05.04.1946
Neðri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að fara um þetta mál mörgum orðum, því að hv. frsm. sjútvn. hefur gert svo ýtarlega grein fyrir þeim breyt., sem frv. hefur tekið í hv. Ed. — Það liggur náttúrlega í hlutarins eðli, að frv. þetta hefur verið gert úr garði af ráðuneytinu eins og það óskaði, að það næði fram að ganga, og þannig var það flutt hér í hv. d. og afgr. héðan frá d. Þessar breyt., sem gerðar voru á því í hv. Ed., voru að vísu bornar undir mig og ég látinn um þær vita, og ég samþ. þær til samkomulags, til þess að málið fengi að ganga áfram, þó að ég hefði að ýmsu leyti fremur kosið, að frv. hefði fengið að vera í sinni upprunalegu mynd. Ég get verið hv. frsm. n. sammála um það, að þessar breyt. flestar séu ekki ýkja þýðingarmiklar. Þó hafa sumar þeirra nokkra þýðingu. En ég hygg þó, að við þær megi una, og sjálfur hefði ég getað til samkomulags sætt mig við þetta, sem n. vill nú breyta, að hafa stjórnarfyrirkomulag hafnarinnar eins og hv. Ed. hafði hugsað sér. En ef það álízt svo, að það stofni ekki málinu í hættu, að það fari á milli d., þá kýs ég heldur það fyrirkomulag, sem hér er stungið upp á í brtt. og eins og ákvæðin voru í þessu efni í upprunalega frv., þó að ég muni sætta mig við þetta eins og það er í frv.

Ef þessar brtt. verða samþ. nú, þá er það gert í trausti þess, að frv. verði ekki stefnt í hættu, því að ef því væri stefnt í hættu með því að breyta því nú, teldi ég verr farið en ekki, að brtt. væru samþ. — Annars þarf ég ekki um þessar brtt. að ræða, það hefur verið ýtarlega gert áður. En ég skal aðeins, að gefnu tilefni frá hv. 7. þm. Reykv., frsm. n., og hv. þm. Ak., minnast örlítið á framkvæmdirnar sjálfar. Það er alveg rétt, að það er ekki í frv. sjálfu slegið föstu um það, í hvaða röð framkvæmdirnar skuli gerðar, en þó var eitt af ákvæðunum, sem sett voru inn í frv. í hv. Ed., sem kannske getur orkað tvímælis, eins og bent hefur verið á hér, að hafnartakmörkin, sem til eru tekin í þeim, ákvæðum, sem Ed. setti inn, gefa nokkra bendingu um framkvæmd mannvirkjanna, því að þar er tekið fram, að takmörk hafnarinnar skuli ná nokkuð inn fyrir Vatnsnes, en því á hinn bóginn slegið föstu, hvað þau skuli ná að austanverðu, og tekur það þá einnig til Innri-Njarðvíkur, þannig að frv. gefur til kynna, að möguleikar séu opnir fyrir því, að þar verði unnið einnig og ekki síður en að vestanverðu. Annars var þetta samkomulag, sem gert var við Keflavíkurhrepp, byggt á því að nokkru leyti, að fyrst um sinn gætu stærstu skip, sem þarna koma, sem ætla má í framtíðinni, að muni geta orðið 5 þús. tonn eða þar yfir, verið afgreidd að mestu leyti þar, sem áður hét Keflavíkurhöfn, sunnan á Vatnsnesi, annaðhvort við garð eða bryggju, og þess vegna yrðu hafnarbætur í Njarðvík meir miðaðar við skjól og afgreiðslu fyrir vélbátaflotann, en frekar látnar mæta afgangi framkvæmdir í Njarðvíkum vegna stærri skipa, með hliðsjón af því, að þau gætu fengið sig afgreidd í Keflavík. — Það, sem snýr að vélbátaflotanum, og það, sem höfnin er fyrst og fremst byggð til þess að þjóna, er það að skapa fyrst og fremst öryggi í vondum veðrum. Og þetta verður reynt að uppfylla á sem haganlegastan hátt sem hægt er og án þess að á nokkurn sé hallað. — Ég veit vel um það, að það er ýmislegt reiptog, sem er gamalt fyrst og fremst, á milli Keflavíkurhrepps annars vegar og Njarðvíkurhrepps hins vegar, reiptog, sem m. a. leiddi til þess, að þessi hreppaskipting varð, að Njarðvíkurhreppur var myndaður, sem gert var fyrir fáum árum síðan og m. a. út af þessu máli. En ég hygg, að eftir atvikum megi bæði sætta menn þarna á þessum stöðum innbyrðis og á hvorum staðnum fyrir sig við þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið áætlanir um og framkvæmdir miðaðar við, enda þá út frá því gengið, að reynt verði að koma mannvirkjunum þannig fyrir, að öllum á þessum stöðum geti orðið að því verulegur stuðningur. — Nákvæmar um gerð hafnarmannvirkjanna eða þá skilyrðislausu röð, sem á byggingu þeirra verði höfð, er ekki hægt að segja á þessu stigi málsins, annað en það, að leitazt verður við að leysa þarfir bátaútvegsins á þessum stöðum og þeirra manna, sem að honum standa, á þann heppilegasta hátt, sem hægt verður, bæði tekniskt og fjárhagslega.

Annað hef ég ekki um þetta mál að segja á þessu stigi, en ég treysti því fastlega, að ef brtt. verða samþ. við frv., þá verði það ekki til þess að leggja stein í götu málsins, enda veit ég, að brtt. er ekki fram borin í þeim tilgangi, heldur þvert á móti.