29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Bjarni Benediktsson:

Hv. þm. Barð. gaf mér í raun og veru með síðustu ræðu sinni tilefni til þess að deila nokkuð á hann og hans aðferð til að túlka mál hér á þingi. Ég sé samt ekki ástæðu til að taka upp við hann neinar þrætur.

Hann um það, hvernig hann telur sér sæma að flytja mál. Ég vil eingöngu mótmæla þeim ítrekuðu ásökunum hans í garð bæjarstj. Reykjavíkur fyrir athafnaleysi í þessu skipasmíðastöðvar og hafnargerðarmáli í Elliðaárvogi. Það er alrangt, að bæjarstj. Reykjavíkur og hafnarstj. hafi látið nokkuð uppi um það, að þær væru ófúsar til að beita sér fyrir þessum aðgerðum, — þvert á móti, það eina, sem liggur fyrir í málinu, bendir til vilja þeirra í þá átt að hefja þarna framkvæmdir. Hitt er annað mál, að við höfum ekki verið á sama máli og þessi hv. þm., sem lýsti yfir því, að hann teldi, að það mundi verða til tafar framkvæmdum á þessum slóðum, ef allar áætlanir yrðu gerðar um þær fyrirfram. Við teljum, að slíkt hljóti að verða til fyrirgreiðslu málinu og að til þess, að framkvæmdirnar séu af skynsemi gerðar, sé nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir, hvað fyrir þeim vakir um framkvæmdir á þessum stað og hvernig ein framkvæmd eigi að taka við af annarri. Í þessu felst ekki á nokkurn hátt sú hugsun, að allar framkvæmdirnar séu gerðar í einu, en það minnsta, sem menn verða að gera sér ljóst, áður en í slíkar framkvæmdir er ráðizt, er heildaráætlun um framkvæmdirnar og þar með einhvers konar kostnaðaráætlun um þessar framkvæmdir. Hafnarstj. lét hefjast handa um að gera slíka áætlun, og nú liggur hún fyrir. Það er því alveg rangt, og ég mótmæli því sem algerlega tilhæfulausu hjá hv. þm., að bæjarstj. eða hafnarstj. sé að tefja fyrir málinu og sporna gegn framkvæmd þess. Ég hef ekki þekkingu eða skilyrði til að dæma um, hvort áætlunin er reist á rökum eða, ekki, og þess vegna m. a. beitti ég mér fyrir því, að hún yrði gerð. En ég treysti fagþekkingu hv. þm. Barð., þó að hann hagi stundum orðum sínum hér á þingi öðruvísi en vera skyldi, en ég treysti því, að menn fái að njóta hans góðu skynsemi, þegar málið er sent til n., sem hann á sæti í, og einnig honum sem upphafsmanni málsins til að koma með þær aths., sem hann hefur að gera. Auk þess hefur málið verið sent til vitamálaskrifstofunnar og þannig verið fengin umsögn færustu manna í þessu efni. Að þetta sé sama og að koma í veg fyrir, að málið nái fram að ganga, slíkt nær vitanlega engri átt, og tekur ekki tali að ræða um það, og efast ég um, að hv. þm. vilji við það standa, þegar hann hugsar það betur. Annars skal ég ekki skemmta þeim illa með því að þræta við þennan hv. þm., sem mér kemur mjög vel saman við, nema þegar svona gusur koma frá honum sem nú hefur orðið.

Að bæjarstj. Reykjavíkur hafi hvað eftir annað hafnað fjárveitingu frá þinginu, það er einnig algerlega út í bláinn. Það hefur ekki verið fjárveiting til þessara framkvæmda nema eitt einasta ár mér vitanlega. Þá er heimilað að veita 2 millj. kr., og þær hrökkva skammt fyrir þessum framkvæmdum, og þó að það kunni að vera of í lagt, sem ég efast um, að þessar framkvæmdir kosti 60–70 millj., þá getur munurinn ekki verið svo mikill, að þessar 2 millj. hrökkvi langt. En jafnvel þó að þessum 2 millj. hefði verið hafnað, sem ekki er rétt, þá fer því fjarri, að bæjarstj. hafi sýnt tregðu í málinu. Ég veit ekki annað en að fullur áhugi og vilji sé á að hrinda málinu í framkvæmd eftir beztu getu, og vísa ég því á bug öllum getsökum hans um það gagnstæða. Að öðru leyti vil ég biðja hv. d. afsökunar á að hafa dregið inn í málið umr. um slík sératriði, en það er hv. þm. Barð., sem einn á sök á því með því að vaða hér með illyrðum hvað eftir annað upp á bæjarstj. Reykjavíkur.