05.04.1946
Neðri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Sigurður E. Hlíðar:

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál. Það gengur sennilega sína sigurför gegnum þingið þrátt fyrir þær brtt., sem fram hafa komið frá hv. n. En mér þótti vænt um að heyra drepið í framsöguræðu hv. frsm. einmitt á fyrirkomulag hafnarinnar. Því að þó að það standi í 1. gr. frv., að ráðh. skuli ákveða gerð og fyrirkomulag hafnarinnar í samráði við vitamálastjóra, þá er ekki neitt nánar um það þar. Og ég geri ráð fyrir, að vel sé um það búið í sjálfu sér. En þó er maður dálítið forvitinn, sérstaklega þeir menn, sem þekkja dálítið til þarna syðra, um það, hvernig þessu verki eigi að haga. Nú var þess getið í framsöguræðu, að meiningin væri að tryggja þessi hafnarmannvirki sem bezt gegn veðrahættu: Áður hélt maður, að það ætti að halda áfram að byggja þarna mannvirki frá vesturströndinni. En það þarf líka að byggja svo frá austurströndinni, að til varnar sé í veðrum. Ég hygg því rétt, að byggður yrði bráðlega annar hafnargarður frá Innri-Njarðvík, til þess að verja þetta stóra mannvirki fyrir austanátt, sem er mjög hættuleg smábátum, eins og hefur sýnt sig undanfarið. Þó að til sé höfn fyrir nokkurn fjölda báta í Keflavík, þá verða bátar nú að flýja úr Njarðvík í austanveðrum, vegna þess að hafnargarð vantar þar að austanverðu. Og það er mjög athyglisvert um þetta mál, að hæstv. samgmrh. og vitamálastjóri hafa lýst yfir því sem þeirra skoðun, að þarna að austan sé nauðsynlegt að byrja eitthvað á hafnargarði, jafnhliða því, sem gerðar eru framkvæmdir til umbóta höfninni að vestanverðu.

Að öðru leyti er ég fylgjandi þessu máli.