25.02.1946
Neðri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki deila við hv. 1. landsk. þm. út af hans orðum, en ætla aðeins að endurtaka það, að það var enginn, sem tók þessu máli með meiri skilningi, þegar það var lagt fyrir þingið, heldur en þessi hv. þm. Og mér þykir mjög leitt, ef hann hefur skipt um skoðun um málið síðan.

Þá vil ég með nokkrum orðum svara hv. 2. þm. Rang. Ég skal ekki fara út í húsbyggingarhugleiðingar hans, né eltast við allan þann garra, sem hann hélt hér uppi, — því að þetta kemur málinu ákaflega litið við, — og ekki að öðru leyti en því að taka fram, að það hefur þegar verið leiðrétt, sem hér hefur verið haldið fram um þetta mál, því að það er langt frá því, að lagt hafi verið til að verja öllum búnaðarmálasjóði í hótelbyggingu, heldur litlu broti í gistiheimili, svo framarlega að fé fengist frá öðrum bændafélögum. Hvort þetta mundi verða dýrt eða ekki, kemur mér ekki við. Hitt er aðalatriðið, að ef bændur vilja byggja þetta hús, eiga þeir að ráða því og við eigum ekki að fá neina fyrirsögn um það að öðru leyti, hvorki frá hv. 2. þm. Rang. né öðrum. Hv. 2. þm. Rang. vill ekki, að bændur hafi vald til þess að verja sínu eigin fé eftir sínu eigin höfði. En hann hefur ekki vald til þess að hindra það, þó að honum þyki eitthvað annað betur henta en till. þær, sem fyrir liggja um það. Bændur eiga þetta fé. Ef þeir vilja byggja fyrir það hótel, þá þeir um það.

Ef ekki, þeir um það. Þeir eiga að útkljá um þetta á sínu þingi, því að hér hefur ekki verið talað um framlag til þessa af ríkisins hálfu: Það hafa komið fram mótmæli víðs vegar að af landinu gegn því ákvæði, sem með þessi frv. er lagt til, að fellt verði niður. Og ég held, að hv. 2. þm. Rang. sé ekki meir en svo viss um það sjálfur, að bændur séu sammála honum í þessu efni, þó að hann vilji svo vera láta, ef þeir fengju því ráðið. Dreg ég þetta af því, að hann greiddi atkv. á móti því við fyrri umr. málsins, að því væri skotið til umsagnar landsmanna. Honum hefur ekki þótt sinn málstaður nógu viss þar. En frá Búnaðarsambandi Súðurlands hafa komið fram meðmæli með þessu lagaákvæði, sem hann vill halda í, og þess vegna finnur hann ástæðu til þess að mæla með, að það standi óbreytt. (JörB: Það er einsdæmi). Já, og einsdæmin eru verst. En hugsunarhætti þeirra manna, sem í Búnaðarsambandi Suðurlands gefa tóninn í þessu efni, er þannig háttað, að ef þeir í Búnaðarsambandi Suðurlands sjá hilla undir það, að þeir eigi að fá eitthvað meira í sinn hlut, þegar farið verður að skipta í þessu sambandi, þá er sjálfsagt fyrir þá að fylgja þeirri stefnu í málinu, sem veitir þeim þessi sérréttindi. Þeir sjá þarna ekkert nema aurana, þessir góðu menn. Og það er forsvarsmaður þessara manna, sem talaði sér áðan, hv. 2. þm. Rang. En þeir kæra sig ekki um að ræða þetta eins upphátt og hv. þm. Rang. gerir, því að Bogi Thorarensen sagði, að erfitt væri að ræða þetta í landsblöðum, sem er vegna þess, að Sunnlendingar fá mest við skiptin. En mér virðist hv. 2. þm. Rang. ekki tala um þetta í hálfum hljóðum, svo að hann er eitthvað kjarkmeiri en flokksbræður hans austur þar.

