28.02.1946
Neðri deild: 77. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Ottesen:

Mér þykir rétt, af því að ég er einn flutningsmaður þessa frv. eins og það var upphaflega, að segja nokkur orð, áður en málið verður afgreitt.

Þetta frv., sem flutt var af okkur fjórum þm. hér í Nd., hefur orðið fyrir allharkalegri meðferð hér í deildinni. Ég segi harkalegri meðferð, af því að mér virðist, að hér sé verið að hafa að leiksoppi hagsmuni og heiður bændastéttarinnar í landinu. Ég ætla, að engin stétt hafi nokkru sinni sætt slíkri lítilsvirðingu og fyrirlitningu sem bændastéttin, verði þetta frv. samþ. í þeirri mynd, sem nú er lagt til.

Eins og upplýst hefur verið, er saga þessa máls í stuttu máli sú, að bændur ákváðu í gegnum samtök sín að leggja ½% skatt á alla framleiðslu sína. Var þetta upphaflega samþ. í öllum búnaðarsamböndum landsins og var síðan lagt fyrir búnaðarþing. Þar var sú samþykkt gerð, að flytja frv. um, að þetta gjald yrði innheimt af gjaldheimtumönnum ríkisins, og var það hið eina, sem hið opinbera átti fram að leggja, og hæstv. Alþ. átti ekkert annað að gera en segja já eða nei við þessari beiðni búnaðarsamtakanna. Alþ. tók þessu vel og samþ. í báðum deildum að verða við þessum tilmælum. En eftir að málið hafði verið samþ. hér, skeði það, að inn í frv. var sett ákvæði um, að landbrh. skuli ráða skiptingu þessa fjár, eins og hv, þm. A.-Húnv. orðar það, og hælir þessi hv. þm. sér svo af því að hafa haft þau áhrif, að frv. var samþ. Segir hann, að ríkisstj. hafi ætlað í trausti meiri hl. á Alþ. að neita að láta skattheimtumenn ríkisins innheimta þennan skatt, en um annað var ekki beðið. Ég vil taka það fram, að ég trúi þessu ekki. En að öðru leyti ætla ég mér ekki að grafa fyrir rætur þeirrar óhreinu uppsprettu, sem hv. þm. A.-Húnv. gruggar í varðandi þetta og fleiri mál. En það virðist ljóst, eftir að þessi hv. þm. hefur lýst þessu vígi sér á hendur, að hér hefur verið um skipulagða árás að ræða á bændastéttina, og renna þar margar stoðir undir, þótt hv. þm. A.-Húnv. sé engan veginn hlédrægur þátttakandi í þeim leik. Það var því ekki nema eðlilegt, að bændum fyndist tekið fram fyrir hendur sínar, en hið eina, sem bætti úr skák, var það, að þeir treystu núverandi landbrh., enda hefur hann ekki brugðizt því trausti. Hann hefur nú samþ. ráðstöfun á fé búnaðarmálasjóðs til tveggja ára. Þess vegna er það tilhæfulaust, að frv. sé árás á hæstv. ráðh. Hann hefði ekkert til unnið. En hitt vita bændur, að ráðherraskipti geta orðið, þótt hv. þm. A.-Húnv. virðist ekki vita það, og þá gæti vel skipazt svo, að sá ráðh. færi með þetta vald, sem óskaði að nota það til að skerða ákvörðunarrétt bænda varðandi ráðstöfun síns eigin fjár. Hugsum okkur t. d. hv. þm. A.-Húnv. í ráðherrasæti, auðvitað styðst þetta ekki við neinar líkur, og ef miðað er við blaðaskrif hans og aðra framkomu í þessu máli, hversu halda hv. þm., að réttur bænda væri þá virtur? — Nei, þetta frv. er borið fram af sannfæringu bændanna fyrir, því, að þeir einir og þeirra fulltrúar, sem þeir skipa til þess að standa fyrir félagsmálum bænda, eigi án nokkurrar íhlutunar af öðrum og þar með íhlutunar Alþ. — að hafa rétt til þess að ráðstafa þessu sínu eigin fé. Það er ástæðan fyrir því, að þetta mál er borið fram á hæstv. Alþ. Ég sem flm. vildi fá tækifæri til að láta þetta koma hér fram. En það hefur komið fram í sambandi við þetta mál — og ég vildi, að hv. þm. A.-Húnv. tæki eftir því, — vantraust á hæstv. landbrh. Í hverju? Í þeim till., sem hv. þm. A.-Húnv. bar hér fram og nú er búið að samþ., af því að hæstv. landbrh. hafði sýnt bændum þá sanngirni að sýna enga íhlutun um ráðstöfun þeirra á þessu fé. Það getur hv. þm. A.-Húnv. alls ekki sætt sig við. Þess vegna hefur hann ekki viljað eiga undir því, að bændur léku svo lausum hala sem þeir nú gera fyrir hæstv. landbrh. um ráðstöfun þessa fjár, og ekki viljað eiga nokkuð undir hæstv. ráðh. sem hemli á það, að bændur ráðstöfuðu sjálfir þessum sínum eigin peningum. Þess vegna grípur hv. þm. A.-Húnv. til þessa ráðs að setja hæstv. landbrh. alveg út úr spilinu. Af hverju? Af því að það er ekkert eigandi undir núv. hæstv. landbrh. til þess að koma því í framkvæmd, — ég er að gera hv. þm. A.-Húnv. upp orðin, — sem við viljum, að gert sé, og þeir, sem að þessu standa með mér. Þess vegna er það, að það tal hv. þm. A.-Húnv. um vantraust annarra á hæstv. landbrh., sem hann viðhefur í þessu sambandi, það á ekki við í þessu sambandi, sem hann talaði um. Og ég er að sjálfsögðu — þó að ég sé ekki stjórnarstuðningsmaður — á móti því að sýna núv. hæstv. landbrh. nokkurt vantraust eða standa að því á nokkurn hátt, út af því að hann hefur látið fulltrúa á búnaðarþingi alveg óáreitta um það, hvernig þeir ráðstöfuðu þessum sínum eigin eigum. Svona horfir þá þetta mál nú hér við.

Hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. Rang. fengu aðeins lítilfjörlegan meiri hluta með því hér á Alþ. samþ. þessar brtt. hv. þm. A.-Húnv., þær voru samþ. með 16 atkv. gegn 14, það var ekki stærra á því höfuðið en það. (JPálm: Það var meiri hluti samt). Já, og það er auðséð á öllu, hversu hv. þm. A.-Húnv. hrækir hraustlega í þessu máli, að hann þykist hafa öruggan meiri hl. með sér til þess að knýja þetta mál fram, að hafa heiður og hagsmuni bændastéttarinnar að leiksoppi hér á hæstv. Alþ. Það er í skjóli þessa meiri hluta, sem hv. þm. A.-Húnv. ætlar að leika hér á Alþ. þennan þokkalega leik.

Þá hefur annað skeð í þessu máli, sem er sérstaklega eftirtektarvert, og það er það, hvernig hv. þm. A.-Húnv. — alveg sérstaklega hann hefur á síðustu stundu fengið góðan liðsmann í því óþurftarmáli, sem hann hefur gerzt talsmaður fyrir hér, fengið hann bæði með sér í Ísafold, sem hv. þm. A.-Húnv. finnst hann vera allfyrirferðarmikill ráðamaður fyrir, og hér á Alþ. Og það er hv. 2. þm. Rang. Hefur hann veitt liðveizlu sína í þessu gistihúsmáli. Það er alkunnugt, um ýmsa menn, sem haldnir eru af veikindum, sem kölluð eru geðveiki, að þeir fá ýmsar ákaflega einkennilegar hugmyndir, ýmist um sjálfa sig eða það er þá eitthvað á næstunni, sem þeir festa auga á og sjá ekkert annað. Sumir halda t. d., að þeir séu þjóðhöfðingjar úti í löndum, og haga öllu sínu framferði í samræmi við það. Aðrir festa augun á einhverjum hlut, sem getur náttúrlega verið gistihús eins og hvað annað, og sjá svo ekkert annað en það. Og nú er það svo í þessu máli, að hv. þm. A.-Húnv. sér ekkert annað en gistihúsið. Hann hefur ekkert við það að athuga, þó að bornar séu fram hér á Alþ. till. um að byggja gistihús fyrir 15 millj. kr. og að þar af eigi ríkið að leggja fram 5 millj. kr. Hann leggur blessun sína yfir það og þykir það fínt og í samræmi við það umhverfi, sem hér er í Reykjavík. En þegar bændum dettur í hug að koma upp tiltölulega lítilmótlegu gistiheimili hér í Reykjavík í sambandi við byggingu, sem fyrirhuguð hefur verið fyrir Búnaðarfélag Íslands, sem er nú á 6. áratugnum og býr við mjög lélegan húsakost hér í Reykjavík og er þess vegna nauðsyn á að koma upp yfir sig húsi, þá rís hv. þm. öndverður gegn því, að slíkt gistiheimili verði reist. Væri þá ekki nema eðlilegt og í samræmi við annað, sem gerist í þessu þjóðfélagi, að þessu yrði hagað þannig um gistihúsbyggingu fyrir bændur. Það má líka segja um þessa hugmynd, að hún sé ekkert frumleg, af því að t. d. í Noregi, Svíþjóð og fleiri löndum er þessu á komið fyrir löngu síðan. Að því leyti er ekki hægt að halla á bændur fyrir það, að þetta sé frumlegt. En úr því að það er talið nauðsynlegt í Noregi og annars staðar, hvaða undur eru það þá, þó að bændur vilji koma upp gistiheimili fyrir sig hér í Reykjavík, þegar ástandið er hér í þessum bæ þannig, að erfitt er að fá gistingu fyrir menn utan af landi oft og einatt? Hvaða undur eru það þá, þó að bændum detti í hug að leggja á sig dálítinn kostnað til þess að koma upp gistihúsi, sem þeir geta hallað sér að hér í Reykjavík? Og það er ekki öll von bænda í þessu sambandi fest á því fjárframlagi, sem hér er um að ræða. Bændum hafði dottið í hug, að önnur félagssamtök bænda styrktu þetta fyrirtæki, eins og Samb. ísl. samvinnufélaga, — ég veit ekki, hvort hv. þm. A.-Húnv. þolir að heyra það nefnt, — og Mjólkursamsalan, — það kann líka að koma illa við hann, að hún sé nefnd, — og enn er þriðji aðilinn í þessu sambandi, sem er tiltölulega meinlaust, þótt nefndur sé upphátt, sem er Sláturfélag Suðurlands. Þessir aðilar allir fjórir hafði bændum dottið í hug, að legðu nú allir saman í þetta fyrirtæki. Og ég get sagt hv. þm. A.-Húnv. það og líka hv. 2. þm. Rang., að þessi goluþytur og blástur, sem gerður er af þeim á móti þessu máli, hann er algerlega þess ómegnugur að slá neinu ryki í augu bænda eða draga nokkuð úr framkvæmdahug þeirra í þessu máli. (IngJ: Það getur komið í veg fyrir bygginguna). Hv. þm. getur verið rólegur, meðan ég er að tala. Það kemur náttúrlega fram, að hv. þm. A.-Húnv. þykist tala hér eins og sá, sem valdið hefur, og finnst mér af þessari framítekt, að í hv. 2. þm. Rang. muni vera ekki minni valdagorgeir í þessu máli. Honum þykir það víst svo til fyrirmyndar, sem fram hefur komið i þessu efni frá hv. þm. A.-Húnv., að hann vill ekki standa læriföðurnum að baki, heldur finnur metnað hjá sér til að reyna að komast fram fyrir hann. Og hver veit, nema honum takist það. Það virðist svo sem þessum mönnum finnist það hættulegt, ef bændur og búandlið gæti komið því fram með þátttöku að einum fjórða hluta af fé búnaðarmálasjóðs að koma upp gistihúsi hér í Reykjavík, þann óskaplega úlfalda sem þeir gera úr þeim kostnaði, jafnvel eins og bændur mundu fara á hausinn, ef þeir legðu í slíkt. Ég veit ekki, hvað umhyggja þessara manna fyrir bændastéttinni nær langt. Það er tæplega hægt að tala um framkomu þessara manna í sambandi við umr. um þetta gistihúsmál öðruvísi en í heldur léttum tón, svo maður hafi ekki sterkari orð um það. Hitt er svo allt annað, að það á vitanlega að ræða um það í allt öðrum tón, sem fram kom hjá þessum mönnum í þessu atriði heldur en öðrum. Það er ógæfa, sem yfir þessa menn hefur dunið, sem veldur því, að þeir tala svona um þetta mál. Ég held, að þetta gistihúsmálstal, eftir þeim leiðum, sem það hefur farið hjá þessum tveimur hv. þm., ætti að geta verið alveg útrætt, því að vitanlegt er, að þetta fé búnaðarmálasjóðs á að ganga að nokkrum hluta til þessa þarfa málefnis, auk þess sem auðvitað á að nota fé sjóðsins til umbóta á verklegu sviði í sveitum og til stuðnings við þau félagslegu samtök, sem bændum er nauðsynlegt að hafa um hagsmuni sína og framfaramál á hverjum tíma. Þess vegna er ekki hægt að skjóta eitraðri örvum að bændastétt þessa lands en með því að rægja félagssamtök þeirra og reyna að telja bændum trú um, að með því að halda uppi slíkum félagssamtökum séu þeir á villigötum. Það er eftirtektarvert í þessu sambandi niðurlagið á því, sem hv. þm. A.