25.02.1946
Neðri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Þó að það virðist nú svo sem ráðin séu örlög þessa máls hér í d., þá kann ég ekki við að láta það fara orðalaust gegnum þessa umr., og því fremur sem ástæða er til að leiðrétta ýmislegt, sem um þetta mál var sagt við 2. umr. þess. Og mér þykir við eiga, að um leið sé ofurlítið rakin saga þessa máls, sem er nú búið að vera í l. rúmlega ár, þegar Alþingi sér sig nú um hönd um ekki beint að afnema löggjöfina, en gerbreyta henni þannig, að ekki er ætlazt til þess, að steinn standi yfir steini af því upphaflega takmarki, sem l. var ætlað.

Skal ég þá í fyrsta lagi geta þess, að fyrst var mál þetta rækilega undirbúið í Búnaðarfélagi Íslands. Hefur það áður verið rakið, hver áttu að vera aðalverkefni þessa máls, en verkefnin voru þau að útvega Búnaðarfélagi Íslands eða bændasamtökunum eigið fé til umráða, sem það gæti notað bæði til sérstakrar félagsstarfsemi sinnar, sem ekki þótti við eiga, að kostuð væri af ríkinu, og til ýmissa þeirra framkvæmda, sem félaginu var nauðsynlegt að koma áfram bæði fyrir félagsheildina og hinar einstöku félagsstofnanir, og það, sem þá var mest aðkallandi, var að koma upp húsi yfir starfsmenn félagsins, en eins og vitanlegt er, er það hús, sem Búnaðarfélagið hefur nú búið við, orðið gamalt og úr sér gengið og svo léleg bygging, að engin félagsstofnun, sem nokkurs væri um komin, mundi til lengdar láta sér nægja slíkan húsakost. Það hefur ekki verið farið fram á það við ríkið að reisa þessa byggingu, en bændur í landinu ætla að koma upp mikilli byggingu fyrir sig og sína félagsstarfsemi og opinbert starfslið félagsins. Þetta var einn tilgangurinn með stofnun þessa sjóðs. En svo voru vitanlega verkefnin mörg önnur, því að eins og hv. þm. vita, þá er það hvergi þannig, og ekki fremur í búnaðarmálum en í öðrum málum, að menn reki sig ekki á ný og aðkallandi verkefni. Það var því miklu meira en nóg við þetta fé að gera við starfsemi bænda, Búnaðarfélagið og aðrar greinar þess, og þótti hér hent að fara í slóð fiskimanna og annarra sjávarútvegsmanna, sem höfðu lagt á sig nokkur aukagjöld, þar sem er fiskimálasjóður, til sinnar starfsemi, og Búnaðarfélagið taldi, að þarna mundi vera frekar stuðnings að vænta og aðstoðar frá ríkisvaldinu, til þess að koma á þessari löggjöf, heldur en að ríkið færi að setja fót fyrir þetta, þar sem það eru fyrst og fremst bændurnir sjálfir, sem ætla að leggja þennan skatt á sig, og fénu, sem með þessum skatti er aflað, átti að verja til framkvæmda, sem a. m. k. ríkið ætti ekki að leggja stein í götu fyrir, heldur styðja. Eftir að mþn. hafði lagt drög að þessari löggjöf, þótti henni það tilheyra að bera hana undir bændur landsins, sem þarna var ætlað að gangast undir fjárframlög, áður en hún væri send inn í Alþingi. Löggjöfin var send til allra búnaðarsambanda landsins til athugunar og umsagnar, og frv. var athugað hjá öllum búnaðarsamböndum landsins, og að því loknu kom samhljóða álit frá öllum búnaðarsamböndum, þar sem þau mæla með þessari löggjöf.

