13.12.1945
Efri deild: 48. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta frv. til l. um hafnargerðir og lendingarbætur og þá sérstaklega með tilliti til þess, að tekin var aftur til 3. umr. 5. brtt. á þskj. 193, þar sem farið er inn á þau nýmæli, að ríkissjóði beri ekki að greiða styrk til hafnarframkvæmda þar, sem hafnarsjóður getur sjálfur staðið undir framkvæmdunum. Sjútvn. hefur komið sér saman um það einróma að mæla með því, að þetta ákvæði verði fellt inn í 1. gr. frv., eins og það liggur fyrir nú á þskj. 259, og að 1. gr. frv., 1. málsgr., orðist þá um á þann hátt, sem segir í brtt. á þskj. 326 undir tölul. 1. Með þessari brtt. er lagt til, að inn í þessa málsgr. verði bætt, að ríkissjóður greiði hluta af kostnaðarverði þessara mannvirkja, ef „eignir og tekjur hafnar- eða lendingarbótasjóðs eru ekki fullnægjandi til þess að standa undir byggingu hafnarinnar eða lendingarbótanna,“ þannig að það er þá eitt af skilyrðunum fyrir því, að ríkissjóður styrki viðkomandi mannvirki, að hafnareða lendingarbótasjóðir séu ekki nægilega efnaðir til þess að standa sjálfir undir framkvæmdunum. Hins vegar er þó haldið því ákvæði, sem mjög var óskað eftir hér, að ekki félli niður úr frv., að ríkisstj. væri á hverjum tíma heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán til þessara hluta, sem lán annars væru tekin til, þ. e. til helmings kostnaðar af lendingarbótum og að 3/5 hlutum til hafnarbóta. Ég hygg, að hv. þd. geti fallizt á að samþ. þessa brtt.

Þá hefur n. á sama tíma athugað nokkuð brtt., sem fram voru komnar við 2. umr. við 2. gr. B-lið. Við þann lið komu fram brtt. frá hv. þm. Str. um Drangsnes, Gjögur, Kaldrananes í Bjarnarfirði og Norðurfjörð. Og frá hv. þm. Dal. kom að vísu ekki brtt. beint, en hann hafði mælzt til þess við n., hvort ekki væri hægt að taka Salthólmavík með í þessa gr. Og einnig höfðu komið fram tilmæli frá 2. þm. Árn. um að taka þar inn Selvog. N. hefur fallizt á að taka alla þessa staði upp í B-lið 2. gr., lendingarbótakaflann. N. hafði einnig til athugunar brtt. frá hv. 1. þm. Eyf. á þskj. 262 um það að taka inn á 2. gr. B-lið Árskógssand og Hauganes. Af þeim ástæðum, að ekki var hægt á þeim fundi að fá fullnægjandi upplýsingar um það, hvort ekki væri hægt að sameina þetta um einn stað, varð að samkomulagi að taka ekki þá till. upp í brtt. n. En ég vil hins vegar benda á, að ég hef síðan séð, að ákveðið er í fjárl., ég held á þessu ári, framlag til Hauganess til lendingarbóta, 1000 kr. Og er sjálfsagt að taka þessa till. hv. 1. þm. Eyf. inn, og mæli ég með því fyrir hönd n., að Hauganes verði tekið upp í gr. við þessa umr. Ég veit ekki, hvernig ástatt er um Árskógssand, en hv. 1. þm. Eyf. getur gefið upplýsingar um það. En ég hef ekkert á móti því, að hann sé tekinn upp í frv., þó að þessir staðir liggi nálægt hvor öðrum, í sama hreppi, sérstaklega þegar gengið hefur verið inn á þá braut í þessu frv. að taka upp tvo staði í einni og sömu höfn hér í Reykjavík, svo að ég hygg því ekkert vera til fyrirstöðu, að báðar þessar till. verði samþ., nema hv. 1. þm. Eyf. geti fellt sig við, að hann haldi ekki fram Árskógssandi. Hins vegar vildi n. ekki fallast á, að í staðinn fyrir þessa tvo staði verði settur inn í lendingarbótagr. Árskógssandur einn, — það þótti ekki fullnægjandi. Geri ég ráð fyrir, að n. hafi ekkert á móti því, að báðir staðirnir komi inn í lendingarbótagr., eins og gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 262. Það er ekki af andúð af n. hálfu, að þessir staðir hafa ekki verið teknir inn í prentuðu brtt. n. á þskj. 326, heldur vegna þess, að um þá lágu ekki nægilegar upplýsingar fyrir.

Í 3. tölul. brtt. n. á þskj. 326 er ekki annað tekið til en að eftir ósk frá hv. 6. þm. Reykv. verði sett inn ákvæði um, að í stað tveggja síðustu málsgr. 5. gr. frv. komi þrjár nýjar mgr., og liggur breyt. í því, að inn er sett ákvæði um, að ef leyfi til að reisa mannvirki meðfram strandlengju hafnar er ekki notað innan tveggja ára frá veitingu þess, falli það úr gildi, og sé óheimilt að framkvæma mannvirkið eftir þann tíma, nema nýtt leyfi komi til. Og svo er nokkuð breytt röð á síðustu málsgr. 5. gr. frv.

Þá er að síðustu brtt. við 9. gr. um, að aftan við síðustu málsgr. þeirrar gr. bætist ákvæði um, að gjöld hafnar- og lendingarbótasjóðs hafi forgangsrétt fyrir öðrum kröfum. Er þessi brtt. gerð samkv. ósk hv. 6. þm. Reykv. En öll þessi fyrirmæli eru í núgildandi hafnarl. Reykjavíkur, og hefur láðst, þegar frv. var samið í upphafi, að taka þessi ákvæði inn í það. En n. þótti sjálfsagt að fella þau inn í hið almenna frv.

Sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta frv. nánar, en legg til fyrir hönd n., að brtt. á þskj. 326 allar, svo og brtt., sem komið hafa fram á þskj. 262, verði samþ. hér á þessum fundi.