11.12.1945
Neðri deild: 51. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Gísli Sveinsson:

Af því að ég ætla að leggja hér fyrir rökstudda dagskrá, þá vil ég geta þess, frá mínu sjónarmiði, að ég legg enga áherzlu á, að málið verði afgr. nú. Ef því verður frestað, þá átta hv. þm. sig væntanlega í millitíðinni á þessari hóflegu afgreiðslu málsins með þeirri hóflegu till., sem hér liggur fyrir frá mér.

Hv. 2. þm. Eyf. skeikaði í því, sem hann minntist hér á í sambandi við afgreiðslu málsins. Sú aðferð, sem hann benti á, hefur aðeins verið viðhöfð, þegar um hefur verið að ræða aðalatriði málsins, en ekki um slíka till. sem þessa. Hér er um það að ræða, hvort þeir, sem hafa haldið fram hvorri hlið málsins fyrir sig, vilja aðhyllast til bráðabirgða þá afgreiðslu, sem ég sting upp á. Þetta þarf reyndar ekki að ræða frekar, hæstv. forseti ákvarðar það, sem honum lízt.