Eftir að mál þetta svo hafði fengið þennan undirbúning, var farið með það inn á Alþingi, lagt fyrir þingið í því formi, sem Búnaðarfélagið hafði frá því gengið og málið hlotið þetta einróma samþykki, og ég þori að fullyrða, að engin löggjöf, sem hefur varðað eina stétt manna, hefur verið betur undirbúin en þessi löggjöf, og það var það bezta, að hún var einmitt í samræmi við óskir þeirra manna, sem þurftu að taka á sig álögur í þessu skyni. Nú, þegar málið kom fyrir Alþingi, þá get ég ekki annað sagt en viðtökurnar hafi verið mjög góðar. Frv. var lagt fyrir landbn. Nd., en í henni áttu sæti fulltrúar frá öllum flokkum, og féllust allir sem einn maður á að mæla með frv. mjög lítið breyttu og töldu, að það væri sjáifsögð löggjöf, eða ekki var annað að heyra þá, og meira að segja einn nm., sósíalistinn í n., fór um þetta þeim orðum, að hann undraðist, að bændur skyldu ekki fyrir löngu vera komnir fram með mál eins og þetta, til þess að afla sér fjár til starfsemi sinnar, og vitnaði í því sambandi til félagsskapar, sem hann stendur fyrir: „Ég veit ekki, hvar við stæðum, ef við hefðum ekki okkar eigið fé.“ Að því loknu gekk málið sinn gang gegnum Nd., og ég varð ekki var við neina andstöðu gegn því fyrr en við 3. umr., og þá munu 2 eða 3 alþm. úr flokki sósíalista annaðhvort hafa greitt atkv. móti því eða setið hjá, og er það fyrsta andstaðan, sem ég varð var við hjá þinginu gegn þessu frv. Síðan fer það til Ed., og þá fyrst verður vart beinnar andstöðu við málið, sem kom frá þm. sósíalista, en engin andstaða kom frá öðrum flokkum. Frv. var samþ. þar með yfirgnæfandi meiri hl., og guldu því jákvæði þm. allra flokka nema aðeins sósíalistar: Ofurlítil formsbreyt. var þó gerð á frv. varðandi gildistöku l., sem ekki þótti heppilega ákveðin, og má ég segja, að það var eina breyt., sem gerð var á frumvarpinu: Síðan kemur frv. aftur til Nd. og á þá aðeins eftir eina umr. vegna þeirrar litlu breyt., sem gerð hafði verið í Ed. Málið kemur fyrir þingfund, og var komið nærri, að það yrði samþ. óbreytt. Þá er það, að einn af alþm., sem þó er fylgjandi frv., vill gera á því frekari breyt. en fram kom í Ed. og fer fram á þá meginbreyt., að frv. sé tekið af dagskrá og honum þannig gefinn kostur á að bera fram brtt. Þetta verður ofan á, að forseti tók málið af dagskrá til næsta fundar, en þá gerist það í millitíðinni áður en málið kom næst á dagskrá, að þm. A.-Húnv. kemur með brtt., sem hann sýnir mér, við frv. og gengur út á það, að ráðstöfun búnaðarþings á fénu eða fjárhagsáætlun búnaðarþings verði því aðeins gildandi, að landbrh. samþ. hana. Ég mótmælti þessu við hann, en hann taldi, að ekki yrði frá því horfið að bera fram þessa brtt., og taldi, að það mundi verða erfitt að koma málinu gegnum þingið að öðrum kosti, þar sem það hafði þó þegar farið í gegnum tvær heilar umræður í báðum d. og það sýnt sig, að það var yfirgnæfandi meiri hl. þ. fyrir því, — ekki nema 2 þm. greiddu atkv. gegn því í Nd. og 2 eða 3 í Ed., það var fullkomlega meiri hl. fyrir frv. í því formi, sem það lá fyrir. En það var sýnilegt, að sósíalistar á þingi eða í ríkisstjórn, sem voru þeir einu, sem beittu sér gegn málinu, lítið sem ekkert í Nd., en mikið í Ed., voru þarna að verki og hafa fengið þm. A.-Húnv. til þess að bera fram þessa brtt. Þarf ekki að rekja þá sögu lengra, þessi brtt. var fram borin og samþ. í þessari d. af öllu stjórnarliðinu og í Ed. líka, og með því var komið inn í frv. það þvingunarákvæði, sem bændur hafa sætt sig mjög illa við, m. ö. o., þar með voru bændur og félagsskapur þeirra gerðir ómyndugir að því að ráðstafa sjálfir því fé, sem þeir einir leggja á sig til þessara starfa og þeir ætla sér einum að nota og hafa yfirráð yfir. Þetta hefur verið borið saman við það ákvæði, sem er í núgildandi l. um fjárhagsáætlun búnaðarþings, og sumir hafa haldið því fram, að þetta væri mjög hliðstætt. Þetta er firra vegna þess, að því fé, sem búnaðarþing fær frá ríkinu, er eðlilegt, að ríkisvaldið vilji hafa hönd í bagga með að ráðstafa, en það nær vitanlega engri átt, að ríkisvaldið fari að taka í sínar hendur yfirráð yfir ráðstöfun þess fjár, sem bændur sjálfir á sig leggja beint til þessarar starfsemi. Það hefur verið blandað í þetta mál enn öðrum fjarstæðum, það hefur verið reynt að koma því inn, að hér væri verið með róg eða árásir á einstaka menn í þessu sambandi. Þetta er vitanlega firra, og ég tók það fram, þegar ég flutti þetta frv., að þetta ákvæði yrði tekið úr l. á þessu þingi, að þessu væri ekki beint gegn ákveðnum manni, og sízt beint gegn núv. fjmrh., sem hefur sýnt fullkomna samvinnulipurð við búnaðarþing um ráðstöfun búnaðarmálasjóðs. En hitt er annað mál, að bændur og þeir, sem að búnaðarsamböndunum standa, vilja ekki þurfa að eiga undir hverjum þeim manni, sem skipar sæti fjmrh., hvort þeir fá að ráðstafa þessu fé eftir sínu höfði.

