11.12.1945
Neðri deild: 51. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 1. minni hl. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Ég var að bíða eftir, hvort hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, ætluðu sér ekki að taka til máls varðandi það, en það var verið nú rétt áðan að útbýta nál. frá. þeim af flm., sem eru í landbn. Nú er það svo, eins og kunnugt er og tekið er fram í nál. okkar 1. landsk. á þskj. 207, að þetta frv. er borið fram sem óbein, ef ekki bein vantraustsyfirlýsing á hæstv. landbrh., þar sem það hafði verið ákveðið og gert að skilyrði hér á síðasta þingi fyrir samþykkt á þeim l., sem hér er um að ræða, um stofnun búnaðarmálasjóðs, að landbrh. skyldi samþ. áætlun þá, sem gerð yrði um úthlutun þess fjár, sem þar er um að ræða. Nú hefur frá okkar hálfu verið álitið, að það væri réttast, úr því að svo mikið írafár hefur verið gert út af þessu ákvæði, sem er þó hliðstætt ýmsu, sem hefur verið sett áður, að hv. flm. væri gert það til geðs að losa þá alveg við þetta ákvæði, sem þeir telja bændastéttinni svo hættulegt, að þeir hafa kallað það kúgunarákvæði og öðrum slíkum nöfnum og smalað saman mótmælum víðs vegar að af landinu, og væri því rétt að afnema það. Nú er það svo, að það er kunnugt, að á síðasta búnaðarþingi varð um þetta mikill ágreiningur og langar umr., hvernig verja skyldi því fé, sem þarna er um að ræða, en niðurstaðan varð sú að lokum, að það var með meiri hl. samþ. áætlun um úthlutun þessa fjár. Nú er hér um að ræða tvær greinar, sem eru dálítið undarlegar og hafa valdið ágreiningi, og er það þá fyrst og fremst það, að verja stórfé til gistihúsbyggingar í Reykjavík. Í öðru lagi er talað um að verja fé úr sjóðnum til þeirra málefna, sem búnaðarþing fjallar um og varða sérhagsmunamál bænda. Undanfarið hefur Búnaðarfélag Íslands fengið í fjárl. nær ½ millj. kr., og í þessum fjárl. mun verða samþ. hér talsvert hærri upphæð til þess. Eru flestir bændur þeirrar skoðunar, að öllu þessu fé ætti að verja til að annast sérhagsmunamál bænda. Þá er það undarlegt, að komið skuli hafa fram óánægja yfir því, að af þeim veltuskatti, sem lagður var á bændur og, eins og kunnugt er, var samþ. hér á síðasta þingi, skuli taka sérstaka upphæð handa búnaðarþingi til úthlutunar að því leyti, sem það snertir sérhagsmunamál bænda. Nú mun það vera álit mjög margra bænda landsins, að þessum peningum sé miklu betur varið til þess að annast sérstaklega þær framkvæmdir þeirra, sem mest ríður á, og hafa stjórn á framkvæmdum þeirra heldur en verja fénu til gistihúsbyggingar í Reykjavík og annars þess, sem hér er um talað. En það hefur ekki komið í ljós, að hve miklu leyti sá ágreiningur hefur fylgi meðal bænda, en það er ekkert aðalatriði, heldur hitt, hvað Alþ. álítur, að bændastéttinni sé til mestra heilla í framkvæmd þessara mála. Búnaðarsamböndin hafa að undanförnu verið mjög máttlítil vegna fjárskorts, þannig að þau hafa ekki haft ráð á því að hafa starfsmann til að annast yfirstjórn þeirra framkvæmda, sem mestu varða í sveitum landsins, það er að segja fastan starfsmann. En þau hafa öll eða nálega öll menn, sem eru að einhverju leyti starfsmenn þeirra varðandi mælingar, en fasta starfsmenn hafa þau mjög fá. Nú er það að segja, að ég er ekki búinn að ganga í gegnum þetta nál. frá 2. minni hl. landbn., og sé ég því ekki ástæðu til að fara náið út í það, fyrr en frsm. þess minni hl. er búinn að flytja framsöguræðu sína, en ég vænti þess, að hv. þdm. geti á það fallizt, úr því að svo miklar deilur hafa orðið sem raun ber vitni um skilyrði l. til úthlutunar, að þá geti orðið samkomulag um það, að það sé fellt niður á þann hátt, að Alþ. ákveði hvernig þessu fé skuli skipt, og er þá eðlilegt, að því sé skipt í réttu hlutfalli miðað við það, sem kemur úr héruðunum í þennan sjóð, ef hann á að starfa áfram. — Ég skal svo ekki að sinni, þar til frekara tilefni gefst til, hafa fleiri orð um þetta, en vænti þess, að þessi brtt. við frv. komi sem fyrst undir atkv., og þá verður úr því skorið, hverri stefnu hv. meiri hl. Alþ. að þessu leyti fylgir.