ekki miklu, en ég held þó, að þetta sé fremur gróði fyrir Reykjavik en hitt. Það var sett inn í þetta frv., að þetta sé bundið því skilyrði, að samgmrn. samþykki og eignir og tekjur hafnarinnar geti ekki staðið undir kostnaðinum. Séu hins vegar tekjur hafnarinnar svo miklar, að þær geti uppfyllt þetta, þótti sjútvn. ekki rétt, að ríkissjóður styrkti framkvæmdirnar, hvorki hér í Reykjavík né annars staðar. 2. málsgr. 1. gr. gefur miklu meiri rétt um aðstoð til hafnar í Reykjavík en áður. Þar er ríkissjóði heimilað að ábyrgjast 3/5 hluta þess fjár, sem slíkar hafnir taka til hafnargerða, hvort sem þær eiga fé sjálfar eða ekki, og þetta er stórkostleg bót frá því, sem nú er, fyrir Reykjavík. Hugsum okkur, að hún taki 10 millj. kr. lán til þess að framkvæma 15 millj. kr. framkvæmdir. Þá er það samkv. l., að ríkissjóður er skyldugur til að ábyrgjast þetta lán, þótt Reykjavík eða einhver önnur höfn kynni að geta staðið undir vöxtum og afborgunum. Mér finnst hér heldur hlúð að Reykjavík en hið gagnstæða, en það mátti skilja á ræðu hv. 6. þm. Reykv., að hann er á öðru máli. Ég benti á það, að ég tel þetta frv. ekki gefa nein meiri fríðindi en önnur hafnarl., og ég tel héruðin vera aðþrengd meira, ef byggð er landshöfn undir þessum l. en ef hún er byggð undir, almennum hafnarl. Ég tel, að ekki sé verið að hlúa að þessum tveimur stöðum, nema síður sé. Eftir að hafa haldið fund með hafnarnefnd að sunnan, þá var það viðurkennt af öðrum nm., að hann liti svo á, að fyrir héruðin væri það miklu hagkvæmara að byggja undir ákvæðum hafnarl. en fara inn á þessa braut, því að héraðið eignast ekkert, heldur landið. Ég er viss um, að Reykjavíkurbær hefði ekki á sínum tíma viljað skipta um, a. m. k. mundi hann ekki vilja það í dag, að hér hefði verið byggð upp landshöfn, þar sem landið ætti alla tekjumöguleika og allar eignir, þótt smánarlega lítið hafi verið lagt til þeirrar hafnar úr ríkissjóði: Hvar á að byggja landshöfn, ræður allt annað en það, sem hv. 6. þm. Reykv. talaði um. Það, sem því ræður fyrst og fremst, er það, hvaðan stytzt er á miðin. Það er ekki smávægilegt atriði fyrir útveginn, hvort það munar einum klukkutíma, hvað styttra er á miðin, þar kemur til greina olíueyðsla og tímasparnaður. Þetta hefur valdið því langmest, að þessi staður var valinn. Frá þessum stað er mun styttra á miðin en frá Hafnarfirði, Reykjavík og Akranesi. Það kom til mála að gera landshöfn á Rifi, vegna þess hversu stutt er á miðin. En það má ekki blanda því saman, að bæði Hafnarfjörður og Reykjavík eru komin upp vegna ýmissa annarra hluta, t. d. þæginda, sem hægt er að veita sér þar, en ekki annars staðar, og m. a. vegna ágætrar stjórnar hv. 6. þm. Reykv. á bænum. En hvort það er hollt, að landsmenn hrúgist svo mjög hingað, skal ég ekki ræða hér í sambandi við þetta mál.