Þetta er ekki mál dagsins í dag eða á morgun, heldur mál framtíðarinnar, vegna þess að það er ætlazt til, að þessi löggjöf gildi um langa framtíð. Mér finnst það hart af Alþ., þegar það hefur stuðlað að því að hjálpa til að koma þessari löggjöf á, þá skuli það nota aðstöðu sína til þess að taka valdið af fulltrúasamtökum bænda til þess að ráðstafa því. Ég hef sagt frá því áður, að þegar vitað var um þetta ákvæði í löggjöfinni, þá risu upp bændur víðs vegar um landið, á búnaðarþingi, búnaðarfélagsfundum og öðrum búnaðarfundum, sem mótmæltu þessum aðförum um meðferð þessa máls og heimtuðu, að þetta ákvæði væri numið úr l. Og fyrir það meðal annars, að við nokkrir þm. töldum það skyldu okkar, þegar Alþ. kom saman í vetur, að leggja fram frv., sem fól það í sér, að þetta alræmda þvingunarákvæði væri tekið út úr þessum l., fyrir það, að við leyfðum okkur að bera fram frv. í samræmi við óskir bænda um landið þvert og endilangt, hefur minni hl. landbn. Nd. með hv. þm. A.-Húnv., höfund þessa ákvæðis, í broddi fylkingar, þótt það við eiga að koma fram eins konar hefndarráðstöfunum á búnaðarfélagsskapinn í landinu, og kannske fyrir eitthvað meira, og ber nú fram þá breyt. á l., sem hefur það í för með sér, að það á að svipta Búnaðarfélag Íslands og búnaðarþing öllum yfirráðum yfir þessu fé og tvístra því út á milli samtakanna og kippa þannig fótunum undan þeim framkvæmdum, sem búnaðarþing hafði hugsað sér að nota þessa fjármuni til, þ. e. til sameiginlegrar húsbyggingar félagsins og annarra framkvæmda, vitanlega í því einu skyni að styðja stéttarsamtök bænda. En ákveðið hafði verið, að í framtíðinni gæti nokkur hluti af búnaðarmálasjóðnum runnið til þeirrar starfsemi, og það meðfram af þeim ástæðum, að búnaðarþing varð að taka stéttarmálefni bænda til meðferðar, meðfram vegna afskipta þings og stj., þar sem það vísaði málinu aftur til búnaðarþings. Þá komu upp þær skoðanir bæði utan búnaðarþings og innan, að mjög væri óviðfelldið, að stéttarstofnun bænda þyrfti að lifa á fé ríkissjóðs, en gyldi ekki til sinnar starfsemi sérstakar greiðslur, eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins. Af þeim ástæðum þótti sjálfsagt, að að því leyti sem Búnaðarfélagið þyrfti að taka að sér að fara með stéttarmálefni bændastéttarinnar, þá væri sú starfsemi kostuð af framlagi bænda sjálfra, en þyrfti ekki að leita til ríkisins í þeim efnum. Af þeim ástæðum var ákveðið, að nokkur hluti af tekjum og eignum búnaðamálasjóðs yrði notaður til þessarar sérstöku stéttarstarfsemi bænda, svo að ekki þyrfti að núa bændum því um nasir, að þeir héldu uppi stéttarstarfsemi sinni með fé frá ríkissjóði. En nú á að kollvarpa þessu öllu og taka málið úr höndum Búnaðarfélags Íslands og búnaðarþings og kippa fótunum alveg undan þessari löggjöf eins og hún var hugsuð innan búnaðarfélagsskaparins. Og til þess að finna einhverjar tylliástæður undir þetta ofbeldi, þá hafa verið fluttar hér fram ástæður, sem vitanlega ná ekki nokkurri átt, og sú ástæða, sem mest hefur verið haldið uppi og blásin út, er sú, að búnaðarþingi hafi verið svo mislagðar hendur, þegar það ráðstafaði þessu fé á sínum tíma, að óafsakanlegt væri að láta ráðstöfun fjárins vera í höndum þessara manna. Þá er talað um mikið hótel, og er það frægt um allt land. Reynt hefur verið að koma því inn hjá mönnum, að það hafi verið tilgangurinn áð skattleggja bændur ár eftir ár og áratug eftir áratug til þess að byggja lúxushús hér í Reykjavík. En sannleikurinn, sem ég hef