-Húnv. gaf út með fulltrúa kommúnistanna í landbn. Aðra úr n. fékk hann ekki til fylgilags við sig um stefnu eða orðalag till. sinna í þessu efni, og er það ekki að undra. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta (hann er búinn að telja hér upp ýmislegt af þörfum bænda um framfarir heima hjá sér, sem ég ætla, að þeir, sem að þessu frv. standa, hafi sýnt í verki, að þeir hafi skilning á, engu síður en hv. þm. A.-Húnv.): „Á öllu ríður bændum meira en gistihúsi í Reykjavík fyrir pólitíska búnaðarþingsmenn á fundahöldum þeirra hér og þar um landið. Þess vegna leggjum við til að skattinum sé haldið og fénu sé varið til þess, sem bændum ríður mest á.“ Og þetta kemur þó enn berar fram síðar í þessu nál. Það er alltaf gistihúsið. Það er upphafið og endirinn í öllu. Þar segja þeir, að fénu sé betur varið „til þess að rétta hag þeirra manna, sem versta hafa aðstöðu til framkvæmda í sveitum landsins, heldur en að byggja fyrir það hótel í Reykjavík og éta það upp á snakkfundum og eyða því í ferðakostnað pólitískra spekúlanta, sem telja sig öllum færari til að gera bændum gagn, en hafa reynzt mjög mistækir í því efni.“ — Þannig lýsir þá hv. þm. A.-Húnv. þeim fundum, sem félagssamtök bændanna hafa og standa að. Það eru eftir hans dómi „pólitískir snakkfundir“, sem eru bara til þess að „snakka.“, skilst mér. Það situr ekki á mér að fara út i málfræðilegu hliðina á þessu orðalagi, en mér skilst, að hv. þm. meini með þessu orðalagi frekar tilgangslitlar samræður, þ. e. að menn „snakki“ um þetta eða hitt. — Svo náttúrlega gleymir hv. þm. því ekki, að þegar þessir menn eru á þessum „snakkfundum“; þá þurfa þeir að borða, eins og endranær. Hv. þm. A.-Húnv. er svo kunnugur á fundum fulltrúa bændastéttarinnar, að hann veit, að þetta orðalag og þessi lýsing á þeim nær ekki nokkurri átt. Og hver er þá tilgangurinn með þessu? Hann er vitanlega sá að reyna að rægja þessi samtök í augum bændanna, gera þau lítilmótleg í þeirra augum, og það í því augnamiði og tilgangi, að bændur slaki á klónni um að standa að þessum félagssamtökum og helzt hverfi frá þeim. Þessi skrif geta ekki haft annan tilgang en þennan. En allir, sem þekkja til og hafa tekið þátt í þeim félagsskap, í fundahöldum bænda, bæði í búnaðarfélögum og búnaðarsamtökum, vita og þekkja, að þar hafa mörg góð ráð verið ráðin. Og þessi félagssamtök hafa verið til mikillar uppörvunar og hvatningar fyrir bændastéttina i heild á sviði verklegra og andlegra mála og auk þess það sverð og skjöldur fyrir hagsmuni stéttarinnar, sem raun ber vitni. Þess vegna er það rétt, sem ég sagði, að þessi rógur, sem fram kemur í orðum þeim, sem ég las upp áðan, er eitraðasta örin sem hægt er að skjóta að bændum þessa lands, og þá sérstaklega þegar slíkt kemur fram frá manni, sem telur sig fulltrúa þeirra. Það er alltaf hættulegra, að slíkur rógur komi fram frá þeim en hinum, sem menn vita með vissu, að eru beinir andstæðingar. Hv. þm. A.-Húnv. ætlast til, að þessi rógur og dylgjur og svigurmæli, sem hann hefur sett hér í nál. og skrif hans og ræður eru einnig meira og minna sýrðar af um þetta mál, — þó að hann komi kannske hvergi jafnhatramlega fram eins og í þessum línum, sem ég las, — hv. þm. ætlast til, að hann muni ná betur til eyrna bændanna fyrir þá aðstöðu, að hann er sjálfur bóndi og einnig bændafulltrúi. Og ég verð að segja, að það er ákaflega átakanlegt og leiðinlegt það metnaðarleysi fyrir hönd bændastéttarinnar, sem fram kemur af hálfu þeirra manna, sem telja sig til þeirrar stéttar, að vera að vekja upp grýlur og drauga í þessu sambandi til þess að telja úr bændastéttinni áhuga fyrir því sjálfstæðis- og metnaðaratriði, sem það er að geta komið sér upp í höfuðstað landsins heimili, þar sem bændur, er til bæjarins koma, geta átt athvarf, þar sem svo er ástatt í bænum, að menn, sem hér koma, geta alltaf átt það á hættu að verða að liggja úti undir berum himni, hvernig sem veður er, af því að þeir fái hvergi húsaskjól. Það er hart, að einmitt á þeim tíma, þegar svona er ástatt, skuli koma fram raddir frá nokkrum fulltrúum sveitanna, sem gera tilraun til að draga niður í sorpið og gera að engu þær till., sem fram hafa komið um tilraunir til þess að bæta úr þessari brýnu þörf. Og því hatramlegra er þetta, þar sem það eru einmitt þeir menn, sem segjast vera þeir einu nýsköpunarmenn. Við vitum, hvað við höfum fengið, sem erum ekkí stuðningsmenn stjórnarinnar. Við eigum að vera það svartasta afturhald og ekki bera neinn skilning á nýsköpun í neinni grein. En ég hef nú lýst afstöðu þeirra manna, sem kenna sig svo mjög við nýsköpun, til þeirrar nýsköpunar, sem á að leysa úr brýnni þörf bændastéttarinnar og hrinda í framkvæmd metnaðarmáli þeirrar stéttar, því að þá er heldur en ekki snúið við blaðinu um nýsköpunaráhugann. — Ég þarf svo ekki að taka það fram, að þrátt fyrir þann dóm, sem verið er að fella um mig og aðra, að við séum ekki með í nýsköpuninni að því er snertir verklegar framkvæmdir í sveitum landsins, þá held ég, að við getum fullkomlega boðið ykkur báðum út (hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. Rang.) í því efni, bæði um verklegar framkvæmdir hver heima hjá sér og líka í því að koma fram og standa fastir fyrir gegn starfsemi þeirra, sem leita allra bragða, leyfilegra og óleyfilegra, til þess að vera á móti framtaki bændastéttarinnar.

