15.11.1945
Neðri deild: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

6. mál, togarakaup ríkisins

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég held nú, að í þessari ræðu hv. þm. V.-Húnv. (SkG) hafi komið fram í senn leikmennska og leikaraskapur, því að hvort tveggja virtist hafa komið í ljós, að hann vissi ekki gerla, hvað hann var um að tala, og alvaran var ekki geysimikil. Varðandi togarakaup Reykjavíkurbæjar vil ég upplýsa hv. þdm. um það, hvað gerzt hefur, og það er það, að snemma á þessu sumri ákvað bæjarstj. með shlj. atkv. að óska eftir því, að Reykjavík fengi hluta þeirra togara, sem í ráði var að kaupa til landsins. Og jafnframt ákvað bæjarstj., að bærinn gerðist kaupandi þeirra togara, sem einstaklingar og félög óskuðu ekki eftir. Þegar svo síðar var upplýst, að ríkisstj. ætti kost á að kaupa 30 togara til landsins, þá endurnýjaði bæjarstj. umsókn sína á þá lund að óska eftir að fá 2/3 eða 20 togara til bæjarins og jafnframt, að bærinn sem slíkur mundi þá kaupa þá togara, sem einstaklingar og félög óska ekki eftir. Nú hafa verið fest kaup á þessum togurum, og stendur bæjarstj. Reykjavíkur við fyrri samþykktir sínar í málinu, en að henni standa allir bæjarfulltrúarnir. En annað mál er það, sem hv. þm. V.-Húnv. var að spyrja um, hvort bæjarstj. mundi einnig samþykkja þá kaupskilmála, sem nú liggja fyrir. Ég get ekki svarað þessu fyrir hönd bæjarstj., því að ég hef engan rétt til að tala í hennar nafni. Mín skoðun er sú, að hún verði sammála um að ganga inn á þá samninga sem gerðir eru. Einstaklingar og félög kaupa það, sem þau vilja. Svo ruglar þm. V.-Húnv. því saman, að fulltrúar í bæjarstj. óska eftir því, að bærinn keypti aðra 10 togara, sem hann gerði út sjálfur, vegna þess að þessi till. hefur. aðeins fylgi 7 bæjarfulltrúa. Málið liggur þannig fyrir, að hv. þm. V.-Húnv. megi svipta af sér öllum áhyggjum af því, að Reykjavíkurbær standi ekki við þá samþykkt, sem gerð hefur verið með 15 shlj. atkv. Ég tel, að ekki komi annað til mála en að bærinn telji sig fúsan til að ganga inn á þá skilmála, sem fyrir hendi eru.

Út af ræðu hæstv. forsrh. skal ég fátt eitt taka fram. Ég hef fært fram rök fyrir minni till., sem ég tel, að fram hafi þurft að koma og séu fullgild. Ég vil segja í sambandi við hans yfirlýsingu um það, að hann sé ekki reiðubúinn til að taka afstöðu til þess, hvort gjaldeyri okkar eigi að verja til þessara framkvæmda eða annarra fremur, þá er það rétt, að það er eðlilega hlutverk Nýbyggingarráðs að athuga það og gera grein fyrir því, til hverra nota gjaldeyrinum á að verja. Það er líka rétt, að Nýbyggingarráð hefur ekki tekið ákvörðun um það mál, hvort heppilegt sé að veita meiri gjaldeyri til frekari togarakaupa en þessara 30 togara, en það er þó jafnfróðlegt að geta þess, að minn flokkur, Sósfl., hefur gert sér grein fyrir því, að eðlilegt væri að ganga lengra í togarakaupum svo fljótt sem þess er kostur, þar sem vitað er, að flestir eldri togararnir eru í því ástandi, að þeir munu fljótlega hætta sjósókn, þegar ný og betri skip eru komin með í reksturinn. Og þó að við fáum 30 nýja togara, mun togaraflotinn ekki verða jafnstór og hann var áður. Till. er því undirstrikun mín og minna flokksmanna á því, að rétt sé að leggja meiri áherzlu á togarakaup en orðið er, og ég vænti þess, að Nýbyggingarráð komist að sömu niðurstöðu. Mér finnst þess vegna eðlilegt, að stj. fái nú þegar þessa heimild, sem hún vissulega mun nota á þann hátt, sem menn telja æskilegast á hverjum tíma. Ég skal viðurkenna það, að ég stend ekki jafnvel að vígi og hæstv. forsrh. að ræða um verðlag erlendis á togurum og möguleika til að afla þeirra. Ég hef heyrt það haft fyrir satt, að það hafi komið fram tilboð um kaup á togurum frá Ameríku, sem hafa verið miklu dýrari en togararnir, sem búið er að semja um kaup á í Bretlandi. Ég viðurkenni líka, að þeir togarar munu ekki vera að öllu leyti sniðnir við okkar hæfi, og það er tvímælalaust, að ef við kaupum togara frá Ameríku, þá verður að senda þangað teikningar til að byggja togarana eftir. En það liggur ekki fyrir, svo að mér sé kunnugt, fyrir hvaða verð hægt er að fá slíka togara. Ég tel, að það væri í alla staði rétt að afla þessara upplýsinga. Ég geri ráð fyrir því, að ég hafi ekki miklu meira um þetta tiltölulega einfalda mál að ræða. Till. er fábrotin og þarf ekki frá minni hálfu frekara rökstuðnings við.