rakið innan þings og utan og ætla að taka fram einu sinni enn, er sá, að það af fénu, sem átti að fara til húsbyggingar, átti fyrst og fremst að nota til þess að gera nokkurn veginn að mannabústað það hús og skrifstofur, sem starfslið Búnaðarfélags Íslands og að nokkru leyti ríkisins starfar í og hefur starfað í mörg undanfarin ár, en er nú að verða óíveruhæft. Það var fyrst og fremst ákveðið, að á fyrsta árinu skyldi taka af fé búnaðarmálasjóðs meiri hlutann til þess að koma upp þessari byggingu. Hitt er svo annað mál, að í sambandi við það komu upp gömul og ný áhugamál bænda um það að koma upp einhverri stofnun hér í Reykjavík, einhvers konar félagsheimili bænda eða gistihúsi, þar sem bændur gætu komið saman og gist í sæmilegri aðbúð, en á ódýran hátt, þannig að þeir þyrftu ekki, eins og fjöldi þeirra hefur þurft, að vera bónbjargarmenn hjá vinum og kunningjum um nætur, þegar þeir eru á ferð, og vita allir, sem reynt hafa, hvað slíkt er þægilegt og skemmtilegt, að þurfa að fara slíkar göngur ár eftir ár, í stað þess að eiga eitthvert slíkt hæli að halla sér að, þegar þannig stendur á. Það, sem ákvarðað var hjá búnaðarþingi, var það, að fá nokkrar stofnanir bænda, sem starfa hér í Reykjavík, Mjólkursamsöluna, Sláturfélag Suðurlands og S. Í. S., ásamt Búnaðarfélagi Íslands til þess að hefjast handa um að koma upp slíku hóteli hér í Reykjavík. Það var aldrei tilgangurinn, að búnaðarmálasjóður legði fram nema brot af stofnkostnaðinum, því ef ekki næðist samkomulag um ríflegt framlag af hálfu þessara stofnana, þá náði það ekki lengra, þá varð ekkert úr þessu. Nú hefur verið reynt að blása þetta mál út og gera það eins óvinsælt og mögulegt er, og réttlætt með því það ofbeldi, sem þarna er framið á bændastéttinni um ráðstöfun síns eigin fjár. Fyrir utan það, hvað þessi ástæða er ósönn, þá eru þetta mjög óeðlilegar aðfarir, því að ef svo færi, að meiri hI. bænda í landinu kæmist að þeirri niðurstöðu, að búnaðarþingi, sem átti að síðustu að ráðstafa þessu fé, hefðu verið svo mislagðar hendur, að því væri ekki fáandi slíkt vald í hendur, þá var hægurinn hjá að skipta um fulltrúa, vegna þess að kosningar til búnaðarþings fara fram á þessu ári, þannig að ef þetta reyndist svo, að búnaðarþingi væru svona herfilega mislagðar hendur um ráðstöfun fjárins, þá væri það bændanna sjálfra að skipta um þessa menn. En ef það hefði reynzt svo, að meiri hl. bænda væri sammála fulltrúum þingsins, þá er þetta gerræði gagnvart bændastéttinni, að heimila ekki réttkjörnum fulltrúum hennar að verja þessu fé á þann hátt, sem drög höfðu verið lögð að í fyrstu fjárhagsáætlun búnaðarmálasjóðs.

Hvernig sem á þetta mál er litið, er það ekkert annað en ofbeldi gagnvart bændastéttinni að taka af henni þannig ráðstöfunarréttinn á þessu fé. Ég vil segja, að það hefði verið miklu hreinlegra af þeim., sem fyrir slíkri herferð standa, að koma með frv. um að nema l. úr gildi. Ég er sannfærður um það, að allir þeir, sem unna þessari löggjöf, hefðu frekar kosið, að Alþ. tæki hana úr l. en að misþyrma henni á þennan hátt, sem hér er farið fram á.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta, mér þótti rétt að rekja nokkuð sögu þessa máls nú, og ég vil segja við ykkur, hv. alþm., gerið þið, herrar mínir, eins og ykkur þykir bezt henta, beitið þið hvaða ofbeldi, og hvaða fantatökum og yfirgangi, sem ykkur þóknast gagnvart Búnaðarfélagi Íslands og öðrum samtökum sveitanna, því að þess verður hefnt í héraði, sem hallast kann á Alþ.