Svo er eitt enn, sem líka er mikilsvert í augum hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. Rang. í þessu máli, að af því að það séu framsóknarmenn eða Tímaliðið og Tímadótið og allt það, — við höfum sjálfsagt oft sameiginlega notað þetta orð, sem eitthvað komi nærri þessu gistihúsmáli, þá sé það fráleitt að fylgja því. — Hv. þm. A.-Húnv. er nú gamall framsóknarmaður. Hann hefur nú alveg hafið sig upp úr þeirri niðurlægingu að vísu, og ég fagnaði nú komu þessa hv. þm. á þeirri tíð úr þeim félagsskap, sem hann þá var áður í. (EystJ: Fár veit, hverju fagna skal). En svo nú, af því að það eru framsóknarmenn eða Tímadótið, — og það eru miklu ljótari orð, sem hv. þm. viðhefur, — sem vilja styðja þetta gistihúsmál, þá á að hegna bændastéttinni fyrir það og dæma óalandi og óferjandi hitt og annað, sem gerzt hefur á búnaðarþingi og lýtur að samtökum bændastéttarinnar í heild, bara af því að framsóknarmenn hafa komið þar nærri. Það er rétt, að framsóknarmenn eiga sinn hlut í þessu öllu saman. En sjálfstæðismenn í bændasamtökunum standa framsóknarmönnum alveg hlið við hlið um þetta mál. Þegar því hv. þm. A.-Húnv. er að ráðast á þetta af því, að framsóknarmenn standi að því, þá er hann alveg eins að ráðast á það af því, að ég og hv. 2. þm. Skagf. (JS) og aðrir sjálfstæðismenn fylkja sér þétt og einlæglega um þessi félagssamtök bændanna. En þetta bara sýnir, hvað öfgarnar geta orðið óskaplegar, að hv. þm. A.-Húnv. hefur hlaupið svo í gönur sem hann hefur gert í þessu sambandi. En það, sem hér er aðalatriðið, er að þjóna hagsmunum bændastéttarinnar í einu og öllu. Og það kemur bændastéttinni alveg að sömu notum, ef það er gert af einlægni og fullum vilja, í hvaða stjórnmálaflokki, sem maður er, sem að framfaramálum bændanna stendur. Atvikin hafa legið þannig hér hjá okkur, að baráttumenn fyrir bændastéttarinnar hönd hafa verið aðallega úr tveimur stjórnmálaflokkum landsins, Sjálfstfl. og Framsfl. Mér þykir ástæða til þess að benda á þetta sérstaklega. Og ég vil beina því til hv. þm. A.-Húnv., að hann leggi nú niður þann óvana sinn að haga skrifum sínum og till. þannig til óþurftar bændastéttinni í heild, af því að hann sér hilla undir einhverja framsóknarmenn í því sambandi.

