11.12.1945
Neðri deild: 51. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Þegar l. um stofnun búnaðarmálasjóðs voru sett á síðasta þingi, þóttu þau sæmilega undirbúin og jafnvel betur en flest annað, því að búnaðarþing hafði um það mál fjallað. En svo brá við, að ekki voru allir ánægðir með ákvæði eitt, er í frv. þessu var, og má víst með sanni segja, að ekki sé það nein nýlunda, og gerðust svo ýmsir andstæðingar frv. Og fyrir þá sök var mál þetta einstakt í sögu búnaðarmála á Alþ. Ekki aðeins þeir, sem láta sig litlu skipta málefni bænda, heldur og ýmsir fulltrúar bænda studdu nú það mál, sem þeir sízt hefðu átt að gera. Um þetta ber vott brtt. sú, er kom hér fram, þar sem ráðstöfun á fé bænda, sem þeir gjalda sjálfir til sinna þarfa, skyldi háð samþ. landbrh. Nú er ekki vandskilið, þó að slík mál séu rangtúlkuð, ef ráðizt er á einn eða annan mann á Alþ., sem á þar sæti í það skipti. En hér er um að ræða samþykkt löggjafar, sem á að gilda, hverjir svo sem eru á Alþ. eða í ríkisstj. Má víst segja, að sumir hafi kveinkað sér, en aðrir aukizt af sjálfum sér. Auðvitað verða menn að gera sér ljóst, hvað öllum er fyrir beztu, þegar um framtíðarlöggjöf er að ræða. Sem sé ég kom ekki til að ræða, að þetta væri nein ákúra sérstakleg, heldur að ræða út frá því sjónarmiði, hvort ekki sé eðlilegast, að bændur ráðstafi sjálfir sínu eigin fé. Þess vegna þyrfti ekki upp að koma nein röskun á samkomulagi, þó að slíkar brtt. komi fram, t. d. að leiðrétta það að taka ráðin af bændum um þetta fé. Hér er komin fram till. um að kippa þessu út úr l. Nú ætla ég, að ekki þurfi neinar sérstakar umræður um þetta. Ég er enn á móti sérstöku ákvæði í l., en að fara að blanda við þetta óskyldum efnum, það finnst mér óþarfi. Allra sízt vil ég heyra það, að þeir hv. þm., sem styðja ríkisstj., virðast ekki geta á heilum sér tekið, þótt andstæðingar hennar beri fram till. Slíkt má lesa í nál. þeirra hv. þm. A.Húnv. og hv. 1. landsk., en fyrrgreint nál. er með fágætum, en ekki ágætum, hvað snertir úlfúð, illsku og anda. Er því vissulega illa farið, að slíkir ágætismenn skuli verða stimplaðir svo af sjálfum sér, og tel ég það illt, að plagg þetta mun geyma minningu þeirra um ókomna tíma.

Málefni þetta er þó tiltölulega saklaust sem þingmál, það vill aðeins leiðrétta það, sem illa fer. En þó þykir mér keyra um þverbak eftir því, sem málinu vindur fram, og ekki veit ég, hvort er upphaf eða endir á máli minni hl. í brtt. á þskj. 197, en þar er öllu burtu kippt, eða eins og sagt er á daglegu máli, steypt undan öllum fyrirtækjum.

Á síðasta þingi voru l. samþ. um miðjan vetur. L. voru þannig undirbúin, að ætla hefði mátt, að ekki hefði þurft að kollvarpa grundvellinum til þess að samkomulag gæti orðið, aðeins þurfti að athuga, hver færi með ráðstöfun fjárins. — Á þskj. 197 er svo ráð fyrir gert, að gjald þetta skuli ekki vera í höndum þeirra aðila, sem bændastéttin hefur valið sér, sem sé í höndum Búnaðarfél. Íslands. Það á að dreifast út í héruðin og ekki þannig, að þessi miðstjórn fái að ráða neinu um skiptingu fjárins, ekki einu sinni undir umsjá landbrh. Það mætti segja, að með þessu sé verið að kippa stoðum undan málinu. Þessir hv. þm. vantreysta sínum ráðh. og það ómaklega. Nú er svo til ætlazt, að eftir að gjaldið hefur verið innheimt, skuli því skipt og það sent út í héruðin. Í nál. 1. minni hl., sem hv. 2. þm. Skagf. gerði að umtalsefni, er gert ráð fyrir þessu, og benti hann á, að skiptingin yrði engan veginn jöfn eða réttlát, og ef menn ekki vildu hlynna að einhverju sambandanna, þá væri þetta með öllu rangt og útfærslan á því mismunandi. En svo kemur hér nú allt í einu að ákveða að henda fé til aðila, sem ekkert vita um þetta, en hafa þó gefið umsögn, meira að segja einróma, að svona vildu þeir hafa það, en ekki öðruvísi. Þeir hafa víst aldrei fengið þau tilmæli, að þessi meðmæli ættu þeir að gefa? En það er óviðkunnanlegt og fráleitt að kasta fé út til þeirra aðila, sem hafa ætlazt til alls annars og aldrei farið fram á það. Nú vil ég, að málinu sé vikið í annan farveg, og á ég þar við að spyrja þá aðila, sem hlut eiga að máli, hvað þeir vilja. Í þessu tilfelli yrði þá að spyrja búnaðarsamböndin, hvað þau kysu. Nú veit ég ekki, hverju þau muni svara, má vera, að þau séu meira að segja á sömu skoðun og hv. þm. A.-Húnv. Ég taldi rétt fyrir ári síðan að ráða þessu máli á annan hátt. En tímarnir hafa breytzt, og er þá fróðlegt og gagnlegt að heyra álit bændanna sjálfra. Að öllu þessu athuguðu, leyfi ég mér að bera fram till. um rökstudda dagskrá, í trausti þess, að leitað verði álits Búnaðarfél. Íslands, áður en gengið verður frá frv. þessu. Till. er svo hljóðandi:

„Í trausti þess, að ríkisstj. feli Búnaðarfélagi Íslands að leita umsagnar búnaðarsambanda landsins um þetta mál eins og það liggur nú fyrir, áður en það hlýtur fullnaðarafgreiðslu, svo tímanlega, að það verði lagt fyrir aðalfundi sambandanna á næsta vori, og komi álit þeirra síðan fyrir Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“