18.10.1945
Efri deild: 9. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm,. (Guðmundur I. Guðmundsson) :

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. hefur sent sjútvn. frv. þetta, og er n. sammála um grundvallarsjónarmið frv., en tími hefur ekki unnizt til þess að athuga frv. eins vel og æskilegt hefði verið, sérstaklega 2. gr. þess. Þess vegna hafa sumir nm. áskilið sér rétt til að flytja brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Eins og sjá má í grg., miðar frv. að því að setja sams konar löggjöf um hafnargerðir og lendingarbætur og um vega-, brúa- og vitagerðir. Upp eru tekin í frv. öll ákvæði, sem varða slík mannvirki, að undanskildum landshöfnum, og öll almenn ákvæði, sem verið hafa í gildi um hafnir og lendingarbætur.

Það þarf ekki að fjölyrða um brýna nauðsyn l. sem þessara. Oft hefur það verið rætt hér á hæstv. Alþ., hve óheppilegt væri að setja sérstök l. fyrir hvert einstakt hafnarmannvirki, en þetta frv. felur í sér heildarlöggjöf. Það er ástæða til þess að fagna því, að samgmrh. skuli hafa lagt frv. fram, og væri æskilegt, að samþ. það á þessu Alþ., og vænti ég, að frv. verði sent til sjútvn.

Ég geri ráð fyrir, að fram komi brtt. og þá sérstaklega við 2. gr., því að þar vantar ýmsar hafnir og lendingarbætur, sem einstakir þm. kunna að hafa áhuga á.

Útbýtt hefur nú verið í d. sérstöku frv. til hafnarl. fyrir Seyðisfjarðarkaupstað, og teldi ég bezt að fella téð frv. inn í l., og mundi það að sjálfsögðu falla inn í þennan heildarramma. Ég hef borið fram brtt. um, að Sandgerði verði tekið upp í frv. Sandgerði er ein helzta verstöð landsins, en hafnarskilyrði eru þar ekki svo góð sem skyldi. Mér er kunnugt um, að vitamálastjórnin hefur látið gera þar mælingar. Ég hef því borið fram brtt. um, að Sandgerði verði sett inn á c-lið, en þó kæmi til athugunar, hvort það ætti heldur að heyra undir b- eða c-lið, en ég legg til, að þar verði byggð höfn. — Sé ég svo ekki ástæðu til þess að ræða fleira um frv. að sinni, en legg til, að því verði vísað til sjútvn. og 2. umr.