29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég vil aðeins segja örfá orð í tilefni af því, sem hv. þm. Barð. sagði í sambandi við Húsavík. Hv. þm., sem sjálfur er form. fjvn., sagði, að fyrir n. lægi styrkbeiðni frá Húsavík til viðhalds hafnarmannvirkja þar. Mér skildist, að skoðun hans væri sú, að mjög kæmi til álita, hvort veita ætti fé til viðhalds hafnarmannvirkja svipað og til hafnargerðar eða stofnkostnaðar. Þar sem mér er þetta mál nokkuð kunnugt, skal ég skýra afstöðu mína í fáum orðum. Þegar bryggjan á Húsavík var byggð fyrir rúmum 10 árum, að ég ætla, var ég ekki kominn í vitamálaskrifstofuna og veit því ekki um forsögu málsins. En nokkur hluti mannvirkisins var byggður úr tré. Þessi „konstruktion“ hefur sem sagt ekki staðið sig betur en það, að nú verður að byggja mannvirkið upp að nýju, og verður því hagað á allt annan hátt en gert var ráð fyrir í upphafi. Þess vegna er hér ekki um venjulegt viðhald að ræða. Hér er um að ræða alveg nýja „konstruktion,“ hvort sem hún kann að verða gerð úr járni, stáli eða steinsteypu, en úr einhverju þessara efna verður hún að vera. Ég tel því, að þetta mannvirki eigi eins mikinn rétt á að fá styrk úr ríkissjóði og hrein nýbygging. Ég geri ráð fyrir, að menn hafi gert þessar framkvæmdir á sínum tíma eftir beztu sannfæringu og álitið, að þær mundu duga. En 1934 var einmitt mjög mikil fjárþröng og var því leitazt við að finna út hinar ódýrustu leiðir, sem eru þó venjulega hinar dýrustu, þegar til lengdar lætur. Ég tel, að þegar svona stendur á, þá beri að telja þessi mannvirki styrkhæf úr ríkissjóði, þótt ekki sé um hreina nýbyggingu að ræða. Ef líkt stendur á og í þessu tilfelli, er fjarri því, að um viðhald sé að ræða, heldur fullkomna endurbyggingu. Það hefur verið venja undanfarið að „praktísera“ hafnarl. á þennan hátt.