26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur enn á ný haft þetta mál til athugunar, en hefur að vísu ekki fengið úr prentun þær till., sem hún óskar að leggja fram. Þær eru ekki svo margbrotnar, að þeirra sé bein þörf nú og að ekki sé hægt að fá afbrigði fyrir þeim og afgr. þær, þótt þær komi fram skriflegar.

Breyt. þær, sem sjútvn. leggur til, að verði gerðar á frv. enn þá, eru við 1. og 2. gr. þess. Fyrri brtt. er um það, að bætt verði við 3. mgr. 1. gr.: „enn fremur verbúðir í viðleguhöfnum.“ — Sjútvn. hefur rætt þetta mál á allmörgum fundum og orðið sammála um að bæta þessu við í þá upptalningu, sem er í 3. mgr. 1. gr. frv., er fjallar um stuðning til hafnargerða og lendingarbóta. Síðari brtt. n. er um, að í lendingarbótaflokknum eða 2. gr. B skuli á eftir tölulið 45 bætt við nýjum lið : Selvík í Skefilsstaðahreppi. — N. hafði borizt till. frá hv. 1. þm. Skagf. Hún hafði síðan legið hjá n., og ákvað hún að taka þennan stað upp í frv. að ósk hv. þm. Þá ræddi og n. fyrirliggjandi till. frá hv. þm. Mýr. um, að höfn í Borgarnesi skyldi flutt úr A-flokki í B-flokk eða njóta áfram samsvarandi hlunninda. N. mælir með samþykkt till. þessa hv. þm. N. ræddi líka um till. hv. þm. Snæf. á þskj. 593, um að bæta inn tveim stöðum. N. sá sér ekki fært að mæla með því, að þessum stöðum yrði bætt inn í frv., en hún lætur till. afskiptalausar. Staðirnir eru óneitanlega mjög litlir. Hins vegar munu einhver dæmi þess, að staðir, svipaðir þessum, hafi komið inn.

Aðrar brtt. liggja eigi fyrir að sinni. Þar eð brtt. n. eru aðeins tvær, sé ég ekki ástæðu til að fresta málinu. Þess vegna vil ég mælast til, að hæstv. forseti greiði götu málsins og fái það afgreitt.