Ég hef þá dregið fram nokkur meginatriði í þessu máli, og hneigjast þau öll að því, að sú afgreiðsla, sem þetta mál fékk við 2. umr., sé algerlega ósamboðin og frekleg móðgun og árás á bændastétt landsins. Bændastéttin hafði sjálf ákveðið, áður en frv. var flutt um það á Alþ., að fara fram á það, að innheimtumenn ríkisins innheimtu þetta fé fyrir bændur um leið og þeir innheimtu önnur gjöld. Bændur hafa sjálfir ákveðið, að þessi skattur skyldi vera á þá lagður, og þeir hafa sjálfir ákveðið það, að þeir menn, sem bændur kjósa sem fulltrúa sína á búnaðarþing, hefðu vald til að ráðstafa þessu fé á hverjum tíma. Búnaðarþingsfulltrúarnir verða vitanlega að standa reikningsskap af þeim ráðstöfunum sínum gagnvart þeim bændum, sem kusu þá á búnaðarþingið. Ef bændum líkar ekki það, sem þeir hafa gert, þá skipta þeir um menn, þegar næst verður kosið og senda þá menn, sem þeir treysta betur. Þetta fyrirkomulag, sem þarna er ríkjandi, á sér aðra hliðstæðu, Alþingi. Kjósendur, sem eru menn úr öllum stéttum, velja menn til Alþ. til þess að fara með málefni þeirra. Ef þeim líkar ekki, hvernig þeir rækja umboð sín, þá breyta þeir til og senda aðra menn, sem þeir treysta betur. Mér finnst það hart, ef alþm., sem komnir eru hingað í þessum rétti, vilja með samþykkt vera að skerða samtök og hliðstæðan rétt fulltrúa á búnaðarþingi, sem þangað eru valdir af þeirri stétt, sem að búnaðarþingi stendur, og þar sem það er gert á nákvæmlega eins lýðræðislegan hátt og fulltrúar á Alþ, eru valdir. En þetta gerir Alþ., ef það tekur ráðstöfunarréttinn af þessum mönnum, af þeim mönnum, sem bændur ætlast til, að fari með hann. Í þessu efni er það stóri bróðir, sem á alls kostar við litla bróður, sem á að skapa annan og minni rétt. Þetta er óeðlilegt og ósanngjarnt jafnframt því, sem þetta er móðgun við bændastéttina og stangast á við eðlilegt lýðræðisfyrirkomulag. Þetta er öllum til óþurftar og leiðinda og engum til gagns.

