19.03.1946
Neðri deild: 90. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft þetta mál til athugunar, og eins og nál. á þskj. 551 ber með sér, mælir n. eindregið með því, að frv. nái fram að ganga, og telur, að efni þess sé til verulegra bóta.

Hins vegar leggur n. til, að gerðar verði nokkrar smáar breyt. á frv. Það er ekki þörf að hafa mörg orð um þessar breyt., þær skýra sig að mestu leyti sjálfar, en ég skal þó fara um þær nokkrum orðum.

1. breyt., sem n. leggur til að gerð verði, er við 2. gr. frv., að 10. liður, um Elliðaárvog, verði látinn falla niður. N. þótti ekki ástæða til, að í þessum almennu hafnarl. væri tekið fram, að mynda skyldi sérstaka höfn við Elliðaárvog í Reykjavík. En eins og kunnugt er, hefur áður verið samþ., að hafnarframkvæmdir við Elliðaárvog skuli teljast til hafnarframkvæmda við Reykjavíkurhöfn, og er það álit n., að svo skuli vera. Þessi brtt. n. er því fyrst og fremst formsbreyt., en ekki veruleg efnisbreyt.

2. brtt. sjútvn. er einnig við 2. gr., en um B-lið, sem fjallar um lendingarbætur. Þar leggur n. til, að teknir séu inn nokkrir nýir staðir, en að dómi n. eru allir þeir staðir fullkomlega sambærilegir við þá staði, sem þegar hafa verið teknir upp í frv., og þótti því rétt, að þeir skyldu njóta samsvarandi hlunninda og þeir staðir, sem þegar hafa verið teknir.

Þá hafa komið fram brtt. frá einstökum hv. þm., og held ég, að segja megi, að n, hafi fallizt á þær allar viðvíkjandi þessu atriði.

Þá er 3. brtt., við 9. gr. Þar leggur n. til, að gerð verði nokkur efnisbreyt. á, og er það sérstaklega viðvíkjandi þeim ákvæðum, sem nú eru í 9. gr. frv., sem varðar takmörkun á rétti hafnarstjórnar til þess að mega leggja gjöld á hafnarmannvirki einstaklinga innan hafnarinnar. N. lítur svo á, að um þetta ættu að gilda áfram svipaðar reglur og hingað til, að það sé á valdi hafnar- eða lendingarbótastj. að setja reglur þar um, en það sé eins og áður, að sú reglugerð þurfi samþykki þess ráðh., sem fer með hafnarmál, til þess að öðlast gildi. Hins vegar hefur hv. Ed. sett þau ákvæði inn í þessa gr., að óheimilt skuli með öllu að leggja svona gjöld á einstaklingsmannvirki, önnur en þau, sem talað er um í þessari sérstöku gr. Í þessu sambandi þykir mér rétt að benda á, að ef ákvæðin yrðu látin standa í gr. eins og nú er, þá mundi það geta þýtt í framkvæmdinni, að á sumum höfnum á landinu yrðu t. d. vörur, sem skipað væri upp á bryggjum eða hafnarmannvirkjum einstaklinga, undanskildar vörugjaldi á sama tíma sem vörur, sem hins vegar gengju yfir bryggju opinberra sjóða, væru skattlagðar með vörugjaldi. Það er álit n., að ef þannig ákvæði væru í l., mundi þetta í ýmsum tilfellum geta leitt til þess, að í reyndinni væri óframkvæmanlegt fyrir hafnarstj. að halda uppi vörugjöldum sínum, sem þær annars hefðu haft heimild til að leggja á, ef þannig skapast aðstaða fyrir einstaklinga, sem eiga hlut í höfnum, að leggja upp vörur á eina bryggju og sleppa á þann hátt við vörugjald til hafnarinnar. Sem sagt, 3. brtt., við 9. gr., fjallar fyrst og fremst um þessa breyt.

Þá þótti n. rétt, að við 15. gr. yrði bætt við ákvæði, sem tæki skýrt fram, að allar hafnarreglugerðir, sem nú eru í gildi og settar hafa verið samkv. hafnarl. viðkomandi staða, — en þau hafnarl. er nú ætlunin að nema úr gildi með þessum l., — verði látnar standa í fullu gildi, þar til ný hafnarreglugerð verður sett samkv. þessu frv., ef það verður að l., og til þess er gefinn eins árs frestur.

5. brtt. fjallar um það, að um leið og ákveðið er, að hafnarl. fyrir Siglufjörð séu úr gildi felld, skuli þó undantekið eitt ákvæði, þ. e. ákvæði 6. gr., þar sem hafnarl. skuli standa í fullu gildi, en sú gr. felur í sér sérstöðu fyrir Siglufjörð, og þótti því ekki fært að afnema þetta ákvæði.

Það skal tekið fram, að af sérstökum ástæðum þykir sjútvn. rétt, að 1. brtt., um Elliðaárvog, verði látin bíða til 3. umr., og óskar n. því eftir, að hún verði ekki borin upp að þessu sinni, en hinar allar bornar upp nú.