Þá var hv. 2. þm. Rang. að tala um það, hversu mikil verkefni væru fyrir sjóðinn heima í héruðum. Hverjum dettur í hug að neita því? Eins og það hafi ekki allir vitað, þegar þessi löggjöf var undirbúin, að ótæmandi. verkefni væru fyrir peninga heima hjá bændunum sjálfum. Það vissu þeir, þegar þeir lögðu til, að þessi skattur væri á þá lagður og þessu fé safnað. En þeir litu svo á, að einhvers virði væri fyrir þá líka að eiga sameiginlega félagsstofnun, sem sé þannig, að hún geti starfað samkv. tilgangi sínum og komið þeim málum fram, sem þeir leggja ekki minna upp úr en framkvæmdum heima á búi sínu. Og ef það ætti að vera föst regla, að bændur legðu aldrei eyri í félagsstarfsemi fyrr en þeir væru búnir að fullnægja öllum þörfum heima hjá sér, þá hygg ég, að það gangi hægt með félagsstarfsemi þeirra, bæði í Rangárvallasýslu og annars staðar. Þessari reglu var ekki fylgt, þegar byggð voru húsin á Hellu yfir þennan hv. 2. þm. Rang. og starfsemi þá, sem þar er rekin. Það voru margir bændur, sem lögðu peninga í þær byggingar, og þeir gerðu það af því, að maðurinn lifir ekki einasta á því, sem gerist rétt í kringum hann, heldur þarf hann á félagsskap að halda og þarf að byggja yfir félagsstarfsemina, hvar sem hún er rekin. Hinir framsýnu menn, sem byggðu á Hellu, vissu, að þeir þyrftu að leggja á sig byrðar til þess að standa undir félagslegum framkvæmdum, til þess að félagsskapurinn gæti notið sín, bæði er snertir húsakost og annað. Og það er ekkert annað, sem vakir fyrir bændum, — sem samþ. hafa beint og óbeint þessa kvöð, en að þeir kunna að meta félagsstarfsemi og vilja leggja á sig eitthvað fyrir hana. Og þeir vilja ekki bíða með það eftir því, að ekkert sé ógert heima hjá þeim, því að þessi starfsemi þeirra er undirstaða undir því, að þeir geti haldið áfram að laga til í kringum sig heima fyrir.

Ég ætla ekki að fara að eltast við firrur hv. 2. þm. Rang. og þann langa spuna, sem hann spann hér út af hótelbyggingunni, sem hann svo nefndi. Hann bætti nú einu ofan á, sem sé því, að ekki mundi kosta neitt smáræði lóð undir þessa byggingu, og sagði, að sá liður mundi velta á mörgum hundruðum þúsunda. En ég get sagt honum, að nú ekki fyrir mörgum árum lagði ríkið til ókeypis lóð undir byggingu Fiskifélags Íslands og skrifstofu þess. Og það hefur verið farið fram á það við ríkið, að ekki þætti óeðlilegt, að það sýndi Búnaðarfélagi Íslands sömu rausn og léti því félagi af hendi einhverja byggingarlóð, sem ríkið á, undir sína byggingu. Og það hefur verið gert meira en að tala um þetta. Það hefur verið snúið sér til ríkisstj. um þetta, og því máli hefur verið tekið mjög vel, að gera ekki Búnaðarfélag Íslands afskipt í þessum efnum, heldur veita því byggingarlóð fyrir starfsemi sína á sama hátt og Fiskifélagi Íslands var á sínum tíma veitt. Hv. þm. Rang. þarf því sennilega ekki að bera miklar áhyggjur fyrir því atriði málsins.

Þá var hv. 2. þm. Rang. að tala um það, hversu miklu nærtækara vald baendur fengju yfir þessu fé, ef það væri sent til búnaðarsambandanna. En fengju þeir þá ekki enn þá nærtækara vald yfir því, ef það væri sent heim til þeirra aftur, hvers fyrir sig, svo að þeir gætu hver fyrir sig byggt og ræktað í kringum sig fyrir það, eins og hv. 2. þm. Rang. var að tala um? Er það ekki rökrétt áframhald af því, sem þessi hv. þm. hefur verið að halda fram hér, og er það ekki réttast, að bændur fengju allt vald yfir þessum peningum, svo að þeir fengju nægilega nærtækt vald til þess að verja þessum peningum til þeirra hluta, sem að áliti hv. 2. þm. Rang. er brýnust þörf fyrir þá að framkvæma? En bændur sjálfir höfðu skilning á því, að þeir hefðu sameiginlegar þarfir til sameiginlegra framkvæmda fyrir félagsstarfsemi sína. Og þeir voru svo víðsýnir, að þeir vildu leggja á sig þessi gjöld, til þess að félagsstarfsemi þeirra gæti notið sín. Svo koma þessir herrar, sem vilja vera forsjón bændanna í félagsmálum, og vilja skipa þeim fyrir um það, hvernig þeir skuli með þessi mál fara og hvað þeir skuli við þessa peninga gera. Og af þeirri ástæðu er þessi langlokuræða flutt, sem spunnin var hér nú af hv. 2. þm. Rang. um hótelbyggingu, sem enga stoð átti sér í veruleikanum.

Annars get ég látið ræðu minni lokið að sinni. Ég mun ekki eltast við þennan hv. þm. um þessi mál, því að ef hann er búinn að bíta sig fastan í eitthvað í málinu, þá er eins og hann fái hellu fyrir bæði eyrun, ef hann á að taka rökum um hið gagnstæða.