Það er engin furða, þótt gerð hafi verið tilraun til þess í deildinni að víkja þessum beiska kaleik frá Alþ. Það var gert af fyrrv. forseta Sþ., 10. landsk., með því að bera fram rökst. dagskrá, sem fól það í sér, að búnaðarsamböndin athuguðu þetta mál í sambandi við kosningar eða áður en búnaðarþing kæmi saman: En það er búið að koma þessu máli inn í þann farveg, að það tókst að koma í veg fyrir, að þessi rökst. dagskrá yrði samþ. Nú hefur hv. 1. þm. Árn. bent á aðra leið át úr þessu máli, sem sé að í stað þess að bera fram rökst. dagskrá er lagt til að vísa málinu til ríkisstj. og henni falið að fara með málið inn á sömu braut og gert var ráð fyrir í dagskrártill., sem var felld hér. Og það er ekkert umlarlegt, þótt þeir, sem að þessum till. standa, séu einmitt báðir fyrrv. forsetar Alþ. Það er ekkert undarlegt, þótt þessir menn reyni að koma í veg fyrir, að það verði framkvæmt, sem í þessu frv. felst og ég hef leitazt við í þessum tiltölulega fáu orðum að skýra, sem sé, að ekki sé einasta gengið á rétt bændastéttar landsins, heldur beinist þetta líka gegn því lýðræði, sem kosningar til búnaðarþings og Alþ. byggjast á. Og það er mikil ábyrgð, sem það Alþ., sem nú situr, tekur á sig með að afgr. frv. eins og það nú er orðað.

Hv. þm. A.-Húnv. setti sjálfan sig í slæma klípu í ræðu þeirri, sem hann hélt áðan. Ég benti honum á það þá og gerði það af góðum hug. Hv. þm. vildi halda því fram sem röksemd fyrir því ákvæði, sem sett var inn í frv. í fyrra um, að landbrh. skyldi samþ. ráðstöfun búnaða þings á fénu, að ráðh. samþ. ráðstöfun búnaðarþings á því fé, sem Alþ. veitir til starfsemi Búnaðarfélagsins. Mér dettur ekki í hug að trúa því, að hv. þm. sjái ekki eðlismuninn á þessu tvennu. Það fé, sem Alþ. veitir til starfsemi Búnaðarfélagsins, er veitt í fjárl. úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar, úr þeim sjóði, sem allar stéttir leggja í. Og allveigamikill þáttur í starfsemi Búnaðarfélags Íslands er að sjá um framkvæmdir í samráði við þann ráðh:, sem fyrst og fremst fer með landbúnaðarmálin á hverjum tíma. Þetta eru framkvæmdaatriði á ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum í landbúnaðinum og einnig skyldum störfum í kaupstöðum og kauptúnum varðandi nautgripa-, sauðfjár- og hrossarækt og fleiri störf. Þetta er starfsemi, sem ríkið hefur tekið að sér með. l. frá Alþ. að standa að og hefur falið Búnaðarfélagi Íslands fyrir sína hönd framkvæmd á. Aðeins mjög lítill hluti af þessu fé fer til sameiginlegrar starfsemi búnaðarfélagsskaparins í landinu. Þess vegna er ekkert við það að athuga, þótt ráðstafanir á því fé, sem Alþ. veitir til Búnaðarfélagsins, séu bundnar samþykki þess ráðh., sem með þessi mál fer. Mér vitanlega hefur heldur aldrei verið neinn ágreiningur um þetta. Hef ég þó miklu lengri reynslu hér á Alþ. en hv. þm. A.-Húnv. Sams konar ákvæði og þetta eru einnig til varðandi Fiskifélag Íslands. En um búnaðarmálasjóð gegnir allt öðru máli. Þar er um fé að ræða, sem bændur leggja á sjálfa sig til sameiginlegrar félagsstarfsemi, og bændur fela búnaðarþingi að ráðstafa þessu fé. Þetta er svo gersamlega ólíkt, að það er furðulegt, að hv. þm. skuli grípa til svo fjarstæðukenndra röksemda að leggja þetta tvennt að jöfnu. Hv. þm. litur kannske svo á, að bændur þurfi að borga sérstaklega fyrir það, að skattheimtumenn ríkisins innheimti þetta fé með öðrum sköttum til ríkisins. Sé svo, þá vil ég segja, að það sé dýru verði keypt, ef það á að kosta bændur að afsala sér frjálsum yfirráðarétti yfir þessu fé. Þetta sýnir aðeins það, hvað menn geta komizt langt frá því, sem er eðlileg rök í málinu, jafnframt því sem það sýnir, hvað grundvöllurinn, sem þessir menn byggja till. sína á, er háll og sleipur.

Ég vil benda á það, þótt það hafi verið gert af hv. 2. þm. N. M., að það mun sennilega ekki vera hægt að framkvæma þetta eins og till. gerir ráð fyrir. Það er víða ekki hægt að sjá um það, að þeir, sem leggja mest í sjóðinn, séu örugglega tryggðir fyrir því, að enginn einasti eyrir gangi til stéttarbræðra þeirra annars staðar á landinu, hversu sem þeir eru á vegi staddir í sinni lífsbaráttu. Ég vil benda á, eins og hv. 2. þm. N.-M., að það mundi verða mjög erfitt að láta þetta allt koma fullkomlega fram. Það getur vel verið, að það verði ekki svo gott að sjá fullkomlega út, hvar á landinu þetta kjötlæri, bógur eða svíri er framleitt, svo að það sé algerlega öruggt, að þetta ½% af lærinu, bógnum eða svíranum lendi á réttum stað. Ég vona, að þeir hv. þm., sem reikna svona grannt, verði ekki móðgaðir, þótt á þetta sé minnzt.

Hv. 2. þm. Skagf. benti á það áðan, að til þess að fullkomna það sköpunarverk, sem flutt er í frv. og till., sem búið er að samþ., þá er ekki eftir nema einn þröskuldur. Það er, að búnaðarsamböndin tækju upp þann hátt að skipta þessu niður milli búnaðarfélaganna, sem síðan skiptu því á milli einstaklinganna. Og þá er hringurinn kominn. Sirkillinn hefur nú eftir hringrásina komið saman, þar sem honum var stungið niður fyrst. Þá er réttlætið fullkomnað, þá fær hver sitt. Þetta er í sjálfu sér ekkert vitlausara en það, sem þegar er byrjað á í þessu máli.

Hv. þm. A.-Húnv. viðhafði þau orð í lok ræðu sinnar, að það mundi ekki þýða mikið að halda uppi þrætum um þetta frv., því að forlög þess væru ráðin. Ég hef sýnt fram á það hér, að það er í algeru ósamræmi við eðlilegan gang mála hér á Alþ., að málið sé afgr. í þeirri mynd, sem það er nú. Þetta er móðgun og vanvirða gagnvart bændastétt landsins, því að bændastéttin er búin að lýsa yfir, að hún vill hafa það form, sem í l. felst, og í öðru lagi, að hún mótmæli íhlutunarrétti ráðh. í þessu máli. Þetta hef ég sýnt fram á. Og það er engin rökrétt hugsun, sem liggur á bak við þá ákvörðun að afgr. málið í því formi, sem það liggur fyrir. Samt segir hv. þm.: Forlög þess eru ráðin.

Það ber að sama brunni með þetta eins og þegar ég hóf ræðu mína. Með því að samþ. þetta frv., þá er verið að hafa að leiksoppi heiður og hagsmuni bændastéttarinnar á óviðkunnanlegan og óviðurkvæmilegan hátt hér á Alþ. Og mér er það undrunarefni, hvernig á því getur staðið, að hver einasti hv. þm., í hvaða flokki og hvaða stétt, sem hann tilheyrir, skuli ekki finna hjá sjálfum sér og sinni eigin stétt þær hugsanir og þann vilja að fá að ráða sjálfir því fé, sem þeir vilja leggja á sig til sinna eigin félagslegu samtaka. Hverjum ætli dytti í hug, , að það fé, sem verkamenn leggja í sjóði hjá sér, yrði bundið slíkum skilyrðum, þótt farið væri fram á, að það væri innheimt með öðrum sköttum ríkisins? Ætli þeir vildu sætta sig við það frekar en bændur, að fyrir þann litla greiða yrði tekinn af þeim yfirráðarétturinn yfir því, hvernig þessu fé væri varið? Mér er það undrunarefni, ef það fyrirfinnst nokkur maður hér í Alþ., sem ekki viðurkennir það, að bændastétt landsins sé það þýðingarmikil stétt fyrir þjóðfélagið, fyrir þróun þess og framtíð, að það ætti ekki að vera að setja neinar hömlur á sjálfsforræði hennar, þótt henni sé gerður slíkur greiði og sá að innheimta þetta gjald. Og það, sem kannske undarlegast er; er það, að þar sem Alþ. hefur nú gert þetta, þá skuli næsta Alþ. taka slíkum tökum á málinu sem það nú hefur gert fyrir forustu tveggja hv. þm., hv. 1. landsk. og hv. þm. A-.Húnv.

Ég verð að segja það, okkar hæstv. forseta, sem sæti á í landbn., til hróss og viðurkenningar, þó að hann hafi ekki skuldbundið sig til að berjast fyrir hagsmunum bænda á sama hátt og menn bæði í Sjálfstfl. og Framsfl. hafa gert og sé því ekki neitt bundinn, að hann tók þá afstöðu í n. að slíta öllum félagsskap um þetta mál við þm. A.-Húnv. og 1. landsk. Og þegar svo til atkvgr. kom í d., greiddi hann atkv. móti þessari till. (JPálm: Þetta er ekki rétt frekar en annað.) Hann greiddi atkv. móti frv., því að dagskráin kom frv. fyrir kattarnef. (JPálm,: Þetta er samt sem áður rangt.) Það er ekki til neins fyrir hv. þm. að vera að reyna að bjarga sér á orðaleik einum eins og því, að þetta hafi ekki verið rétt hjá mér. Hvers vegna ætli hann hafi greitt atkv. með rökst. dagskránni, nema af því að hann var á móti frv. ? Hv. þm. A.-Húnv. getur því tekið það fram eins oft og hann vill, að þetta hafi ekki verið rétt. Það er alveg sama, hve oft hann endurtekur það, að það sé hvítt, sem er svart,-svart verður alltaf jafnsvart fyrir því.

Það voru þessi orð, sem mig langaði til að koma hér að við þessa umr., af því að ég er flm. þessa máls, og þó öllu fremur af hinu, sem ég hef lýst, að sóma þeirrar stéttar, sem ég er í og á hverjum tíma ber skjöld fyrir, er svo misboðið með till. hv. þm. A.-Húnv. og 1. landsk., að við því hefði enginn maður með sönnum og réttum hugsunarhætti sveitamannsins þagað.